Lánið lék við Liverpool í Liege
Leiktíðin gat sannarlega byrjað betur og Liverpool mátti hrósa happi með að komast frá Belgíu með markalaust jafntefli í kvöld. Liðið lék langt frá því vel og Jose Reina bjargaði því frá tapi. Miðað við gang mála þá voru þetta góð úrslit en nú þarf að klára verkefnið heima í Liverpool.
Það kom fátt í óvart í uppstillingu Rafael Benítez í þessum fyrsta leik leiktíðarinnar nema hvað Frakkinn ungi Damien Plessis fékk sæti í byrjunarliðinu. Kannski var það helst óvænt að Steven Gerrard var meðal varamanna en ekki var reiknað með honum vegna meiðsla. Þeir Robbie Keane og Andrea Dossena spiluðu í fyrsta sinn fyrir hönd Liverpool. Leikmenn Liverpool vígðu nýjan grænan búning sem á að notast í Evrópuleikjum.
Það var gríðarleg stemmning á Stade Maurice Dufrasne þegar leikurinn hófst og heimamenn fengu magnaðan stuðning allan leikinn. Leikmenn Standard tóku stuðningsmenn sína á orðinu og hófu leikinn af miklum krafti en engu líkara var að leikmenn Liverpool væru enn í sumarfríi. Á 8. mínútu fengu heimamenn aukaspyrnu úti á vinstri kanti. Boltinn var sendur inn á teig og þar stökk Marouane Fellaini upp óáreittur og skallaði að marki. Boltinn fór í innanverða stöngin og stefndi í markið en á ótrúlegan hátt náði Jose Reina að skutla sér á eftir boltanum og slá hann frá. Heimamenn töldu að boltinn hefði farið inn fyrir marklínuna og víst munaði litlu en línuvörðurinn hafi rétt fyrir sér en markvarslan hjá Jose var stórkostleg. Tveimur mínútum síðar hafði dómarinn hins vegar rangt fyrir sér þegar hann dæmdi vítaspyrnu á Andrea Dossena. Víst fór boltinn í hendina á Ítalanum en hann var utan vítateigs þegar það gerðist. Dómarinn var þó viss í sinni sök. Dante Bonfim tók vítaspyrnuna. Spyrna hans var laus og Jose henti sér til hægri og varði auðveldlega með fótunum. Einhver hefði sagt að réttlætinu hefði verið fullnægt því það átti aldrei að dæma vítaspyrnu! Þegar hér var komið við sögu hefði Liverpool hæglega getað verið tveimur mörkum undir. Heimamenn voru sterkari til hálfleiks en fengu ekki fleiri hættuleg færi. Eina marktilraun Liverpool sem eitthvað gagn var að var skot frá Xabi Alonso, undir lok hálfleiksins, beint úr aukaspyrnu sem fór rétt yfir.
Liverpool lék lítið betur í síðari hálfleik. Það skall nokkrum sinnum hurð nærri hælum við mark Liverpool. Besta færið kom á eftir rúmlega klukkutíma leik. Sending kom inn á vítateiginn og þar skallaði Igor De Camargo boltann. Jose, sem kom langt út úr markinu, náði að snerta boltann sem stefndi samt að marki Liverpool en Yossi Benayoun hreinsaði frá á síðustu stundu. Steven Gerrard var þá sendur á vettvang í staðinn fyrir Robbie Keane sem ekki náði sér á strik í frumraun sinni með Liverpool. Litlu síðar tók Steven aukaspyrnu en skot hans fór rétt framhjá. Steven átti svo skot úr annarri aukaspyrnu undir lokin en boltinn fór beint á markvörð heimamanna sem átti náðugt kvöld. Liverpool slapp sannarlega með skrekkinn gegn belgísku meisturunum og nú verður að bæta úr í seinni leiknum á Anfield Road. Leikmenn Liverpool verða að átta sig á því og það strax að sumarfríið er búið!
Standard Liege: Aragon, Dante, Dalmat, Defour, Mbokani, De Camargo, Mikulic (Nicaise 90. mín.), Camozzato, Sarr, Fellaini og Witsel. Ónotaðir varamenn: Devriendt, Goreux, Toama, Benko, Ingrao og Dembele.
Gul spjöld: Camozzato og Mikulic.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Dossena, Carragher, Agger, Alonso, Plessis, Benayoun, Kuyt (El Zhar 83. mín.), Keane (Gerrard 67. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Hyypia, Voronin, Pennant og Insua.
Gult spjald: Xabi Alonso.
Áhorfendur á Stade Maurice Dufrasne: 25.000.
Maður leiksins: Jose Reina. Hver annar? Hann bjargaði Liverpool frá tapi með því tveimur frábærum markvörslum í fyrri hálfleik.
Rafael Benítez: Mér fannst við vera heppnir að ná að halda markinu hreinu. Fyrirfram veit maður aldrei á hverju er von en það má öllum ljóst vera að við spiluðum ekki vel. Liðið lék illa en úrslitin voru góð.
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.
-
| Sf. Gutt
Steven syrgir Sven -
| Sf. Gutt
Harvey Elliott meiddur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Fulltrúar Liverpool á EM -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Brighton og Liverpool – Leicester -
| Sf. Gutt
Nýr búningur kynntur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Frábær úrslit! -
| Sf. Gutt
Merkileg tímamót!