| Heimir Eyvindarson

Tap á Leikvangi ljóssins

Liverpool tapaði um helgina öðrum deildarleiknum í röð og þeim fjórða á tímabilinu. 4 töp í 9 deildarleikjum eru því staðreynd og það er auðvitað ekki sú byrjun sem menn vonuðust eftir.Það voru norðanmennirnir í Sunderland sem fóru illa með okkur á laugardaginn, en leikurinn endaði 1-0 eftir vægast sagt skrautlegt mark Sunderland manna þar sem boltinn skoppaði af sundbolta og í netið! Tilurð marksins hefur verið rakin hér á síðunni en það var Darren Bent sem skoraði þetta umdeilda mark.

Sérfræðingar í knattspyrnureglunum eru yfirleitt á einu máli um það að þetta mark hefði alls ekki átt að standa þar sem skýrt er kveðið á um það í reglunum að ef eitthvað utanaðkomandi hefur áhrif á leikinn á skilyrðislaust að stöðva hann.

Hvað sem því líður þá virðist lítið vera hægt að gera í þessu úr því sem komið er en það er auðvitað alveg ljóst að þetta hafði mikil áhrif á leikinn þar sem Sunderland gat leyft sér að liggja ansi aftarlega það sem eftir lifði leiksins.

Hinsvegar er það einnig ljóst að Liverpool liðið var arfaslakt í leiknum og var þegar upp var staðið ljónheppið að tapa ekki með miklu meiri mun.

Rafael Benítez hefur einmitt látið hafa það eftir sér að blöðrumarkið hafi ekki skipt sköpum.

Liverpool gat ekki stillt upp sínu sterkasta liði þar sem Steven Gerrard og Fernando Torres voru báðir frá vegna meiðsla og Javier Mascherano var nýkominn frá Suður Ameríku og byrjaði þess vegna á bekknum.

Jay Spearing fékk því tækifæri í byrjunarliðinu og átti að stjórna miðjuspilinu ásamt Lucas Leiva. Það gekk ekki sem skyldi og jafnvel þótt Spearing hafi átt ágætis leik kom afskaplega lítið út úr þeim félögum. Þá kom Daniel Agger inn í liðið á ný, en Benítez stillti upp 5 manna varnarlínu með Agger, Skrtel og Carragher í miðju varnarinnar og Glen Johnson og Fabio Aurelio úti á vængjunum.

Það tók leikmenn Sunderland ekki nema 5 mínútur að brjóta þennan varnarmúr á bak aftur þegar Andy Reid sendi boltann á Darren Bent sem skoraði hið umdeilda mark sem áður er lýst.

Liverpool liðið reyndi að svara þessu óvænta marki og skapaði sér nokkur hálf færi það sem eftir lifði hálfleiksins, en liðið saknaði greinilega þeirra Steven Gerrard og Fernando Torres og sóknartilburðir liðsins voru fremur máttlitlir.

Á 13. mínútu náði Aurelio ágætum skalla á markið og bæði Glen Johnson og Ryan Babel voru nálægt því að skora eftir að boltinn skoppaði aftur út í teig en lánleysi þeirra var algjört. Sem var reyndar nokkuð lýsandi fyrir leik Liverpool að þessu sinni.

Spearing og Aurelio áttu báðir ágætis langskotstilraunir í fyrri hálfleiknum og Glen Johnson skapaði nokkra hættu eins og alltaf. Sunderland átti einnig sína spretti og Darren Bent átti tvö ágætis færi í fyrri hálfleiknum en var sem betur fer ekki eins þrælheppinn og í upphafi leiksins.

Hafi stuðningsmenn Liverpool bundið vonir við það að Benítez næði að koma mannskapnum í stuð í leikhléinu þá dvínaði sú von svo að segja um leið og seinni halfleikurinn hófst. Andleysið í leik liðsins var algjört og færin sem liðið skapaði sér sárafá.

Sunderland menn óðu hinsvegar í færum og þá sérstaklega Darren Bent. Strax í upphafi hálfleiksins var hann klaufi upp við mark Liverpool og skömmu síðar varði Reina meistaralega frá honum maður á móti manni. Það var síðan tréverkið sem bjargaði okkur rétt seinna, en þá skallaði Skrtel boltann kæruleysislega til baka í átt til Reina og Bent komst inn á milli en renndi boltanum í stöngina úr þröngu færi eftir að hafa verið kominn framhjá Reina.

Jamie Carragher bjargaði einnig meistaralega þegar Steed Malbranque var kominn í dauðafæri í teignum. Þá voru u.þ.b. 15 mínútur liðnar af hálfleiknum og Liverpool liðið varla með í leiknum!

Það var ekki fyrr en á 68. mínútu sem fyrsta færi Liverpool í seinni hálfleik leit dagsins ljós, en þá sendi Daniel Agger ágæta fyrirgjöf fyrir markið en það vildi ekki betur til en að Dirk Kuyt og Yossi Benayoun stukku saman upp í boltann og skullu saman.

Fyrsta skipting Benítez kom á 73. mínútu þegar Andriy Voronin og Javier Mascherano komu inn á fyrir þá Martin Skrtel og Jay Spearing. Það breytti ekki miklu en pressa Liverpool jókst þó dálítið á lokamínútunum.

Á 86. mínútu átti Glen Johnson ágætt skot með vinstri fæti en Craig Gordon markvörður Sunderland sá við honum. Gordon þurfti síðan að hafa sig allan við þegar Dirk Kuyt átti skot á markið í uppbótartíma og David Ngog sem kom inn á sem varamaður á 81. mínútu varð líka að láta í minni pokann fyrir Gordon sem átti stórleik.

Uppbótartíminn var heilar 7 mínútur, enda leikmenn Sunderland duglegir að tefja leikinn, en sá óratími dugði okkar mönnum ekki og niðurstaðan því 1-0 tap í afskaplega tilþrifalitlum leik af okkar hálfu.Sunderland:
Gordon, McCartney, Turner, Ferdinand, Bardsley, Reid, Cattermole, Cana (fyrirliði), Malbranque, Bent, Jones.

Varamenn: Fulop, Nosworthy, Da Silva, Henderson, Zenden, Campbell, Healy

Mark Sunderland:  Darren Bent (5. mínútu)

Liverpool: Liverpool: Reina, Aurelio, Skrtel, Carragher (fyrirliði), Johnson, Benayoun, Agger, Leiva, Spearing, Babel, Kuyt.

Varamenn: Cavalieri, Voronin, Riera, Mascherano, Insua, Ngog, Kelly


Áhorfendur á Stadium of lights:  47,237.

Maður leiksins:  Jose Reina. Það er erfitt að velja mann leiksins þegar frammistaða liðsins er jafn dapurleg og í þessum leik en Reina verður seint sakaður um hið fáránlega mark sem Sunderland skoraði í leiknum og í raun bjargaði hann okkur frá enn stærra tapi.

Rafael Benítez:  ,,Þegar maður á slæman leik óskar maður þess alltaf að það sé stutt í næsta leik og sem betur fer eigum við nú tvo leiki á sex dögum, fyrst gegn Lyon og svo gegn Manchester United. Ef við vinnum Lyon þá léttist brúnin á mönnum og ef við síðan vinnum Manchester United þá verður stemmningin allt önnur. Ég er jafn sannfærður um það og áður að við erum með nógu sterkan hóp."

Fróðleikur...

Þetta var fyrsti leikur Jay Spearing í byrjunarliði Liverpool. Hann þótti standa sig með ágætum og var m.a. valinn maður leiksins af opinberri heimasíðu Liverpool.

Fyrir þennan leik hafði Liverpool unnið Sunderland sex sinnum í röð.

Liverpool og Sunderland hafa nú mæst 17 sinnum í úrvalsdeildinni og þetta var einungis annar sigur Sunderland í þeim viðureignum. Liverpool hefur unnið tíu þeirra og fimm hafa endað með jafntefli.

Ryan Babel, Yossi Benayoun og Javier Mascherano léku allir sinn 100. leik fyrir Liverpool.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan