| Sf. Gutt

Steindautt jafntefli hjá strákunum okkar!

Þeir hafa nú verið daufir margir leikir Liverpool á þessu keppnistímabili en markalausa jafnteflið við Wolves í kvöld sló flest út í þeim efnum og var gersamlega steindautt. Liverpool hefur nú leikið fimm deildarleiki í röð án taps sem er reyndar gott.
 
Steven Gerrard mætti til leiks á nýjan leik eftir meiðsli og leiddi liðið sitt til leiks. Liverpool byrjaði vel og Albert Riera fékk gott skallafæri strax í byrjun leiks, eftir horn frá Steven, en hann náði ekki að hitta markið. Ekki náðist að skora framan af leik og við það náðu Úlfarnir meiri trú á verkefni sínu. Á 32. mínútu komst Matt Jarvis upp vinstra megin og sendi fyir markið. Kevin Doyle náði að pota boltanum að marki en hann fór framhjá. Það virtist þó sem Emiliano Insua hefði bjargað í horn en Liverpool fékk markspyrnu. Rétt fyrir leikhlé sendi Matt aftur fyrir en Kevin Foley skallaði beint á Jose Reina úr góðu færi.

Fyrri hálfleikur hafði verið tíðindalítill og tíðindum fjölgaði lítt í þeim síðari. Albert ógnaði snemma eins og í byrjun leiks en skot hans var ekki gott og Marcus Hahnemann varði auðveldlega. Heimamenn börðust eins og grimmir úlfar og Liverpool náði aldrei yfirhöndinni. Kevin Doyle náði föstu skoti utan teigs en boltinn þaut yfir. Dirk Kuyt átti svo gott bogaskot utan teigs, á 63. mínútu, sem fór rétt framhjá. David Ngog kom inn sem varamaður og hann náði næstum því að komast í færi undir lokin eftir góða rispu inn á vítateiginn. Ekkert kom markið í þessum tíðindalitla leik og úrslitin voru sanngjörn. Fyrir viku náðist frábær sigur gegn Tottenham en eins og svo oft áður á þessari leiktíð tókst ekki að fylgja góðum sigri eftir. Liverpool var slakt í leiknum og uppskeran var eftir því.

Wolverhampton Wanderers: Hahnemann, Zubar, Craddock, Berra, Ward, Mancienne, Foley, Henry, Milijas (Jones 73. mín.), Jarvis (Guedioura 88. mín.) og Doyle. Ónotaðir varamenn: Hennessey, Stearman, Vokes, Iwelumo og Bia Mujangi.

Liverpool: Reina, Carragher, Skrtel, Kyrgiakos, Insúa, Leiva, Mascherano, Rodríguez, Gerrard, Riera (Ngog 66. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Aquilani, Babel, Degen, Darby og Pacheco.

Gult spjald: Martin Skrtel.

Áhorfendur Molineux: 28.763.

Maður leiksins: Sotirios Kyrgiakos. Grikkinn hefur leikið mjög vel í vörn Liverpool í síðustu leikjum. Hann var traustur í þessum leik og stóð fyllilega fyrir sínu.

Rafael Benítez: Ef maður greinir leikinn þá voru þetta sanngjörn úrslit. Við réðum gangi mála í fyrri hálfleik en við náðum ekki að skapa nein opin færi og það gekk illa að reka endahnút á sóknirnar á þeirra vallarhelmingi. Þeir voru grimmari eftir leikhlé og við þurftum að verjast. Við náðum nokkrum góðum skyndisóknum en spilið var enn og aftur ekki nógu gott.

                                                                             Fróðleikur.

- Liverpool hefur nú leikið fimm deildarleiki án taps.

- Jose Reina hefur haldið markinu hreinu í fjórum þeirra þeirra.
 
- Liverpool hefur ekki tekist að vinna leik á Molineux frá því á hafísárinu 1979.

- Þetta var aðeins í annað sinn sem Úlfarnir hafa haldið marki sínu hreinu á heimavelli á leiktíðinni.  

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan