| Grétar Magnússon

Jamie Carragher vill ekki að menn missi sig

Jamie Carragher hvetur liðsfélaga sína til þess að halda haus, ef þannig má að orði komast, í leiknum gegn Everton á sunnudaginn.  Carra ætti að tala af reynslu þar sem hann hefur tekið þátt í nágrannaslag undanfarin 10 ár.

Sjaldan hefur verið talað meir um hegðun leikmanna eins og nú og vill Carra að menn láti ástríðuna, og þar með skapið, ekki hlaupa með sig í gönur.

Hann sagði:  ,,Fólk talar um að leikir við Everton snúist um ástríðu, en þeir snúast einnig um það að menn haldi andlitinu og noti heilann.  Leikmenn beggja liða vilja ólmir sigra leikinn og er það bara venjulegt þar sem þetta er svo stór leikur."
 
,,En maður verður að passa uppá að halda yfirveguninni og boltanum eins mikið og maður getur, annars getur maður tapað áttum."

Dómari leiksins verður Howard Webb og vonar Carra að svartklæddi maðurinn taki það með í reikninginn að þetta er enginn venjulegur leikur.  Carra vill þó einnig sjá leikmenn beggja liða sýna ábyrgð.

,,Auðvitað vill maður að dómarinn skilji að þetta er nágrannaslagur," sagði Carra.  ,,En það þýðir ekki að maður eigi að henda sér í tæklingar hægri vinstri.  Þetta er stór leikur fyrir bæði lið, það er enginn vafi á því, og oftast er það liðið sem heldur haus sem ber sigur úr býtum."

,,Ef við höldum haus þá eigum við meiri möguleika á því að sigra, svo einfalt er það."

Leikurinn á sunnudaginn er nágrannaslagur númer 207 og segir Carra að upphafsflautið geti ekki komið nógu snemma fyrir leikmenn Liverpool sem vilja bæta fyrir slæmt tap á Old Trafford um síðustu helgi.

,,Alltaf þegar maður hefur tapað leik, sérstaklega stórum leik, þá vill maður að næsti leikur komi fljótt svo maður geti gleymt tapinu," segir hann.  ,,Og eins og stendur þá gerast leikirnir ekki stærri en nágrannaslagir.  Við lentum í bakslagi en við verðum að hafa það í huga að fyrir tapið vorum við á góðum skriði þar sem við höfðum unnið sjö leiki í röð og spilað mjög góðan fótbolta, nú er okkar starf það að koma okkur út á völlinn til að sýna okkur og sanna á ný."
 
Carra þarf ekki mikið að sanna í þessum leik þar sem ekki margir leikmenn spila eins vel í nágrannaslagnum eins og þessi 30 ára gamli varnarmaður.

,,Maður fer í mikla gleðivímu þegar maður sigrar í nágrannaslagnum og maður verður virkilega niðurdreginn þegar maður tapar, þannig er það bara og þess vegna eru leikmennirnir svo ástríðufullir og æstir í að sigra.  Ef ég lít til baka á leikinn á Goodison þá er nú varla til betri sigur heldur en sigurmark úr vítaspyrnu á síðustu mínútunum."
 
,,En ég verð að viðurkenna að ég tapaði mér aðeins þegar lokaflautan gall og ég fæ hroll þegar ég horfi á þetta á myndbandi.  En þetta er það sem þessi leikur gerir manni.  Þetta hefur svo mikla þýðingu fyrir stuðningsmenn beggja liða og það er það sem gerir þetta svo sérstakt."

,,Ég held að sársaukinn yfir því hvað gerðist á síðasta tímabili (þar sem Everton sigruðu 3-0) átti stóran þátt í því vegna þess að það var slæmur dagur fyrir mig og félagið og mér fannst ég þurfa að sanna eitthvað í næsta leik gegn þeim.  Þess vegna var ég svona ánægður þegar við unnum.  Maður getur eiginlega ekki lýst því í orðum."
 
Sigur hjá Liverpool þýðir fimm stiga forystu í kapphlaupinu um fjórða sætið en Carra neitar að trúa því að Everton séu þar með út úr myndinni.

Hann útskýrir:  ,,Ég hef trú á því að þetta muni verða spennandi tímabilið á enda.  Everton hafa átt frábært tímabil og þeir eru þar sem þeir eru í deildinni útaf eigin verðleikum, það er enginn vafi á því.  Nágrannaslagir eru alltaf erfiðir og þessi verður ekki örðuvísi, kannski enn erfiðari nú þar sem félögin eru að keppast um fjórða sætið."
 
,,Ef við fáum þrjú stig þá mun það gefa okkur fimm stiga forystu og við verðum þá taldir líklegastir til að ná fjórða sætinu.  En ef Everton sigrar þá fara þeir fyrir ofan okkur og sú staðreynd að við eigum fleiri útileiki eftir heldur en þeir gerir þá líklegri til að halda fjórða sætinu.  En hvað sem gerist á sunnudaginn þá er baráttunni ekki lokið.  Það er mikið eftir af tímabilinu og ég er viss um að líkt og við, þá mun Everton einnig hugsa að þeir geti náð fjórða sætinu."
 
Það er nú liðinn áratugur síðan að Carra spilaði í sínum fyrsta nágrannaslag sem endaði með 1-1 jafntefli þar sem Paul Ince jafnaði eftir að Duncan Ferguson hafði komið Everton yfir.  Þá voru hvorki fleiri né færri en níu Englendingar í byrjunarliði Liverpool.  Ef Peter Crouch verður ekki í byrjunarliðinu þá verða einu ensku leikmennirnir í Liverpool Carra sjálfur og Steven Gerrard.

Carra, sem fæddur er í Bootle, segir að nágrannaslagir nú séu allt öðruvísi heldur en þeir leikir sem voru spilaðir þegar hann var að byrja sinn feril.

,,Ég held að leikirnir hafi breyst með árunum," sagði hann.  ,,Ef maður horfir á leikinn á Anfield á síðasta tímabili þá komu Everton hingað og spiluðu djúpt, leyfðu okkur að vera með boltann á miðjunni og buðu okkur að sækja á þá.  Taktík hefur því meira að segja nú heldur en áður en það er reyndar þannig með fótboltann almennt.  Annað sem hefur breyst er sú staðreynd að ein slæm tækling nú þýðir gult spjald.  Það breytir því hvernig maður nálgast leikinn."

Eitt sem hefur þó ekki breyst er ákefð Carra í að vinna leikinn - og hann vonast til þess að standa uppi sem sigurvegari á sunnudaginn.

,,Við vonum það," segir hann.  ,,Ég held að ég myndi ekki höndla svipaða viku eins og síðast þegar við töpuðum."
 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan