| Heimir Eyvindarson

Af bresku slúðri

Bresk slúðurblöð eru enn uppfull af vangaveltum um íverustað Xabi Alonso næsta vetur.



The Independent heldur því t.d. fram að ekki sé enn gróið um heilt milli Alonso og Benítez, síðan Benítez reyndi að selja landa sinn síðast liðið sumar. Þessu til sönnunar bendir blaðið á að Alonso hafi ekki viljað gefa blaðamönnum sem fylgjast með Álfukeppninni í Suður-Afríku upp með afgerandi hætti hvort hann yrði áfram á Anfield.

Blaðið segist hafa heimildir fyrir því að Alonso hafi enn ekki gert upp hug sinn varðandi framtíðina.

Daily Mirror segir að Benítez hafi áhyggjur af því að hann kunni að missa Alonso úr höndunum, og jafnvel Javier Mascherano einnig, en umboðsmaður Mascheranos hefur að sögn blaðsins átt langa fundi með forráðamönnum Barcelona upp á síðkastið.

Að sögn Daily Mirror hefur Benítez nú óskað eftir fundum með umboðsmönnum þessara tveggja sterku miðvallarleikmanna. Samkvæmt heimildum blaðsins leggur Benítez ofuráherslu á að Mascherano sé alls ekki til sölu og Alonso sé ekki falur nema fyrir a.m.k. 30 milljónir punda.

Albert Riera tjáir sig í dag um vangavelturnar um framtíð liðsfélaga sinna, en hann vill að Liverpool liðið haldi fast í alla sína menn, að ekki sé talað um lykilmenn á borð við Mascherano og Alonso. Riera hefur einnig áhyggjur af framtíð landa síns, Alvaro Arbeloa, en talið er að hann geti verið á leið til Spánar aftur.

,,Það er afar mikilvægt að við höldum öllum okkar leikmönnum", segir Riera.

,,Alonso, Arbeloa og Mascherano voru liðinu mjög mikilvægir á síðustu leiktíð, svo það er að mínu mati algjört lykilatriði að halda þeim."

,,Ég vil helst ekki sjá á bak neinum liðsfélaga minna. Ef við ætlum okkur að vinna deildina þá þurfum við á hverjum einasta manni að halda, það er alveg ljóst."

,,Það er frábær andi í hópnum og það hefur hver maður hlutverki að gegna. Við erum ekki með stóran hóp leikmanna, en við erum með mjög samstilltan hóp þar sem inn á milli eru nokkrir leikmenn með mikla reynslu og mórallinn er afburða góður."

,,Að mínu mati er fyrsta skrefið að auknum árangri að halda í þá leikmenn sem fyrir eru, síðan getum við farið að líta í kringum okkur."  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan