| Sf. Gutt

Dæmigert fyrir keppnistímabilið

Liverpool lauk keppnistímabilinu með dauflegu 0:0 jafntefli á útivelli við Hull City sem var fallið áður en leikurinn hófst. Liverpool endaði þetta erfiða keppnistímabil í sjötta sæti sem er algjörlega óásættanleg niðurstaða!

Liverpool gat með sigri komist upp í sjötta sæti deildarinnar ef Aston Villa næði ekki að vinna sinn leik. Sæti í Evrópudeildinni var í höfn hjá Liverpool hvernig sem þessi leikur færi. Þótt Hull væri fallið kom það ekki fyrir fyrir magnaða aðsókn og aldrei hafa verið fleiri áhorfendur á KC leikvanginum á leik með liðinu!

Ekki var margt tíðinda framan af leiknum en eftir stundarfjórðung lá Javier Mascherano í valnum eftir að félagi hans Lucas Leiva hafði traðkað á honum! Svolítið dæmigert fyrir vanræðaganginn á leiktíðinni en Javier komst á fætur. Á 18. mínútu kom fyrsta færið. Nabil El Zhar kom sér í skotstöðu rétt utan vítateigs og náði föstu skoti sem stefndi efst í markið en Matt Duke varði frábærlega með því að slá boltann yfir. Eftir hornið sem fylgdi átti Nabil aftur skot sem Dirk Kuyt skallaði aftur fyrir sig. Aftur leit út fyrir mark en George Boateng náði að bjarga á marklínu með því að fleyta boltanum yfir með skalla. Á 29. mínútu átti Alberto Aquilani skot rétt framhjá úr teignum. 

Heimamenn náðu svo loks að ógna á 35. mínútu. Ungliðinn Mark Cullen náði þá ekki að stýra boltanum í markið af stuttu færi. Nokkrum sekúndum seinna sendi Will Atkinson fyrir á Mark en hann skallaði framhjá úr dauðafæri. Á lokamínútu hálfleiksins sótti Liverpool af krafti. Eftir hamagang fór boltinn til Alberto sem var rétt við vítapunktinn en skot hans fór í þverslá og út á Daniel Agger sem fékk upplagt færi en skot hans, af stuttu færi, fór víðsfjarri. Ekki var skorað í hálfleiknum og ekkert meira um hann að segja.

Hull hóf síðari hálfleikinn vel og litlu munaði á 51. mínútu þegar enginn náði til góðrar fyrirgjafar Bernard Mendy. Tíu mínútum seinna eða svo átti Bernard fast skot úr aukaspyrnu sem Jose varð að taka á við að slá yfir. Aftur voru heimamenn grimmir tólf mínútum fyrir leikslok þegar Jamie Carragher varði hörkuskot rétt við vítateigslínuna með hendi. Ekkert varð þó sem betur fer úr aukaspyrnunni. Fimm mínútum fyrir leikslok varð Jose að vera vel á verði þegar hann sló fast langskot Tom Cairney frá.
 
Á 87. mínútu gerðist það merkilegasta hjá Liverpool þennan síðasta dag leiktíðarinnar. Jack Robinson kom þá inn á sem varamaður í staðinn fyrir Ryan Babel. Jack setti, um leið og hann fór inn á völlinn, félagsmet því hann varð yngstur allra leikmanna í sögu Liverpool til að spila fyrir hönd félagsins. Strákurinn var aðeins 16 ára og 250 daga gamall. Sannarlega söguleg stund í sjálfu sér!

Liverpool hefði átt að ná sigri undir lokin. Mínútu fyrir leikslok braust Steven upp hægra megin en skot hans við vítateiginn fór rétt framhjá. Á síðustu mínútunni sendi hinn kornungi Jack boltann fram á Steven sem tók kröftuga rispu upp að vítateignum en skot hans fór í stöng og framhjá. Ekkert lið hefur átt jafn mörg skot í tréverkið á þessari leiktíð og þar fór vonin um að komast upp fyrir Aston Villa sem tapaði. Ekkert mark kom og hroðaleg leiktíð var þar með búin og líklega voru allir tengdir Liverpool ánægðir með það!

Þessi leikur var á margan hátt dæmigerður fyrir þetta keppnistímabil. Það var deyfð yfir liðinu, andleysi var ríkjandi, leikmenn náðu sér ekki á strik, færi fóru forgörðum og heppnin var ekki með þegar á þurfti að halda. Allt á sömu bókina lært eins og svo oft áður!

Hull City: Duke, Dawson, Gardner, Mendy, Mouyokolo, Kilbane (Geovanni 76. mín.), Boateng, Atkinson Cairney, Cullen og Vennegoor of Hesselink (Fagan 84. mín.). Ónotaðir varamenn: Myhill, McShane, Cooper, Barmby og Olofinjana.

Gult spjald: Will Atkinson.

Liverpool: Reina, Agger, Kyrgiakos, Carragher, Aquilani (Pacheco 73. mín.), Gerrard, Mascherano, Leiva, Kuyt, Babel (Robinson 87. mín.) og El Zhar (Ngog 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Degen, Skrtel og Ayala.

Áhorfendur á KC leikvanginum: 25.030.

Maður leiksins: Sotirios Kyrgiakos. Oft hefur verið erfitt að velja besta mann Liverpool á þessu keppnistímabili vegna slakrar frammistöðu leikmanna en Grikkinn var mjög sterkur í vörninni, lék af einbeitni og gaf ekki tommu eftir frekar en fyrri daginn.

Rafael Benítez: Ég held að það hafi verið augljóst að við reyndum að vinna leikinn. Við fengum færi og hefðum getað skorað undir lok leikins. Við fengum þrjú eða fjögur færi en náðum ekki að nota þau.

                                                                                 Fróðleikur.

- Liverpool endaði í sjötta sæti í deildinni.

- Liðið endaði síðast svo neðarlega á leiktíðinni 1998/99.

- Liverpool fékk 23 stigum minna en á síðasta keppnistímabili.

- Liverpool fékk 63 stig en Chelsea varð Englandsmeistari með 86 stig.
 
- Jack Robinson lék sinn fyrsta leik með Liverpool.

- Jack setti nýtt félagsmet því hann er nú yngstur allra leikmanna Liverpool til að spila fyrir hönd félagsins.

- Jack var 16 ára og 250 daga gamall þegar hann kom til leiks í fyrsta sinn.

- Dirk Kuyt lék sinn 200. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 51 mark í þeim leikjum.

- Jamie Carragher lék í 630. sinn fyrir hönd Liverpool. Hann hefur skorað fimm mörk.

- Rafael Benítez stjórnaði Liverpool í 350. sinn. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan