| Ólafur Haukur Tómasson

Krisztian Nemeth að gera það gott

Ungverjinn Krisztian Nemeth er að gera góða hluti þessa dagana, hann er á láni hjá gríska liðinu AEK og er nú með ungverska u20 ára landsliðinu á Heimsmeistaramótinu í Egyptalandi.

Byrjun hans hjá AEK hefur verið góð en hann hefur spilað fjóra leiki í deildinni, skorað tvö mörk og lagt upp eitt. Frammistaða hans hefur vakið athygli og virðist hann vera orðinn frekar vinsæll hjá stuðningsmönnum liðsins eftir góða spretti það sem af er liðið tímabilsins.

Með ungverska landsliðinu þá hefur hann verið í lykilhlutverki hjá liðinu sem komst í undanúrslit keppninnar en tapaði gegn Ghana með tveimur mörkum gegn þremur. Hann lék vel á mótinu og skoraði tvö af þremur mörkum Ungverja sem mættu Ítölum í heldur betur spennandi leik í átta liða úrslitunum. Þá voru tveir aðrir leikmenn Liverpool í ungverska landsliðinu en það eru þeir Peter Gulacsi og Andras Simon.

Nemeth er auðvitað mjög ánægður með árangur landsliðsins á mótinu og hann segir frá því að hann hafi lært mikið af því að æfa með Fernando Torres:

"Í fullri hreinskilni þá bjóst ég ekki við því að við næðum að komast í undanúrslitin en ég er mjög ánægður að við séum í þessari stöðu. Ég hélt að við myndum ná góðum úrslitum en nú getum við sannað það að við eigum fyllilega skilið að vera á meðal fjögurra efstu liða.

Ég átti við smá meiðsli að stríða áður en ég kom til Egyptalands og í riðlakeppninni en maður verður bara að koma þeim út úr hausnum á sér.

Áður var ég að undirbúa mig fyrir tímabilið með aðalliði Liverpool og ég reyndi að fylgjast með öllu sem Torres gerði. Hann er frábær leikmaður og ég reyni að læra eins mikið og mögulegt er." 

Krisztian Nemeth er með mikið markanef og vilja margir líkja honum við Liverpool goðsögnina Robbie Fowler en leikstíll þeirra er að mörgu leyti líkur. Hann hefur skorað mikið af mörkum alls staðar sem hann hefur verið og skoraði átján mörk í 37 leikjum með MTK áður en hann kom til Liverpool árið 2007. Hann skoraði mikið fyrir varalið Liverpool og hefur verið iðinn við kolann í unglingalandsliðum Ungverja.

Það er alls ekki ólíklegt að hér gæti verið framtíðarleikmaður Liverpool á ferðinni. Það eru miklar vonir bundnar við þennan strák sem vonandi mun nýta reynsluna hjá AEK til hins fyllsta og koma enn sterkari aftur til Liverpool að ári liðnu.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan