| Sf. Gutt

Graeme Souness hefur áhyggjur

Graeme Souness, fyrrum leikmaður og framkvæmdastjóri Liverpool, hefur áhyggjur af gamla félaginu sínu. Hann segir það verða að komast í Meistaradeildina og telur Rafael Benítez vera í erfiðri stöðu. Hann hafði þetta að segja í viðtali við Sky Sports.

,,Ég veit alveg hversu erfitt starf það er að vera framkvæmdastjóri Liverpool og þess vegna ætla ég ekki að dæma um hvaða framkvæmdastjóri á að vera eða hver á að fara. Ég tel þó að hann sé lánsamur að vera framkvæmdastjóri Liverpool. Hjá Liverpool fær maður meiri tíma en hjá nokkru af hinum toppliðunum. Hann var lánsamur að vinna Evrópubikarinn svona snemma á valdatíð sinni. Með því afreki vann hann sér inn drjúgan tíma. Fólki í Liverpool þykir líka vænt um hann vegna þess að hann vann þennan titil."

,,Það er mjög erfitt að vera framkvæmdastjóri meðal þeirra bestu. Ég reyni að líta hlutlaust á stöðuna. Ég vann mjög lengi hjá félaginu og ég átti marga bestu daga mína sem leikmaður hjá Liverpool. Ég hef því taugar til félagsins og ég hef áhyggjur þegar málið er skoðað í heild sinni. Ég hef ekki áhyggjur af þeim leikmönnum sem núna eru hjá félaginu, þeim sem stjórna liðinu núna eða þeim sem eiga liðið nú um stundir. Þessir aðilar eru bara þarna hjá félaginu núna."

,,Þegar menn eiga stórt knattspyrnufélag sem er mótað af miklum og sterkum hefðum verða menn að fara vel með félagið og vonandi skila því frá sér í betra lagi en þegar tekið var við því. Ég held að þessir tveir Ameríkanar eigi ekki eftir að gera það. Liverpool þarf sárlega á því að halda að einhver ríkur aðili frá Miðausturlöndum komi, borgi upp skuldirnar og geri félaginu mögulegt að taka framförum. Á meðan félagið er svona skuldsett gerist ekkert."
 
,,Félagið er í erfiðri aðstöðu og mér finnst helsta hættan felast í því að það takist ekki að tryggja sæti í Meistaradeildinni á þessari leiktíð. Fari svo er ekki hægt að laða bestu leikmennina til félagsins. Svo gæti líka farið að allt í einu þyrfti að selja dýrmætustu leikmennina. Ég held að Liverpool lendi í miklum vandræðum ef liðið kemst ekki í Meistaradeildina á næsta keppnistímabili."
 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan