| Sf. Gutt

Paul Anderson lánaður til Nottingham Forest

Liverpool hefur lánað útherjann efnilega Paul Anderson til Nottingham Forest. Hann vildi frekar fara þangað en að vera áfram hjá Swansea. Bæði þessi lið fóru upp í næst efstu deild í vor. Paul stóð sig mjög vel hjá Svönunum á síðustu leiktíð og var kjörinn efnilegasti leikmaður félagsins. Hann var fastamaður í liðinu og skoraði tíu mörk en missti af seinni hluta leiktíðarinnar vegna meiðsla. Forráðamenn Swansea vildu endilega hafa Paul áfram í sínum herbúðum en hann ákvað að söðla um. Roberto Martinez, framkvæmdastjóri Swansea, var reiður við Paul og beindi þessum orðum sínum til hans. "Það vita allir að þakklæti og hollusta tíðkast ekki lengur í knattspyrnuheiminum!" 

Paul mun hafa valið Nottingham sem áfangastað vegna þess að borgin í nærri heimahögum hans. Hann hafði þetta að segja um vistaskiptin. "Mér fannst mjög gaman að vera hjá Swansea á síðustu leiktíð en eftir að hafa rætt við forráðamenn Forest fannst mér ég gera rétt í að fara þangað."

Paul Anderson hefur verið talinn einn efnilegasti leikmaður Liverpool síðustu árin. Hann var lykilmaður í unglingaliði Liverpool sem vann Unglingabikarkeppnina 2006. Forráðmenn Liverpool hafa álit á Paul og hafa ekki viljað selja hann en félög hafa sýnt honum áhuga. Hann hefur þó ekki enn leikið með aðalliði Liverpool.

Nokkrir aðrir ungir leikmenn Liverpool verða hugsanlega lánaðir á næstu leiktíð. Rafael Benítez hefur viljað hafa þennan háttinn á til að þessir leikmenn geti öðlast reynslu í stað þess að spila eingöngu með varaliði Liverpool.

Swansea hefur áhuga á Adam Hammill sem var í láni hjá Southampton á síðustu leiktíð. Honum gekk reyndar ekki vel þar. Hann er útherji eins og Paul.

Godwin Antwi var í láni hjá Hartlepool United á síðustu sparktíð og stóð sig mjög vel. Staðarblaðið Daily Post greinir frá því í dag að Chester City hafi beðið forráðamenn Liverpool að íhuga hvort þeir vilji lána Godwin. Hann lék með Paul í unglingameistaraliðinu 2006.

Nú fyrr í vikunni var greint frá því að Leeds United hefði áhuga á að fá Ungverjann efnilega Krisztian Nemeth og Svíann Astrit Ajdarevic að láni. Ekki er ólíklegt að Astrit fái að fara og þá hugsanlega fyrir fullt og allt en í vor var honum ekki boðinn nýr samningur. Öðru máli gegnir um Krisztian sem hugsanlega gæti komið við sögu í aðalliði Liverpool á komandi leiktíð.

 

 





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan