| Heimir Eyvindarson

Kemur í ljós í hádeginu á morgun

Bloomfield Road, heimavöllur Blackpool verður metinn af dómurum og eftirlitsmönnum frá FA kl. 12 á morgun. Þá kemur í ljós hvort leikur Liverpool og Blackpool geti farið fram.

Eins og við höfum áður sagt frá er heimavöllur nýliðanna í Blackpool ekki upphitaður eins og aðrir vellir í Úrvalsdeildinni og því eru minni líkur á því að hægt sé að spila á honum en öðrum völlum þegar kuldakast eins og nú skekur Bretlandseyjar skellur á.

Forráðamenn Blackpool gera þó allt sem í þeirra valdi stendur til að leikurinn geti farið fram og eru í dag bjartsýnni en þeir hafa áður verið, á að leikurinn á morgun geti farið fram. 


Leikur Blackpool og Liverpool á að hefjast kl. 15.00 á morgun og dómari leiksins, eftirlitsmenn frá enska knattspyrnusambandinu, sem og fulltrúar frá Liverpool, munu meta ástand vallarins kl. 12 á morgun.

Eins og stendur er yfirbreiðsla yfir vellinum, þakin hjólbörðum sem gallharðir velunnarar félagsins hafa safnað saman til að hjálpa til við að halda hita á vellinum. Þá ganga hitablásarar allan sólarhringinn þannig að menn í Blackpool gera svo sannarlega allt sem hægt er miðað við aðstæður til að leikurinn megi fara fram á tilsettum tíma.

Helsta áhyggjuefni heimamanna hefur verið að halda vellinum leikhæfum í 90 mínútur, það er að segja eftir að dekkin og yfirbreiðslan hefur verið tekin af. Nú eru menn heldur bjartsýnni en áður á að það geti tekist því nýjustu veðurspár gera ekki ráð fyrir jafn miklum kulda og áður var talið rétt á meðan leikurinn fer fram.

Það er því óhætt að segja að í augnablikinu séu heldur meiri líkur en minni á því að okkar menn etji kappi við hina litríku nýliða Blackpool á morgun. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan