| Sf. Gutt

Liverpool sló Ítalíumeistarana út!

Liverpool kláraði við verkið sem hófst á Anfield Road fyrir þremur vikum og sló Ítalíumeistarana úr leik eftir 1:0 sigur á San Siro. Liðið sýndi yfirvegaðan leik og hefndi fyrir ranglætið á þessum sam leikvangi vorið 1965.

Það kom ekki á óvart að heimamenn skyldu hefja leikinn af krafti. Þeir voru vel hvattir af stuðningsmönnum sínum og það mátti greina taugaóstyrk hjá leikmönnum Liverpool á upphafsmínútunum. Fyrsta hættulega færið kom á 12. mínútu. Julio Cruz átti þá hörkuskot að marki utan vítateigs en Jose Reina henti sér niður og varði. Frábær markvarsla og mjög mikilvæg! Um miðjan hálfleikinn var Ryan Babel við að sleppa í gegn eftir langa sendingu fram frá Fabio Aurelio en Julio Cesar, markvörður Inter kom vel út á móti og var á undan Ryan við vítateiginn. Litlu síðar náði Fernando Torres boltanum eftir mistök inni í vítateig Inter en Julio varði skot hans úr þröngu færi. Á 30. mínútu sendi Zlatan Ibrahimovic frábæra sendingu á Julio Cruz en hann skaut hárfínt framhjá. Á lokamínútu hálfleiksins var Julio enn aðgangsharður en Jose varði laglega hælspyrnu hans með snöggum viðbrögðum. Staðan var því langt frá því afleit þegar flautað var til hálfleiks. 

Heimamenn urðu fyrir miklu áfalli eftir aðeins fimm mínútna leik í síðari hálfleik. Nicolas Burdisso braut þá klaufalega á Lucas Leiva á miðjum vellinum. Hann var búinn að fá gult spjald í fyrri hálfleik og nú fékk hann annað slíkt. Sumir mundu hafa talið þetta harðan dóm en dómarinn var viss í sinni sök. Sex mínútum seinna fékk Inter algert dauðafæri. Martin Skrtel, sem átti mjög góðan leik, sendi þá glæpsamlega þversendingu í öftustu vörn sem Zlatan Ibrahimovic komst inn í. Svíinn lék inn í vítateiginn en skaut löku skoti framhjá þegar hann var einn á móti Jose. Liverpool refsaði heimamönnum fyrir þetta á 64. mínútu. Liverpool sneri þá vörn í sókn. Boltinn barst til Fabio Aurelio sem sendi góða sendingu á Fernando Torres sem var rétt innan vítateigsins hægra megin. Spánverjinn lét boltann detta einu sinni en sneri sér svo við og skaut honum neðst í markhornið. Vel afgreitt hjá Fernando og félagar hans fögnuðu honum vel. Ekki létu stuðningsmenn Liverpool sitt eftir liggja við fögnuðinn í áhorfendastæðunum. Eftir þetta var allt loft úr heimamönnum og áframhald Liverpool var tryggt. Heimamenn fengu eitt færi á lokakafla leiksins en Zlatan skaut yfir. Allt sem þurfti féll með Liverpool í þessum leik og magnaður sigur vannst á San Siro. Hverjum hefði dottið í hug eftir skellinn gegn Barnsley að Liverpool skyldi slá Inter út úr Meistaradeildinni eftir sigur heima og að heiman? Þessari Evrópuvegferð Rauða hersins er ekki enn lokið!

Inter Milan: Julio Cesar, Maicon, Burdisso, Rivas, Chivu, Zanetti, Cambiasso, Stankovic (Jimenez 84. mín.), Vieira (Pele 76. mín.), Ibrahimovic (Suazo 80. mín.) og Cruz. Ónotaðir varamenn: Toldo, Figo, Crespo og Maniche.

Rautt spjald: Nicolas Burdisso.

Gul spjöld: Burdisso, Rivas, Stankovic og Chivu.

Liverpool: Reina, Carragher, Skrtel, Hyypia, Aurelio, Babel (Benayoun 61. mín.), Mascherano (Pennant 87. mín.), Gerrard, Leiva, Kuyt (Riise 81. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Itandje, Voronin, Crouch og Arbeloa.

Mark Liverpool: Fernando Torres (64. mín.).

Gul spjöld: Ryan Babel, Steven Gerrard, Fabio Aurelio og Yossi Benayoun.

Áhorfendur á San Siro: 80.000.

Liverpool vann samanlagt 3:0.

Maður leiksins: Javier Mascherano. Argentínumaðurinn var algerlega óþreytandi á miðjunni og stöðvaði ófáar sóknarlotur Inter. Hann átt einfaldlega stórleik og það ekki í fyrsta skiptið.

Álit Rafael Benítez: Við höfðum góða stjórn á leiknum á köflum en þeir ollu okkur líka vandræðum og fengu tvö eða þrjú færi. Við áttum reyndar líka eitt eða tvö færi eftir skyndisóknir. Við vissum að fyrri leikurinn yrði mikilvægur. Í dag lögðum við upp með að berjast og beita skyndisóknum. Við vissum líka að við máttum ekki gera mistök. Ég er því mjög ánægður með framgöngu liðsins í báðum leikjunum.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC...

Hér eru myndir úr leiknum frá Fox sport...

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan