| Sf. Gutt

Liverpool tók toppsætið!

Liverpool tók toppsætið í ensku Úrvalsdeildinni með því að vinna öruggan 3:0 útisigur á West Ham United síðdegis í dag. Liverpool leiðir deildina á markamun en Manchester United, sem er í öðru sæti, á tvo leiki til góða. Nú er að sjá hvað gerist næst.

Liverpool hefði ekki getað byrjað leikinn betur því eftir 76 sekúndur náði liðið forystu. Alvaro Arbeloa sendi boltann fram fyrir miðjuna á Fernando Torres. Hann stakk boltanum inn fyrir vörn West Ham á Steven Gerrard sem komst einn inn á teig þar sem hann lék á markmanninn Robert Green og renndi boltanum í autt markið. Frábærlega útfærð sókn og heimamenn vissu ekki sitt rjúkandi ráð!

Eftir þessa kröftugu byrjun gerðist lítið lengi vel. Heimamenn náði loks að ógan marki Liverpool á 27. mínútu. Mark Noble sendi fyrir úr aukaspyrnu frá hægri. Jose Reina kom út úr markinu en náði ekki til boltans en Radoslav Kovac skallaði sem betur fer yfir. Liverpool skoraði svo aftur á 38. mínútu. Yossi Benayoun vippaði boltanum inn á teig til Fernando en þar reif Luis Boa Morte í hann og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Steven Gerrard tók vítaspyrnuna en Robert varði vel með því að henda sér til hægri. Hann hélt þó ekki boltanum, Steven var sjálfur fyrstur á vettvang og skoraði af örstuttu færi.

Nú leit allt út fyrir að Liverpool hefði öll ráð heimamanna í hendi sér en það mátti engu muna að Hamrarnir næðu að laga stöðuna á 43. mínútu. Jamie Carragher ætlaði þá að senda boltann aftur á Jose. Boltinn rakst á hinn bóginn í fót hans og hann hitti ekki boltann þegar hann ætlaði að sparka í hann. David Di Michele hirti boltann og æddi upp að markinu. Hann missti þó boltann frá sér á ögurstundu þegar hann var kominn einn gegn Jose og boltinn rúllaði saklysislega aftur fyrir endamörk. Má segja að heimamenn hafi þar misst sitt besta færi á að komast aftur inn í leikinn. Á lokamínútu hálfleiksins reyndi Javier Mascherano svo til frá miðju. Boltinn fór í varnarmann við teiginn og skaust upp í loftið. Fernando stökk hæst og náði að skalla boltann. Hann stefndi í autt markið en skoppaði svo rétt framhjá. En leikmenn Liverpool gátu sannarlega vel við unað þegar hálfleikshlé hófst. 

Liverpool hafði öll völd í síðari hálfleik en heimamenn gáfust þó aldrei upp. Á 52. mínútu sendi Dirk Kuyt góða sendingu fyrir frá hægri yfir á fjærstöng. Þar var Yossi frír en hann náði ekki að hitta boltann vel sem fór yfir af stuttu færi. Skyndisóknir Liverpool voru mjög hættulegar og á 58. mínútu endaði hröð sókn með því að Steven fékk boltann utan teigs en skot hans var beint á Robert. Rétt á eftir sneri Liverpool vörn í sókn eftir horn West Ham. Steven lék fram völlinn og sendi svo út til hægri á Dirk sem komst inn í teiginn en Robert varði enn vel með góðu úthlaupi.

Liverpool innsiglaði sigurinn á 84. mínútu. Vel útfærð sókn endaði með því að Steven sendi út á hægri kant á Dirk. Hann sendi fyrir markið á varamanninn Ryan Babel sem skallaði að marki. Robert varði skalla hans en boltann fór aftur til Ryan sem fylgdi vel á eftir og skoraði í autt markið. Góður sigur var kominn í höfn svo og toppsætið í deildinni. Liverpool verður þó að treysta á stóra og góða greiða hjá mótherjum Manchester United í næstu leikjum liðsins til að eiga von um titilinn góða. Enn er von! 

West Ham United: Green, Neill, Tomkins, Upson, Ilunga, Boa Morte (Payne 80. mín.), Noble, Kovac, Stanislas (Collison 59. mín.), Di Michele (Sears 70. mín.) og Tristan. Ónotaðir varamenn: Lastuvka, Lopez, Nsereko og Spector.
 
Gul spjöld: Luis Boa Morte, Radoslav Kovac og David Di Michele.

Liverpool: Reina, Arbeloa, Skrtel, Carragher, Aurelio (Insua 54. mín.), Benayoun (Dossena 82. mín.), Mascherano, Leiva, Gerrard, Kuyt og Torres (Babel 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Hyypia, Ngog og Degen.
 
Mörk Liverpool: Steven Gerrard (2. og 38. mín.) og Ryan Babel (84. mín.).

Gul spjöld: Fabio Aurelio og Javier Mascherano.

Áhorfendur á Upton Park: 34.951.
 
Maður leiksins: Steven Gerrard. Steven hefur oft leikið mikið betur en þessi magnaði leikmaður gerði út um leikinn með tveimur mörkum fyrstu mörkum leiksins. Steven hefur þennan magnaða hæfileika að geta gert út um leiki og það gerði hann enn einu sinni í dag. 

Rafael Benítez: Við skoruðum snemma og náðum óskabyrjun. Þessi góða byrjun hafði mikið að segja. Við gerðum það sem við þurftum að gera því við verðum að halda áfram að vinna okkar leiki. Meira getum við ekki gert. Við þurftum að ná stigunum þremur og þjarma að þeim. Nú styðum við bara við bakið á Manchester City.
 
Fróðleiksmolar: - Liverpool er í fyrsta sætinu í deildinni. - Steven Gerrard er nú búinn að skora 23 mörk á leiktíðinni. - Ryan Babel skoraði sitt fjórða mark á þessari leiktíð en það fyrsta á árinu. - Liverpool hefur skorað flest mörk í efstu deild eða 72 talsins. - Leikmenn Liverpool hafa verið á skotskónum í síðustu leikjum. Þeir hafa skorað 36 mörk í síðustu ellefu leikjum. - Ryan Babel lék sinn 90. leik með Liverpool. Hann er búinn að skora 14 mörk í þeim. - Lucas Leiva lék sinn 70. leik með Liverpool. Hann hefur skorað fjögur mörk fyrir félagið. - Þetta var níundi deildarleikur Liverpool í röð án taps. - Liverpool komst í efsta sæti með sigrinum. Liðið fór líka í efsta sæti eftir fyrri leik liðanna þann 1. desember og hélt sætinu í rúman mánuð. 

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan