| AB

City hélt jöfnu gegn Liverpool

Dagsskipun Sven-Goran gegn Liverpool var greinileg, halda hreinu! Lítið áhugavert gerðist í fyrri hálfleik þar sem leikurinn minnti frekar á skák og það ekki af hraðari taginu. Langskot Fabio Aurelio glöddu þó augað og hann var greinilega staðráðinn í að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið í 37. leik sínum.

Eitt mark hafði ráðið úrslitum í síðustu fjórum innbyrðisviðureignum liðanna og útlit fyrir að hámark eitt mark gæti ráðið úrslitum á ný. Það var aðeins annað liðið líklegt til stórræðanna og það var Rauði herinn. Liverpool byrjaði seinni hálfleik af krafti og Fernando Torres átti tvö úrvalsfæri en skot hans voru heldur ósannfærandi. Benayoun átti fast skot að marki á 58. mínútu sem Joe Hart blakaði yfir.

City átti jafnan í vök að verjast gegn Liverpool sem sótti stíft en átti í erfiðleikum með að brjóta á bak aftur varnarmúrinn. Benayoun var óþreytandi í að reyna að finna glufur en lítið bar á hinum kantmanninum Harry Kewell.

Ryan Babel kom loks inná á 74. mínútu fyrir Ástralann en hefði að ósekju mátt koma mun fyrr inná enda fyrirtaksleikmaður fyrir slíkar aðstæður enda sprettharður með afbrigðum og leikinn og gæti sett varnarmenn úr jafnvægi. Sú varð líka raunin og þurfti tvo varnarmenn til að stöðva skot hans á síðustu stundu eftir að hann hafði prjónað sig í gegnum vörnina á lokamínútunum.

Besta færi Liverpool kom á 86. mínútu þegar fyrirgjöf rataði á höfuð Dirk Kuyt sem skallaði að marki, Joe Hart sló í boltann en knötturinn stefndi í netið. Richard Dunne kom þá aðvífandi áður en Kuyt tók hálfgert karatespark í áttina að boltanum sem hefði þá örugglega endað í netinu (sjá mynd að ofan).

Sven Göran var feykna ánægður með eitt stig gegn Liverpool. Rauðliðar spiluðu ágætlega fram á við sér í lagi í síðari hálfleik og vörnin gaf lítið eftir en Alvaro Arbeloa virkaði reyndar taugaóstyrkur sem miðvörður sem hann neyddist til þess að spila vegna meiðsla Sami Hyypia. Jamie Carragher og Javier Mascherano hirtu nánast allt og alla sem komu nálægt marki Reina.

Það var ekki hægt að áfellast Rafa fyrir úrslitin því það var greinilega lögð áhersla á að sækja þriðja sigurinn í röð en City varðist af miklum móð með Micah Richards og Richard Dunne fremsta í flokki í miðri vörninni. Liverpool lýkur árinu tíu stigum á eftir efsta liðinu, Arsenal, en á leik til góða gegn West Ham á Anfield.

Manchester City: Hart, Onuoha, Richards, Dunne, Ball, Ireland (Gelson 61. mín.), Hamann, Corluka, Petrov, Elano (Bianchi 70. mín.) og Vassell (Geovanni 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Isaksson og Garrido.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Arbeloa, Aurelio, Benayoun, Gerrard, Mascherano, Kewell (Babel 74 mín.), Torres, Kuyt.
Ónotaðir varamenn: Itandje, Riise, Voronin og Alonso.

Áhorfendur á City of Manchester leikvangnum: 47.221.

Maður leiksins: Jamie Carragher. Dæmigerður leikur hjá þessum mikla kappa. Hann lagði sig allan fram og gaf ekki tommu eftir. Undir lokin var hann næstum búinn að leggja upp mark sem hefði tryggt sigurinn.

Álit Rafael Benítez:  Við vorum orðnir örvæntingarfullir. Við fengum fjölda færa, spiluðum vel og höfðum boltann mestallan leikinn. Ég er ánægður með liðið en óánægður með úrslitin. Við fengum nægilega mörg færi til að klára leikinn gegn góðu liði sem er erfitt að leggja að velli á heimavelli. Leikmennirnir lögðu sig alla fram og voru frábærir. Það er ágætt að halda hreinu á útivelli en eftir 17 skot á mark vildi maður hafa fagnað sigri.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan