| Heimir Eyvindarson

Jay Spearing er enn í skýjunum!

Jay Spearing, sem kom inná fyrir Steven Gerrard um miðjan síðari hálfleik í gær, segist ekki enn vera kominn niður á jörðina eftir stórkostlegt kvöld.

Liverpool veitti Real Madrid eftirminnilega ráðningu á Anfield í gær, versta tap Real í Evrópukeppni í 20 ár, og hinn efnilegi Jay Spearing fékk að taka þátt í hátíðahöldunum!

Jay Spearing þótti standa sig mjög vel, svo vel að fyrirliðinn Steven Gerrard sá ástæðu til að hrósa honum sérstaklega og the Kop sungu nafnið hans, sem Spearing segir hafa verið algjörlega ólýsanlega tilfinningu.

,,Ég get engan veginn lýst því hvernig mér líður núna, þetta var ótrúlegt kvöld. Ég trúði því hreinlega ekki að áhorfendur væru að syngja nafnið mitt, það var alveg stórkostleg upplifun, en auðvitað var allra best að fá tækifæri til að taka þátt í leiknum. Þetta er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma."

Spearing kom inn á fyrir Steven og það var eftir því tekið hve nákvæm fyrirmæli hann fékk hjá Rafa Benítez áður en hann kom inn á. Jay segir að ráðleggingar Rafa hafi verið ómetanlegar.

,,Benítez sagði mér að reyna að slaka á og njóta leiksins, við værum með örugga forystu og ég þyrfti þessvegna ekki að vera taugastrekktur. Ég átti bara að fara inn á og sýna hvað ég gæti."

,,Ég er ennþá í skýjunum, ég trúi því varla enn að ég hafi fengið að taka þátt í þessu ævintýri!", segir hinn efnilegi Jay Spearing að lokum. Þess má geta að hann hefur haldið með Liverpool frá fæðingu.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan