| Sf. Gutt

Stórskotahríð hjá Liverpool!

Liverpool bauð upp á stórskotahríð gegn Hull City á Anfield í dag. Eftir stirða byrjun fór Liverpool heldur betur í gang og þegar upp var staðið var 6:1 stórsigur í höfn. Strákurinn gekk berserksgang og skoraði Hat trick!

Það áttu flestir von á sigri Liverpool fyrir leikinn því Tígrarnir hafa ekki sýnt tennurnar mikið það sem af er keppnistímabilsins. Gestirnir mættu þó ákveðnir til leiks en það voru gestgjafarnir sem skoruðu úr sínu fyrsta færi á 12. mínútu. Góð sókn upp vinstri kantinn endaði á því að Albert Riera sendi hárnákvæma sendingu fyrir á Fernando Torres. "Strákurinn" tók við boltanum, skildi einn varnarmann eftir og renndi boltanum svo neðst í hornið fjær! Laglega gert og nú bjuggust menn við fleiri mörkum Rauðliða. Næsta mark kom þó úr óvæntri átt því gestirnir jöfnuðu þremur mínútum seinna. Löng og há sending kom frá hægri kanti. Jan Venegoor of Hesselink skallaði boltann til baka. Martin Skrtel náði til boltans en skalli hans fór beint á Deiberson Geovanni sem skoraði auðveldlega enda óvaldaður með öllu. Enn mark eftir slæm mistök í vörninni.

Liverpool reyndi nú að ná frumkvæðinu en gestirnir voru mjög ákveðnir og vörn heimamanna var alls ekki sannfærandi. Á 23. mínútu braust Emiliano Insua, sem átti stórgóðan leik, inn á vítateiginn. Hann sendi svo út á Lucas Leiva sem var við vítateiginn en skot hans fór beint á Boaz Myhill í markinu. Liverpool náði að komast yfir á 28. mínútu. Yossi Benayoun sendi þá laglega sendingu inn á vítateiginn á Fernando. Hann lék auðveldlega á varnarmann við markteiginn og svo út á teiginn þar sem hann fór framhjá Boaz áður en hann renndi boltanum í autt markið. Ótrúlegt mark og það var eins og Fernando væri að leika á krakka úti í garði. Mögnuð tilþrif! Fleira markvert gerðist ekki í þessum hálfleik.

Liverpool hafði ekki spilað vel í fyrri hálfleik en strax eftir tvær mínútur í þeim seinni gerði liðið svo gott sem út um leikinn. Yossi sendi góða sendingu fram á Fernando sem stakk sér inn á vítateiginn hægra megin. Þar lék hann á Ibrahima Sonko áður en hann skaut boltanum milli fóta á næsta varnarmanni og út í vinstra hornið. Þrenna hjá þessum snjalla Spánverja sem er alveg ótrúlega magnaður! Ibrahima var líklega búinn að fá nóg af Fernando því El Nino lék á hann áður en hann skoraði öll mörkin sín!

Eins og fram að þessu í leiknum gerðist núna fátt þar til boltinn lá næst í markinu! Á 61. mínútu tók Steven Gerrard horn frá vinstri. Boltanum var komið frá en Emiliano náði honum og sendi hann aftur út á vinstri kantinn á Steven. Fyrirliðinn gerði sér lítið fyrir og skaut glæsilegu bogaskoti að marki. Boltinn fór í þverslána og steinlá svo í marki Hull! Enn eitt glæsimarkið hjá Steven Gerrard og þetta er án efa eitt af þeim fallegustu í safni hans. Er þó af mörgum að taka. Kannski var hann samt bara að gefa fyrir markið! Eftir þetta gáfust leikmenn Hull algerlega upp og hver sóknin buldi á vörn liðsins allt til leiksloka.

Á 78. mínútu unnu varamennirnir Andriy Voronin og Ryan Babel vel saman. Andriy sendi góða sendingu fyrir á höfuðið á Ryan en hann náði ekki að stýra boltanum í markið. Rétt á eftir snerist dæmið við. Ryan skallaði boltann fyrir Andriy en skot hans fór rétt yfir. Á 82. mínútu tók Albert Riera góða rispu hægra megin en þrumuskot hans þaut framhjá vinklinum fjær. Þremur mínútum seinna skallaði Andriy að marki úr þröngu færi en maður var til varnar og bjargaði við marklínuna. 

Tveimur mínútum fyrir leikslok náði Liverpool hraðri sókn upp hægri kantinn. Ryan sendi út á Dirk sem lék fram áður en hann sendi aftur á landa sinn sem stýrði boltanum í markið af stuttu færi. Góð samvinna hjá þeim félögum frá Hollandi. Það var á hreinu að leikmenn Liverpool ætluðu sér að skora fleiri mörk. Andriy fékk boltann í góðu færi og skot hans stefndi í markið en varnarmaður varð fyrir. Lucas átti svo í framhaldinu skot rétt yfir. En það var eitt mark eftir og það kom þegar venjulegum leiktíma var lokið en þó ekki eftir að viðbótartíma var lokið! Albert fékk þá boltann í teignum vinstra megin eftir rispu hjá Glen Johnson. Hann þrumaði að marki ákveðinn í að skora og boltinn endaði í markinu. Albert fagnaði en hann skoraði ekki því boltinn hafnaði í öðrum hælnum á Ryan og breytti um stefnu þannig að hann fór yfir Boaz í markinu! Þetta mark sýndi kannski að flest gekk upp hjá Liverpool þennan ágæta haustdag! Stuðningsmenn Liverpool gátu svo sannarlega verið sáttir með þetta haustverk í miðri sláturtíðinni!           

Liverpool: Reina, Johnson, Insua, Carragher, Skrtel, Gerrard (Mascherano 74. mín.), Riera, Benayoun (Voronin 77. mín.), Leiva, Torres (Babel 67. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Aurelio, Kyrgiakos og Ngog.

Mörk Liverpool: Fernando Torres (Torres 12., 28. og 47. mín., Steven Gerrard (61. mín.) og Ryan Babel (88 og 90. mín.).

Gult spjald: Martin Skrtel.

Hull City: Myhill, Dawson, McShane, Sonko, Cooper, Geovanni (Altidore 83. mín.), Hunt, Kilbane (Marney 64. mín.), Boateng, Ghilas og Vennegoor of Hesselink (Cousin 63. mín.). Ónotaðir varamenn: Warner, Zayatte og Barmby.
 
Mark Hull City: Deiberson Geovanni (15. mín.).

Gul spjöld: Paul McShane, Stephen Hunt, Kevin Kilbane og Dean Marney.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.392.

Maður leiksins: Fernando Torres. El Nino er heldur betur búinn að láta til sín taka á keppnistímabilinu. Hann hefur nú skorað átta mörk og það þó ýmsir hafi talið hann verið frekar daufan! Í dag gekk Fernando berserksgang og líklega eiga varnarmenn Hull eftir að minnast þessa leiks með hryllingi. Einfaldlega stórkostlegur leikur og mörkin hvert öðru fallegra.

Rafael Benítez: Við hérna erum að spila með miklu sjálfstrausti og sköpum okkur fjölmörg færi. Undir lokin gátum við skipt leikmönnum út af til að hvíla þá með næsta leik í huga. Það var frábært að skora sex mörk og við hefðum hæglega getað skorað fleiri því við fengum nokkur færi til þess. Svo var enn eitt jákvætt við leikinn. Það var hugarfar leikmanna því þeir sóttu látlaust þó svo að sigurinn væri kominn í höfn. 

                                                                               Fróðleikur!

- Þetta var sjötti sigur Liverpool í röð.

- Liverpool vann sinn stærsta sigur á keppnistímabilinu.

- Liverpool hefur nú skorað fimmtán mörk á Anfield það sem af er leiktíðar.

- Fernando Torres hefur nú skorað átta mörk á þessari sparktíð.

- Steven Gerrard skoraði annað mark sitt á keppnistímabilinu.

- Ryan Babel skoraði fyrstu mörk sín á leiktíðinni. Hann skoraði þau á aðeins rúmum tveimur mínútum.

- Liverpool hefur skorað flest mörk í deildinni eða 22 talsins.

- Þetta var fjórða þrennan sem Fernando Torres skorar fyrir Liverpool.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan