| Heimir Eyvindarson

Riera: Við verðum að vinna Middlesborough

Albert Riera segir að leikmenn Liverpool verði að leggja hinn frækna sigur á Real Madrid til hliðar og einbeita sér að deildinni á ný.

Liverpool á sem kunnugt er tvo erfiða leiki fyrir höndum í deildinni, gegn Middlesboro og Sunderland, áður en kemur að risaslagnum við Manchester United á Old Trafford þann 14. mars, og Riera vonast til að Liverpool verði enn með í baráttunni þegar kemur að því uppgjöri.

,,Við vorum allir rosalega svekktir eftir jafnteflið við Manchester City á sunnudaginn og það var erfitt að sofna eftir þann leik. En næsta dag urðum við að gjöra svo vel að rífa okkur upp og einbeita okkur að leiknum við Real."

,,Núna er það nákvæmlega sama uppi á teningnum. Við náðum frábærum úrslitum gegn sterku liði Real Madrid og einhvern daginn getum við sagt börnunum okkur sögur af því, en nú verðum við einfaldlega að leggja þennan leik til hliðar og einbeita okkur að Middlesboro."

,,Rétt eins og það var erfitt að koma sér í gírinn daginn eftir svekkjandi jafntefli á sunnudaginn var erfitt að hrista af sér sigurvímuna morguninn eftir leikinn við Real, en svona er fótboltinn einfaldlega."

,,Við eigum ennþá góða möguleika í deildinni. Við mætum Manchester United eftir tvær vikur og fram að því leikum við tvo leiki í deildinni en þeir einungis einn. Ef við náum öllum stigunum sex úr leikjunum gegn M.boro og Sunderland og vinnum síðan United þá fer kannski að fara aðeins um þá!"

,,Við erum auðvitað í þeirri stöðu að ef Manchester United tekur upp á því að vinna alla leiki sem eftir eru þá getum við ekkert gert, en ég er viss um að það á ýmislegt óvænt eftir að gerast. Nú er Meistaradeildin farin aftur af stað og þeir eru einnig í baráttunni í báðum bikarkeppnum þannig að það er alls ekki útilokað að þeim hlekkist einhversstaðar á."

,,En við getum ekki verið að velta okkur upp úr því hvernig gengur hjá þeim. Aðalatriðið er að við stöndum okkur og hölum inn eins mörg stig og við mögulega getum. Vonandi skilar það okkur einhverju þegar upp er staðið", segir Albert Riera að lokum.  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan