| Grétar Magnússon

Gerrard er stórkostlegur leikmaður

Javier Mascherano hrósar liðsfélaga sínum, Steven Gerrard, í hástert eftir frammistöðu fyrirliðans gegn Marseille á þriðjudagskvöldið.  Tvö mörk frá Gerrard dugðu til sigurs gegn sprækum Frökkum.

Besta mögulega byrjun náðist í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þegar 1-2 sigur vannst á Marseille á sterkum heimavelli þeirra og getur Mascherano ekki leynt aðdáun sinni á fyrirliðanum.

Hann sagði:  ,,Stevie er sigurvegari og þegar maður hefur leikmann eins og hann þá verður maður að njóta þess og leyfa honum að axla ábyrgð.  Það er virkilega gott fyrir okkur að hafa leikmann eins og hann vegna þess að það gefur manni sjálfstraust að spila við hlið hans."

,,Hann er virkilega stórkostlegur leikmaður og það eru ekki margir leikmenn sem gera svona marga góða hluti fyrir lið sitt og skora svona mörk eins og hann skorar."

Mascherano var hinsvegar ekki eins ánægður með frammistöðu liðsins í heild.  Eftir að Liverpool náði forystunni seint í fyrri hálfleik voru það leikmenn Marseille sem voru mun betri það sem eftir lifði leiks.  Mascherano telur hinsvegar að það hafi verið úrslitin sem skiptu máli og munu leikmenn nú byggja á þessari frammistöðu í næstu leikjum í riðlinum.

,,Þetta var góður sigur fyrir okkur," sagði hann.  ,,Þetta var erfitt vegna þess að við spiluðum ekki eins vel og við gerðum gegn Manchester United um helgina en það var mikilvægt að byrja með sigri í þessari keppni."

,,Marseille spiluðu mjög vel, þeir voru með stuðningsmennina bakvið sig og þetta er aldrei auðvelt á útivelli, sérstaklega í Meistaradeildinni.  En ég endurtek að það mikilvægasta í þessu voru úrslitin því það þýðir að við byrjuðum vel og við munum byggja á þessu.  Við erum ánægðir með úrslitin.  Marseille eru með marga góða sóknarmenn sem spila vel á milli línanna og þeir gerðu okkur lífið erfitt.  Við gátum ekki ráðið við bestu leikmenn þeirra eins vel og við vildum en Stevie gerði gæfumuninn fyrir okkur."

Mascherano býst við því að þær viðbætur sem gerðar voru við leikmannahópinn í sumar muni gefa liðinu aukinn möguleika á því að bæta gengi liðsins í Meistaradeildinni síðan á síðasta tímabili þegar liðið datt út í undanúrslitum gegn Chelsea.

,,Á síðasta tímabili vorum við nálægt því að komast í úrslitin í Meistaradeildinni," bætti hann við.  ,,Nú erum við með betri hóp en á síðasta tímabili og ég held að við getum barist um titla á þessu tímabili."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan