| Sf. Gutt

Sigri kastað á glæ!

Sigri Liverpool var kastað á glæ á síðustu andartökum fyrri undanúrslitaleiksins við Chelsea. Eitt kostulegasta sjálfsmark sem sést hefur á Anfield Road tryggði Chelsea 1:1 jafntefli. Á einu andartaki breytist staðan úr því að vera mjög vænleg fyrir Liverpool í að vera góð fyrir Chelsea.

Leikurinn var mjög hægur í fyrri hálfleik og það mátti greinilega sjá að leikmenn beggja liða þekkja hvora aðra út og inn. Liverpool fékk fyrsta hættulega færið á 13. mínútu. Dirk Kuyt komst þá inn á teig eftir sendingu frá Xabi Alonso en hann náði ekki að koma skoti á markið og Petr Cech náði boltanum. Á 21. mínútu kom löng sending inn á vítateig Liverpool. Joe Cole fékk boltann einn inn á miðjum teig en hann missti boltann frá sér og Liverpool slapp. Eftir hálftíma fékk Fernando Torres gullið færi. Steven Gerrard laumaði boltanum á hann inni á vítateignum. Fernando fékk boltann í góðu færi en hann náði ekki að leggja boltann vel fyrir sig. Skotið varð því ekki nógu gott og Petr varði með góðu úthlaupi. Liverpool náði svo allt í einu forystu á 43. mínútu. Dirk Kuyt fékk boltann út á hægri kanti og gaf fyrir. John Terry skallaði frá út fyrir teig. Frank Lampard hafði öll tök á því að hreinsa en honum tókst það ekki þegar Dirk sótti að honum. Javier Mascherano kom svo boltanum inn á teig. Enn gat vörn Chelsea komið boltanum frá en það gekk ekki. Boltinn datt fyrir fætur Dirk sem renndi honum undir Petr frá markteigshorninu. Allt gekk af göflunum af fögnuði á Anfield Road! Varnarmenn Chelsea voru klaufskir að ná ekki að hreinsa en Dirk átti þetta mark skuldlaust. Þrautsegja hans gaf markið svo einfalt var það! Stuðningsmenn Liverpool voru því glaðir í bragði þegar flautað var til leikhlés.

Liverpool hóf síðari hálfleikinn af miklum krafti og það var greinilegt á stefnuskránni að ná öðru marki og gera út um leikinn. Það gekk þó ekki ýkja vel að opna vörn Chelsea. Eftir klukkutíma leik átti Ryan Babel þrumuskot utan teigs sem fór rétt framhjá. Rétt á eftir féll lá Fabio Aurelio eftir og var svo borinn af velli vegna meiðsla. John Arne Riise tók stöðu hans. Á 64. mínútu heimtuðu leikmenn Liverpool vítaspyrnu eftir að boltinn fór í hendina á Michael Ballack en dómarinn dæmdi ekkert. Michael ógnaði svo hinu megin á vellinum en skalli hans fór beint í fangið á Jose Reina. Litlu síðar komst Florent Malouda í gott færi inni á vítateignum en Javier komst fyrir skot hans á síðustu stundu. Á 85. mínútu vann Dirk boltann og kom honum á Steven Gerrard sem þrumaði að marki hægra megin úr teignum. Petr sá  á hinn bóginn við Steven og varði frábærlega með því að slá boltann yfir. Liverpool átti nokkrar kraftmiklar sóknir næstu mínúturnar og það leit jafnvel út fyrir að annað mark næðist.

Á lokamínútunni fékk Fernando boltann á fjærstöng eftir hornspyrnu frá vinstri. Hann tók boltann niður en Petr lokaði markinu og varði vel. Þessi markvarsla átti eftir að reynast mikilvæg svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þarna var komið vel fram yfir venjulegan leiktíma en fjórum mínútum var bætt við. Það var þó ekki allt búið enn. Chelsea náði einni sókn þegar fjórða mínútan var að renna sitt skeið. Salomon Kalou fékk boltann upp við endamörkin vinstra megin. Arbeloa og Macherano sóttu að honum en þeir gerðu það ekki nógu vel og hann kom boltanum fyrir markið. Boltinn skoppaði í jörðina og skaust að markinu. John Arne Riise fékk boltann á móti sér og hugðist skalla í horn. Það tókst þó ekki betur til en svo að hann skallaði boltann í eigið mark. Ekki nokkur maður á Anfield Road trúði sínum eigin augum en stuðningsmenn Chelsea kunnu vel að meta þessa gjöf. Það verðir þó seint skilið af hverju John Arne fór í það að skalla boltann með þessum skelfilegu afleiðingum. John Arne var sem steinrunninn þegar flautað var til leiksloka og hann var ekki einn um það!

Seinni hluti þessarar Englandsrimmu fer fram á Stamford Brigde í næstu viku. Liverpool gengur ekki verr á neinum öðrum velli á Bretlandseyjum. Einn sigur hefur unnist þar frá leiktíðinni 1989/1990. Annar slíkur þarf trúlega að vinnast þar ef Rauði herinn á að vinna sér inn fararleyfi til Moskvu!

Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Aurelio (Riise 61. mín.), Kuyt, Alonso, Mascherano, Babel (Benayoun 75. mín .), Gerrard og Torres. Ónotaðir varamenn: Itandje, Hyypia, Crouch, Pennant og Leiva.

Mark Liverpool: Dirk Kuyt (43. mín.).

Chelsea: Cech, Ferreira, Carvalho, Terry, A. Cole, Lampard, Makelele, Ballack (Anelka 86. mín.), J. Cole (Kalou 63. mín.), Drogba og Malouda. Ónotaðir varamenn: Hilario, Shevchenko, Obi, Alex og Belletti.

Mark Chelsea: John Arne Riise, sm, (90. mín.).

Gult spjald: John Terry.

Áhorfendur á Anfield Road: 42.180.

Maður leiksins: Dirk Kuyt. Enn sýndi Hollendingurinn hversu duglegur hann er. Fyrir utan að vera á ferðinni allan leikinn þá kom hann Liverpool yfir. Frábær leikur hjá Dirk og þeim sem gagnrýna hann fækkar óðum.

Álit Rafael Benítez: Það eru 90 mínútur framundan og ef við sköpum okkur jafn mörg færi og í kvöld þá munum við skora. Við vitum að við eigum erfitt verkefni framundan en við höfum trú á okkur. Mér fannst að við ættum opin færi í kvöld. Í svona leikjum er ekki auðvelt að skapa mörg færi en við fengum þrjú góð færi. Ég er vonsvikinn því það þarf að nota þau færi sem gefast. Það voru allir mjög vonsviknir eftir leikinn en það eina sem við getum gert er að vera jákvæðir og hugsa um næsta leik og reyna að vera tilbunir í hann.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC...

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan