| Sf. Gutt

Enn ein velheppnuð endurkoma!

Í fimmta sinn á þessari leiktíð hafði Liverpool sigur eftir að hafa lent marki undir. Liverpool sneri Wigan niður 3:2 á Anfield Road eftir að hafa lent undir í tvígang. Liverpool fylgir Chelsea eins og skugginn en liðin eru jöfn að stigum. Chelsea heldur efsta sætinu á markahlutfalli.

Hún hefur verið mögnuð ræðan sem Steve Bruce, framkvæmdastjóri Wigan hélt yfir sínum mönnum fyrir leikinn því leikmenn hans komu alveg óðir til leiks. Þeir slógu leikmenn Liverpool út af laginu og tóku frumkvæðið. Það var fátt um færi framan af en gestirnir fengu það fyrsta á 23. mínútu þegar Olivier Kapo fékk boltann frír við markteiginn en Jose Reina gerði vel í að verja fast skot hans. Hann náði svo frákastinu eftir að hafa ekki náð að halda boltanum. Á 28. mínútu fékk Liverpool sitt fyrsta góða færi. Albert Riera sendi góða sendingu á Robbie Keane sem komst inn á teiginn vinstra megin. Hann náði þó ekki að stýra boltanum í fjærhornið og skot hans fór framhjá úr þröngu færi. Mínútu síðar komst Wigan yfir. Daniel Agger gerði þá hroðaleg mistök eftir að hafa fengið boltann frá Jose rétt utan teigs. Egyptinn Amr Zaki sótti að honum og Daniel ákvað að reyna að leika á hann. Amr náði boltanum af Dananum og skoraði með nákvæmu skoti neðst úti við stöng.

Þarna fór Daniel illa að ráði sínu en hann bætti ráð sitt á 37. mínútu. Hann fékk þá boltann rétt utan eigin teigs og lék fram völlinn. Úti á vinstri kanti lék hann þríhyrning við Andrea Dossena áður en hann stakk sér inn á teiginn og lék á leikmann Wigan. Daniel renndi boltanum svo fyrir markið beint á Dirk Kuyt sem skilaði boltanum í markið með ákveðnu skoti. Chris Kirkland kom við boltann en náði ekki að verja. Vel gert hjá Dirk sem þarna skoraði í þriðja leiknum í röð en Daniel Agger átti þetta mark með húð og hári! Leikmenn Liverpool hertu nú tökin. Á 44. mínútu átti Dirk hörkuskot utan teigs sem stefndi í markið en Chris náði að koma við boltann og beina honum í þverslána. Frábært markvarsla. Rétt á eftir sendi Jermaine Pennant góða sendingu fyrir á Albert en hann skallaði framhjá úr góðu færi. Allt stefndi í að jafnt yrði í hálfleik en svo varð ekki. Rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks náði Antonio Valencia að koma boltanum fyrir markið frá hægri út í teiginn þar sem Amr klippti boltann á lofti. Hann smellhitti sem söng í netinu úti við stöng án þess að Jose ætti möguleika á að verja. Glæsilegt mark en vörn Liverpool var illa á verði og þá sérstaklega Andrea sem hefði átt að koma í veg fyrir að Antonio kæmi boltanum fyrir markið.

Leikmenn Liverpool komu ákveðnir til leiks eftir leikhlé. Á 57. mínútu sendi Robbie Keane fyrir markið á Dirk en Chris náði að verja skot hans. Sókn Liverpool var þung á köflum en gestirnir vörðust með kjafti og klóm. Þegar 20 mínútur voru eftir fékk Liverpool aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Dómarinn ætlaði aldrei að koma varnarvegg Wigan á réttan stað og það endaði með því að Antono Valencia var bókaður. Þegar loks var hægt að taka aukaspyrnuna renndi Xabi Alsonso boltanum fyrir fætur Steven Gerrard en skot hans fór rétt framhjá. Xabi fékk svo að finna fyrir því fimm mínútum síðar þegar Antonio sparkaði hann niður. Dómarinn rak Ekvadorann af velli fyrir brotið og var það hárrétt hjá honum. Rafael Benítez taldi nú rétt að sverfa til stáls og sendi nú tvo varamenn á vettvang fyrir bakverðina sína sem höfðu ekki náð sér á strik. Þeir Nabil El Zhar og Yossi Benayoun komu til leiks og það munaði um þá á lokasprettinum.

Á 80. mínútu jafnaði Liverpool metin. Nabil fékk boltann vinstra megin við vítateig. Hann lék inn í teiginn þar sem varnarmenn Wigan hörfuðu. Hann sendi svo boltann til baka í átt að Steven Gerrard. Hann lét boltann fara til Albert og Spánverjinn sendi boltann neðst í hornið fjær frá vítateig. Fagnaði hann vel og mikið enda fyrsta markið sem Albert skorar og það gat ekki komið á betri tíma. Ekki var nú skotið merkilegt enda með hægri fæti en boltinn fór rétta boðleið! Staðan var orðin jöfn og nú var bara spurning hvenær sigurmarkið kæmi eða það fannst stuðningsmönnum Liverpool! Það kom fimm mínútum seinna. Jermaine náði góðri fyrirgjöf frá hægri. Á miðjum teig tók Dirk við boltanum og klippti hann á lofti að marki. Chris náði að hafa hendur á boltanum en af hendi hans fór boltinn í þverslá og inn! Allt trylltist af fögnuði á Anfield Road. Annan leikinn í röð hafði Dirk tryggt Liverpool sigur og Hollendingurinn er sannarlega að leika vel um þessar mundir. Chris bjargaði svo vel frá Robbie af stuttu færi á lokamínútunni. Fimmta endurkoma Liverpool á leiktíðinni var fullkomnuð! Liverpool lék ekki vel en liðsmenn neituðu að gefast upp og uppskáru eftir því. Stuðningsmenn Liverpool fóru kátir heim eftir að hafa horft á frábæran leik!

Liverpool: Reina, Arbeloa (Benayoun 79. mín.), Carragher, Agger, Dossena (El Zhar 78. mín.), Pennant, Gerrard, Alonso, Riera, Keane (Hyypia 90. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Leiva, Insua og Ngog.


Mörk Liverpool: Dirk Kuyt (37. og 85. mín.) og Albert Riera (80. mín.).

Gult spjald: Andrea Dossena.

Wigan Athletic: Kirkland, Melchiot, Scharner, Bramble, Figueroa, Valencia, Cattermole, Palacios (Koumas 90), Kapo (Brown 82), De Ridder (Kilbane 79. mín.) og Zaki. Ónotaðir varamenn: Pollitt, Taylor, Boyce og Camara.

Mörk Wigan: Amr Zaki (29. og 45. mín.).

Rautt spjald: Antonio Valencia.

Gult spjald: Antonio Valencia.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.868.

Maður leiksins: Dirk Kuyt.

Rafael Benítez: Við byrjuðum leikinn mjög illa. Þeir voru grimmari og stjórnuðu leiknum. Við þurftum að breyta miklu í leik okkar og liðið sýndi mikinn skapstyrk. Við sóttum og sóttum og við náðum að vinna þökk sé skapstyrk liðsins. Þetta var svipað og í leiknum gegn Manchester City. Ég væri nú alveg til í að leikirnir myndu þróast þannig að ég gæti verið aðeins rólegri á bekknum. Þið verðið að spyrja lækninn minn að því hversu marga svona leiki ég þoli í viðbót!

Fróðleiksmolar: Liverpool vann í fimmta sinn á leiktíðinni eftir að hafa lent undir. - Steven Gerrard lék sinn 450. leik með Liverpool. - Dirk Kuyt skoraði í þriðja leiknum í röð og það hefur hann ekki gert áður með Liverpool.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan