| Heimir Eyvindarson

Enn ein vonbrigðin í dag

Liverpool reið ekki feitum hesti frá viðureign sinni við Stoke á Brittania leikvanginum í dag. 1-1 jafntefli í tilþrifalitlum leik var niðurstaðan.

Liverpool hefur nú ekki unnið leik síðan á öðrum degi jóla þegar Úlfarnir heimsóttu Anfield. Gengi liðsins hefur verið arfaslakt það sem af er tímabilinu og má segja að botninum hafi verið náð þegar liðið tapaði fyrir Reading í bikarkeppninni í vikunni. Þeir aðdáendur Liverpool sem vonuðu að liðið myndi hrista af sér slyðruorðið í dag og innbyrða fyrsta sigurinn á nýju ári urðu enn og aftur fyrir vonbrigðum.

Auðvitað var ekki hægt að búast við mjög sóknarsinnuðu liði Liverpool í dag þar sem Steven Gerrard, Yossi Benayoun og Fernando Torres bættust allir á meiðslalistann eftir hörmungarnar gegn Reading, en tæpast áttu menn þó von á því að Rafa myndi stilla upp jafn varnarsinnuðu liði og hann gerði í dag, með bakverðina Degen og Aurelio á köntunum og varnartengiliðina Lucas og Mascherano inni á miðjunni, meðan Rodriguez, Riera og Aquilani voru geymdir á bekknum. Enda er ekki hægt að segja að sóknarleikur Liverpool hafi verið leiftrandi í dag, ekki frekar en svo oft áður í vetur reyndar. Því miður.

Leikurinn byrjaði þó nokkuð fjörlega og strax á fjórðu mínútu fékk Liverpool skyndisókn sem Aurelio klúðraði með einni furðulegustu sendingu sem sést hefur á Anfield!

Fjórum mínútum síðar skapaðist hætta upp við mark Liverpool. Martin Skrtel sópaði boltanum út fyrir hliðarlínuna í hálfgerðum vandræðagangi og Rory Delap þeytti boltanum inn í teig úr innkastinu, eins og honum einum er lagið. Reina var eitthvað óöruggur í teignum og boltinn næstum því lentur í netinu, en við sluppum með skrekkinn í þetta sinn. Rory Delap fór síðan af velli um miðjan fyrri hálfleikinn vegna meiðsla og óhætt er að segja að stuðningsmönnum Liverpool hafi verið nokkuð létt.

Á 19. mínútu komst Lucas í ágætt skotfæri en afgreiðsla Brasilíumannsins var sauðmeinlaus og Thomas Sørensen markvörður Stoke átti ekki í nokkrum vandræðum með að handsama knöttinn.

Fimm mínútum síðar hefði Liverpool verðskuldað að fá vítaspyrnu. Ekki var annað að sjá en að Danny Higginbotham felldi Lucas inn í teignum, en Lee Mason dómari leiksins var ekki á sama máli og leik- og stuðningsmenn Liverpool - og það ekki í fyrsta sinn á ferlinum. Hann afgreiddi málið með því að gefa Lucas spjald fyrir leikaraskap!

Það má segja að Liverpool hafi verið heldur sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum, en í upphafi síðari hálfleiks snerist taflið við og Stoke komst æ meir inn í leikinn.

Strax á upphafsmínútum hálfleiksins átti varamaðurinn Liam Lawrence gott skot rétt framhjá marki Liverpool og skömmu síðar brást rangstöðugildra Liverpool og Tuncay komst í upplagt færi. Sem betur fór sá Pepe Reina við honum og stuðningsmenn Liverpool gátu andað léttar.

En þrátt fyrir að Stoke væri hættulegri aðilinn í seinni halfleiknum voru það okkar menn sem skoruðu fyrsta mark leiksins. Þar var að verki Sotiris Kyrgiakos. Markið verður seint talið með glæsilegri mörkum, en Grikkinn sópaði boltanum yfir línuna eftir að Sørensen hafði mistekist að koma boltanum frá eftir aukaspyrnu Aurelio.

Leikmenn Liverpool voru vart búnir að fagna markinu þegar stórhætta skapaðist enn og aftur upp við þeirra eigið mark. Salif Diao tók innkast, Ryan Shawcross framlengdi boltann og Tuncay skallaði rétt framhjá úr ágætu færi.

15 mínútum fyrir leikslok þurfti Reina síðan að hafa sig allan við til að bjarga marki, en þá átti varamaðurinn Ricardo Fuller hættulegan skalla á markið. Liverpool slapp þar með skrekkinn enn eina ferðina og svo virtist sem liðinu ætlaði að takast að hanga á þessu eina marki allt til loka, en undir lok leiksins kom reiðarslagið.

Eftir óteljandi hornspyrnur Stoke að marki Liverpool varð eitthvað undan að láta og Robert Huth potaði boltanum yfir línuna á 90. mínútu. Vonbrigðin í andlitum Liverpool manna leyndu sér ekki.

Ekki urðu vonbrigðin minni skömmu síðar, þegar Dirk Kuyt skallaði boltann í stöngina á 95. mínútu í ágætu færi. Leikmenn Liverpool vildu meina að stjakað hefði verið við Lucas inn í teignum í aðdragandanum, en Lee Mason var ekki á sama máli. 1-1 jafntefli staðreynd í fremur tilþrifalitlum leik af hálfu okkar manna. Þó má ekki taka það frá leikmönnum Liverpool að baráttan og krafturinn var í ágætu lagi í þessum leik, en það var hinsvegar ekki oft sem liðinu tókst að skapa sér teljandi færi.

Liverpool
: Reina, Skrtel, Insua, Carragher, Kyrgiakos, Degen (Rodriguez 78. mín.), Aurelio, Lucas, Mascherano, Ngog (Aquilani 87. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Darby, Riera, Spearing og Pacheco.

Mark Liverpool: Sotiris Kyrgiakos (57. mín.).

Gul spjöld: Reina og Lucas

Stoke: Sørensen, Higginbotham, Shawcross, Faye (Wilkinson 26. mín.), Huth, Etherington, Whitehead, Diao, Delap (Lawrence 24. mín.), Sanli, Sidibé (Fuller 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Simonsen, Pugh, Whelan og Collins.

Mark Stoke: Robert Huth (90. mín.)

Gult spjald: Diao.

Áhorfendur á Brittania Stadium: 27,247.

Maður leiksins: Eins og svo oft áður í vetur er ekki hægt að horfa fram hjá frammistöðu Pepe Reina í markinu, sem er á góðri leið með að vera mikilvægasti leikmaður liðsins.

Rafael Benítez: Ég er mjög vonsvikinn. Við börðumst mjög vel í þessum leik og ég er mjög ánægður með framgang leikmanna minna. Við áttum að fá víti. Fyrst þegar Lucas var felldur á 25. mínútu og svo undir lok leiksins líka. Við vorum afar óheppnir.

Fróðleiksmolar:

Þetta var fyrsti leikur Maxi Rodriguez fyrir Liverpool. Hann kom inn á sem varamaður fyrir Philipp Degen á 78. mínútu.

Mark Robert Huth í dag var fyrsta markið sem Stoke skorar í deildarleik gegn Liverpool síðan árið 1984! Hafa ber í huga að þessi leikur var einungis 6. deildarleikur þessara liða síðan þá.

Stærsti sigur Liverpool gegn Stoke á útivelli var 5-1 sigur árið 1982. Þá var Sammy Lee meðal markaskorara Liverpool. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.




                                                          
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan