| Sf. Gutt

Auðvelt áframhald

Liverpool rölti auðveldlega áfram í næstu umferð Evrópudeildarinnar. Liðið lagði Rabotnicki 2:0 að velli á Anfield Road og hafði ekki mikið fyrir því. Roy Hodgson stjórnaði Liverpool í fyrsta sinn á Anfield og Joe Cole spilaði stórvel vel í frumraun sinni með Liverpool.
 
Það var ekki uppselt á þennan fyrsta leik Roy Hodgson á Anfield Road en þeir sem mættu, og eins þeir sem fjarri voru, biðu nokkuð spenntir eftir því hvaða menn hann veldi til leiksins. Það kom nokkuð á óvart hversu sterku liði Roy tefldi fram og ensku landsliðsmennirnir voru mættir og Steven Gerrard leiddi liðið. Líklega hefur það verið gert til að auka leikæfingu þeirra því Liverpool leikur ekki aftur fram að fyrsta deildarleik. Eins kom á óvart að Daniel Pacheco skyldi vera í byrjunarliðinu.

Stuðningsmenn Liverpool tóku vel á móti liðinu sínu og ekki síður nýja framkvæmdastjóra þess fyrir leikinn. Fyrir utan Roy Hodgson þá voru þeir Joe Cole og Milan Jovanovic líka í fyrsta sinn á Anfield í rauða búningnum. Liverpool tók strax öll völd þegar leikurinn hófst og óhætt er að segja að Joe Cole hafi farið fremstur í flokki. Ekki verður annað sagt en hann hafi spilað mjög vel. Hann var duglegur, hreyfanlegur og ógnaði linnulaust.

Liverpool fékk sitt fyrsta færi eftir stundarfjórðungs leik. Steven Gerrard stakk þá boltanum inn á vítateig eftir að hafa fengið laglega hælsendingu frá Joe Cole. David Ngog komst einn á móti markmanninum Martin Bogatinov. Frakkinn ungi ákvað að leika á hann en Martin sá við honum og náði boltanum. Þar hefði David átt að gera betur. David var reyndar búinn að skora þegar hér var komið við sögu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Litlu síðar sendi Joe laglega sendingu inn á vítateiginn. Þangað var Daniel Pacheco kominn en Martin var snöggur út úr markinu og náði að sitja Daniel út af laginu áður en hann komst í færi. 
 
Á 22. mínútu kom David Ngog boltanum í markið á löglegan hátt. Steven átti fast skot utan vítateigs sem Martin varði í horn. Hornspyrnan var frá vinstri og Steven sendi boltann til baka út á Joe sem gaf fyrir markið á David sem skallaði fallega í mark þverslá og inn! Vel gert hjá þeim þremur og David er kominn með þrjú mörk á leiktíðinni!

Enn kom David við sögu þegar fimm mínútur voru til leikhlés. Hann fékk skalla frá Lucas Leiva inn í vítateiginn og hugðist leika á varnarmann en sá felldi Frakkann og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Steven Gerrard tók vítaspyrnuna og skoraði auðveldlega með lausu skoti. Hann hefur varla tekið lausara víti á ferlinum en þau þurfa ekki að vera föst. Ekkert var meira skorað í hálfleiknum.

Joe Cole var næstum búinn að skora eftir nokkrar sekúndur í síðari hálfleik þegar lúmskt skot eða fyrirgjöf hans frá vinstri small í þverslá. Þar sluppu gestirnir vel. Á 49. mínútu ógnaði Milan Jovanovic eftir góða rispu fram völlinn og skot utan teigs en Martin varði vel í horn.

Á 54. mínútu braust Joe inn á vítateiginn vinstra megin en skot hans var varið í horn. Það var svo aftur varið frá honum af svipuðum slóðum nokkru seinna. Á 70. mínútu fékk David svo upplagt færi eftir fyrirgjöf Glen Johnson en skalli hans var beint á Martin í markinu. Þar átti David sannarlega að skora. Yfirburðir Liverpool voru geysilega miklir en mörkin létu á sér standa. Á 80. mínútu komst Maxi Rodriguez inn á teig en varnarmaður bjargaði skoti hans á síðustu stundu.

Undir lokin gekk mikið á við bæði mörk. Á 88. mínútu bjargaði vörnin frá Joe sem var kominn í gott færi. Undir blálokin ógnuðu gestirnir í einu skiptin í leiknum. Fyrst hefði Rabotnicky átt að fá víti þegar Martin Skrtel flækti sig í einum Makedónanum. Liverpool ruddist svo upp og Joe átti fast langskot sem var varið. Það átti einfaldlega ekki fyrir honum að liggja að skora í kvöld! Makadónar fóru fram í næstu sókn og Martin Kelly bjargaði meistaralega í horn eftir hættulega fyrirgjöf og eftir hornið átti Wandeir skot í stöng vinstra megin úr teignum! 

Sigur Liverpool var á hinn bóginn aldrei í hættu í þessum tveimur leikjum liðanna og liðið hefur nú náð fyrsta áfanganum á því sem gæti orðið löng og ströng Evrópuvegferð.

Liverpool: Cavalieri, Johnson, Carragher, Kelly, Skrtel, Gerrard (Aquilani 62.mín.), Cole, Leiva (Spearing 73. mín.), Jovanovic (Rodriguez 67. mín.), Ngog og Pacheco. Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Wilson, Kyrgiakos og Eccleston.

Mörk Liverpool: David Ngog 22. mín. og Steven Gerrard, víti, 40. mín. 

Rabotnicki Skopje: Bogatinov, Dimovski, Adem, Belica, Todorovski (Petkovski 87. mín.), Gligorov, Tuneski, Lopes, Filho (Mojsov 62. mín.), Da Silva (Marcio 81. mín.) og Dos Santos. Ónotaðir varamenn: Kandikijan, Sekulovski, Carlos, Sinkovic, 

Gul spjöld: Jose Ze Carlos og Gjorgji Mojsov.

Áhorfendur á Anfield Road: 31.202.

Maður leiksins: Joe Cole. Frumraun hans í opinberum leik með Liverpool lofar sannarlega góðu. Joe var mjög góður í leiknum. Hann sýndi bæði einstaklingsframtak þegar við átti og eins tók hann kröftuga spretti sjálfur. Hann lagði upp fyrra markið og var óheppinn að skora ekki sjálfur.
 


Roy Hodgson: Ég var búinn að hlakka til þessa leiks og það var gaman að geta sýnt góðan leik og sigra. Ég er ánægður, það sama má segja um leikmennina og ég vona að stuðningsmennirnir séu það líka. Við spiluðum skemmtilega knattspyrnu á köflum og fengum fleiri færi en markatalan gefur til kynna. Við héldum einbeitingu okkar til loka og það var mikilvægt því það er auðvelt í svona leikjum að missa hana og þá fara menn að gera hluti sem ekki var lagt upp með.

                                                                                Fróðleikur

- Roy Hodgson stýrði Liverpool í fyrsta sinn á Anfield Road.

- David Ngog hefur nú skorað þrjú mörk á þessari nýbyrjuðu leiktíð.

- Steven Gerrard skoraði sitt 35. Evrópumark og bætti Englandsevrópumarkamet sinn enn og aftur.
 
- Steven var auðvitað fyrirliði Liverpool í leiknum en Lucas Leiva leiddi Liverpool sem fyrirliði í fyrsta sinn í fyrri leiknum.

- Diego Cavalieri lék sinn 10. leik með Liverpool.

- Joe Cole lék sinn fyrsta leik með Liverpool.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan