| Heimir Eyvindarson

Maxi Rodriguez á réttri leið

Rafa Benítez er ánægður með hve fljótt Argentínumaðurinn Maxi Rodriguez virðist ætla að aðlagast enska boltanum.

Benítez segir í viðtali við Liverpool Echo að hann hafi verið mjög ánægður með frammistöðu Maxi gegn Blackburn. Það hafi verið besti leikur Argentínumannsins í herklæðum Liverpool hingað til og hann eigi eftir að verða enn betri þegar hann verði kominn betur inn í leikskipulag liðsins og hraðann í Úrvalsdeildinni.

Maxi Rodriguez kom til Liverpool frá Atletico Madrid í janúar og þegar Benítez kynnti kappann á Melwood sagði hann að þarna væri á ferð afar teknískur leikmaður. Þessi flinki Argentínski landsliðsmaður hefur þó átt í nokkrum erfiðleikum með að komast inn í tempóið í enska boltanum, enda er það alkunna að hraðinn og baráttan í Englandi er talsvert meiri en menn eiga að venjast annars staðar í Evrópu.

Í leiknum gegn Blackburn sýndi Maxi þó loks úr hverju hann er gerður og átti að mati Benítez virkilega góðan leik. Hann átti t.d. stoðsendinguna þegar Torres skoraði sitt mark.

,,Maxi er allur að koma til og frammistaða hans gegn Blackburn er það besta sem hann hefur sýnt hér hjá okkur", segir Benítez.

,,Við höfum rætt mikið saman um hraðann í Úrvalsdeildinni og síðan hann kom höfum við spilað leiki með mjög hátt tempó, t.d. nágrannaslag við Everton, þannig að hann hefur svo sannarlega fengið að kynnast því hvernig boltinn er hérna."

,,Maxi er á mjög góðri leið með að komast inn í boltann hér og honum líður sjálfum mun betur en í fyrstu. Hann skilur betur núna hvernig enska deildin virkar; hraðinn, tæklingarnar og baráttan eru engu öðru lík! Hann er tilbúinn í þá áskorun núna og það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa leikmann innan okkar raða sem er svo tæknilega sterkur og hefur jafnframt sjálfstraustið og leikskilninginn til að halda boltanum og bera uppi spilið. Það er afar dýrmætt."

,,Maxi er frábær atvinnumaður. Hann er alltaf að læra og er fús til þess. Hann hefur mikla reynslu og býr yfir ótvíræðum hæfileikum. Hann á eftir að reynast okkur mjög vel."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan