| Sf. Gutt

Ólöglegt mark

Um fátt hefur meira verið rætt í knattspyrnuheiminum í dag en hið fáránlega sigurmark Sunderland gegn Liverpool. Ekki skal það undra enda markið með hreinum fádæmum.

Markið bar þannig til að Darren Bent fékk boltann í vítateig Liverpool. Hann skaut að marki og boltinn hafnaði í markinu. Það mátti strax sjá að boltinn breytti um stefnu á leiðinni og héldu margir að boltinn hefði farið í Glen Johnson sem var á svæðinu.   

Svo var þó ekki og reyndin var sú að keppnisboltinn hafnaði í strandbolta sem var staddur á markteigslínunni! Sá var nógu fastur fyrir til að breyta stefnu keppnisboltans þannig að Jose Reina kom engum vörnum við.

Standboltinn, sem var fagurrauður með Liverpool merki, var þarna kominn vegna þess að barnungur stuðningsmaður Liverpool hafði gert sér það að leik að henda honum inn á völlinn. Hermt er að, sést hafi á sjónvarpsmyndum, að Jose Riena hafi verið búinn að færa boltann og setja hann inn í mark sitt svo hann yrði ekki til vandræða. Þaðan hafi boltinn svo fokið út á markteiginn þegar Sunderland sótti með þessum ótrúlegu afleiðingum! Tekið skal fram að ég hef ekki séð þá atburðarás.

Strax eftir leik var farið að ræða um þetta furðulega mark og lögmæti þess. BBC hafði samband við Jeff Winter sem var um árabil dómari í ensku knattspyrnunni. Hann segir markið algerlega ólöglegt.

"Lög leiksins kveða skýrt á um að ef eitthvað utanaðkomandi hefur áhrif á leikinn þá á að stöðva hann. Dómarinn og aðstoðarmaður hans vissu að eitthvað væri að og hefðu átt stöðva leikinn og hefja hann að nýju með dómarakasti."

"Stuðningsmenn Sunderland segja væntanlega að boltinn hefði hvort eð er farið inn og að það hafi verið stuðningsmaður Liverpool sem henti honum inn á völlinn. En ég er mjög hissa. Það er einföld regla til um svona atvik í knattspyrnulögunum og markið hefði ekki átt að standa. Ég er alveg undrandi á því að dómari í þessari deild, aðstoðarmaður hans eða fjórði dómari hafi ekki séð hvað gerðist og tekið í framhaldinu rétta ákvörðun í málinu."

Þetta mun standa í knattspyrnulögum Alþjóðaknattspyrnusambandsins. "Ef eitthvað utanaðkomandi truflar skal dómari stöðva, fresta eða hætta leik." Hvað myndi strandbolti teljast í þessu samhengi?

Nú er að sjá hvort forráðamenn Liverpool F.C. gera eitthvað í málinu en einhverjir hafa bent á að svona atvik sé hægt að kæra eins og aðra annmarka á framkvæmd knattspyrnuleiks.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan