| Sf. Gutt

Naumt skammtað nesti

Liverpool hefur naumt skammtað nesti í ferð sína í seinni leikinn við Unirea Urziceni í Evrópudeildinni eftir 1:0 sigur á Anfield Road. Ekki náði liðið sér í gang frekar en oftast áður á þessu keppnistímabili.

Þar með hófst Evrópudeildarþátttaka Liverpool á þessari leiktíð. Rafael Benítez stillti upp sterku liði og það átti greinilega að ná góðum úrslitum í þessu fyrri leik liðanna. Byrjunin var líka kraftmikil. Unirea hóf leikinn en Liverpool hirti boltann strax og hröð sókn endaði með því að Steven Gerrard fékk boltann í teignum. Hann þrumaði að marki en Giedrius Arlauskis varði með tilþrifum í horn. Þarna voru aðeins 25 sekúndur búnar af leiknum!

Það varð strax ljóst hvernig leikurinn myndi þróast. Liverpool sótti en rúmenska liðið pakkaði í vörn! Eins og svo oft gekk Liverpool illa að fást við svona leikaðferð andstæðinga sinna. Á 11. mínútu komst Dirk inn á teig hægra megin en Giedrius varði skáskot hans í horn. Enn hélt sókn Liverpool áfram og á 15. mínútu átti Fabio Aurelio aukaspyrnu sem fór rétt framhjá. Eftir þetta gerðist lítt og aðeins eitt gott færi skapaðist fram að leikhléi. David Ngog fékk þá langa sendingu inn í vítateiginn á 37. mínútu. Hann sneri baki í markið en tók boltann vel niður, sneri sér við og skaut góðu skoti sem fór rétt framhjá. Ekkert hafði verið skorað í leikhléi.

Liverpool gekk ekkert betur að opna vörn rúmenska liðsins í síðari hálfleik. Leikmenn Unirea vörðust með kjafti og klóm en ógnuðu ekkert sem hægt er nefna allan leikinn. Á 52. mínútu fékk Steven þó gott færi en hann skallaði framhjá eftir fyrirgjöf frá hægri. Þar hefði hann átt að skora. Tíu mínútum seinna kom Fabio sér í skotfæri utan teigs en markmaður Unirea varði þrumuskot hans í horn. Enn liðu tíu mínútur eða svo að næsta færi. Martin Skrtel skallaði þá rétt yfir eftir horn. Þegar hér var komið sögu var Ryan Babel kominn inn á og nú loksins sýndi hann hvað í honum býr. Hann fór út á vinstri kant og hraði hans breytti sóknarleik Liverpool til mikilla muna. Daniel Pacheco gerði líka góða hluti eftir að hann kom til leiks. Þessir tveir ungliðar lögðu svo upp mark fyrir þriðja ungmennið á 81. mínútu. Ryan sendi fyrir markið frá vinstri. Daniel komst í boltann við fjærstöngina og skallaði til baka fyrir markið. Fyrir miðju marki náði David Ngog að skjóta sér fram og stanga boltann í markið. Vel gert hjá ungliðunum og loksins var komið mark! Ekki var boðið upp á fleiri mörk en Steven var þó nærri því að skora fimm mínútum fyrir leikslok þegar þrumuskot hans frá vítateig fór rétt framhjá. Nestið fyrir ferðina til Rúmeníu var því naumt skammtað en það er þó alltaf eitt mark.   

Liverpool: Reina, Carragher, Skrtel, Agger, Aurelio, Mascherano, Aquilani (Pacheco 75. mín.), Kuyt, Gerrard, Riera (Babel 63. mín.) og Ngog (Leiva 89. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Kyrgiakos, Insua og Degen.
 
Mark Liverpool: David Ngog (81. mín.).

Gult spjald: Javier Mascherano.

Unirea Urziceni: Arlauskis, Maftei, Galamaz, Bruno Fernandes, Brandan, Paraschiv (Vilana 86. mín.), Onofras (Marinescu 75. mín.), Paduretu (Rusescu 90. mín.), Apostol, Frunza og Bilasco. Ónotaðir varamenn: Tudor, Mehmedovic, Nicu og Bordeanu.

Gul spjöld: Brandan og Fernandes.

Áhorfendur á Anfield Road: 40,450.

Maður leiksins: Ryan Babel hefur ekki sýnt mikið á þessu keppnistímabili en hann var mjög góður eftir að hann kom inn á sem varamaður. Hann var ákveðinn og reyndi sitt besta. Hann átti stóran þátt í sigurmarkinu.

Rafael Benítez: Þetta voru nú ekki bestu úrslitin sem hægt var að hugsa sér en þó í lagi. Það var gott að halda markinu hreinu. Það þarf stundum að sýna þolinmæði þegar hitt liðið verst svona vel. Við biðum eftir að ná marki og vorum ánægðir með að það skyldi loksins takast.

                                                                               Fróðleikur

- Liverpool lék sinn 307. Evrópuleik. Liðið hefur unnið 174. Jafnteflin eru 66 og töpin 67.
 
- Liverpool hóf þátttöku í Evrópudeildinni í fyrsta sinn frá leiktíðinni 2003/04.

- Rafael Benítez stýrði Liverpool í fyrsta sinn í þessari keppni.

- Hann stýrði Valencia til sigurs í keppninni í sínum síðasta leik með liðið 2004. Valencia vann Marseille í úrslitum 2:0.
 
- Unirea Urziceni er 107. liðið sem Liverpool hefur mætt í Evrópuleikjum sínum.

- Unirea varð rúmenskur meistari í fyrsta sinn á síðustu leiktíð.
 
- Rúmenskt lið hefur aldrei skorað á Anfield í fimm tilraunum.

- David Ngog skoraði sjöunda mark sitt á keppnistímabilinu.

- Þetta var tíunda mark hans fyrir Liverpool í 43 leikjum.

- Javier Mascherano lék sinn 120. leik. Hann hefur aðeins skorað eitt mark.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.

 


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan