| Sf. Gutt

Andrea Dossena yfirgefur Liverpool

Andrea Dossena hefur yfirgefið Liverpool eftir að hafa verið eina og hálfa leiktíð í herbúðum félagsins. Hann heldur nú heim til Ítaliu þar sem hann mun spila með liði Napólí.

Liverpool fær um fjórir milljónir sterlingspunda fyrir ítalska landsliðsmanninn samkvæmt fréttum. Andrea var keyptur frá Udinese fyrir sjö milljónir punda. Hann gerði samning við Napoli til ársins 2014.

Andrea hafði þetta að segja þegar gengið hafði verið frá vistaskiptunum. "Ég er mjög ánægður með að klæðast treyju Napoli. Ég valdi að ganga til frægs liðs sem ætlar sér stóra hluti. Ég get ekki beðið eftir því að spila á Sao Paolo leikvanginum fyrir framan hina ótrúlegu áhorfendur sem þar safnast saman."

Andrea hefur oftast verið í ítalska landsliðshópnum frá því hann kom til Liverpool. Hann lék aðeins fimm leiki með Liverpool á þessu keppnistímabili. Hann fór frá Liverpool því hann vildi komast að hjá liði þar sem hann gæti spilað meira svo hann ætti einhverja möguleika á að komast í landslið heimsmeistaranna fyrir HM í sumar. 

Það var búist við miklu af Andrea Dossena þegar hann kom til Liverpool. Hann náði sér þó aldrei á strik frekar en flestir Ítalir sem leikið hafa á Englandi. Það var hverjum manni ljóst sem til sá að hann átti erfitt með að fóta sig í ensku knattspyrnunni. Þetta viðurkenndi hann sjálfur í viðtölum og sagðist eiga erfitt með hraðann á Englandi. Andrea lék 31 leik með Liverpool og skorað tvö mörk.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan