| Grétar Magnússon

Benítez varar við Wigan

Rafa Benítez varar leikmenn sína við fyrir leikinn gegn Wigan og segir að þeir verði að vera grimmir frá fyrstu mínútu ef þeir ætli sér sigur í leiknum.  Benítez vill ekki sömu úrslit og á síðasta tímabili.

Í janúar komu Steve Bruce og menn hans í heimsókn á Anfield og fóru þaðan með eitt stig í farteskinu.  Liverpool komust yfir með marki frá Fernando Torres en öllum að óvörum jöfnuðu Wigan menn undir lokin með marki frá engum öðrum en Titus Bramble.

,,Við vitum að við getum ekki tekið neinu sem vísu gegn Wigan vegna þess að við töpuðum tveim stigum gegn þeim á síðasta tímabili," sagði stjórinn.  ,,Það var slæmur leikur.  Mér fannst við eiga skilið að vinna, maður verður að skora annað mark og klára leikinn ef maður vill komast hjá því að lenda í svona stöðu."

,,Við vitum að Úrvalsdeildin er erfið og öll liðin búa yfir einhverjum styrkleikum og geta verið sterk í loftinu og spilað ákveðinn leik.  Þegar svona lið koma á Anfield þá vitum við að það verður erfitt þannig að við verðum að vera á tánum og passa okkur næst.  En liðið býr yfir meira sjálfstrausti núna og ég held að við nálgumst leikinn með það að markmiði að klára hann sem fyrst."

Í liði Wigan er Emile Heskey en þessi stóri sóknarmaður hefur verið að spila mjög vel uppá síðkastið og verður Benítez að ákveða hver fyllir skarð Martin Skrtel til að takast á við hann.  Til greina koma þeir Daniel Agger og Sami Hyypia.

,,Hann er klárlega góður sóknarmaður og hefur einnig reynslu af Liverpool.  Við vitum að hann mun verða ógnandi.  Við verðum að sjá til hver spilar.  Agger er hér og hann æfði með okkur í dag.  Við verðum svo að sjá til með Sami vegna þess að það er alltaf áhætta þegar leikmenn eru að spila með landsliðum sínum.  Við sjáum því til, en báðir leikmenn koma til greina og báðir eru mjög góðir."

,,Það er mikilvægt að hafa tvo leikmenn í hverri stöðu.  Við vorum með fjóra tiltæka miðverði og nú eru þeir þrír sem er mjög gott."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan