| Grétar Magnússon

Benítez vill byrja árið með hvelli

Rafa Benítez vill að leikmenn sínir byrji árið 2008 með hvelli gegn Wigan í kvöld og taki þar með út þann pirring sem leikurinn við Manchester City skildi eftir sig.

Benítez er viss um að ef liðið spilar jafnvel og gegn City þá muni sigur vinnast.

,,Ef maður skoðar City leikinn þá er augljóst að við vorum betra liðið," sagði hann.  ,,Eftir fyrstu 15 mínúturnar stjórnuðum við leiknum, spiluðum mjög vel og sköpuðum okkur færi og ég er viss um að ef við spilum eins í kvöld þá vinnum við sigur."

,,Það er mikilvægt að vinna vegna þess að við verðum að halda okkur nærri toppi deildarinnar."

Peter Crouch er kominn til baka eftir þriggja leikja bann og telur Benítez að Crouch verði hungraður í að sýna hvað í sér býr.

Hann sagði:  ,,Það er gott að fá Peter til baka vegna þess að við höfum spilað þrjá leiki með stuttu millibili og því er jákvætt að hafa hann tiltækan á ný.  Ég held að leikmenn viti að þegar þeir gera mistök og koma til baka þá vilja þeir gera vel og ég er viss um að Peter muni leggja sig allan fram ef hann verður valinn í liðið."

Líkt og gegn City er Benítez í vandræðum með að manna vörnina en Daniel Agger og Sami Hyypia eru báðir í meðferð hjá sjúkraþjálfurunum þessa dagana og verða hvorugir klárir gegn Wigan í kvöld.  Benítez telur að Alvaro Arbeloa hafi staðið sig vel gegn City og er óhræddur við að láta hann spila í miðvarðastöðunni á ný.

,,Arbeloa var svolítið taugaóstyrkur fyrstu mínúturnar en eftir það jafnaði hann sig og spilaði mjög vel við hliðina á Carra.  Það getur verið erfitt að spila í stöðu sem maður er ekki vanur en ég hef trú á Arbeloa og ef hans er þörf í miðvarðarstöðuna þá er ég viss um að hann mun standa sig."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan