| Sf. Gutt

Nú er það svart!

Útlitið er svart fyrir Liverpool eftir 2:1 tap gegn Besiktas í Tyrklandi. Allt gekk á afturfótunum hjá Liverpool í þessari heimsókn til Istanbúl. Liðið er nú neðst í sínum riðli í Meistaradeildinni og það þarf mikið að gerast til að það komist upp úr riðlinum.

Leikurinn byrjaði fjörlega og strax á upphafsmínútunum átti einn heimamanna skot sem fór í varnarmann Liverpool og þaðan rétt yfir markið. Rétt á eftir slapp Besiktas með skrekkinn þegar Andriy Voronin kom boltanum framhjá markmanninum á markteig. Boltinn stefndi í markið en varnarmaður bjargaði á línu. Besiktas náði svo forystu eftir hroðaleg mistök í vörn Liverpool. Sóknarmaður Besiktas sótti upp að endamörkum. Jamie Carragher renndi sér fyrir hann og náði boltanum af honum á snjallan hátt. Jamie reyndi svo að koma boltanum frá markinu. Það tókst ekki betur til en það að boltinn hrökk í Steve Finnan og þaðan fór hann til Serdar Ozkan. Hann skaut hættulitlu skoti að marki en allt fór á versta veg fyrir Liverpool því boltinn fór í Sami Hyypia og þaðan í markið. Jose gat hvorki hreyft legg né lið. Sami verður ekki kennt um þetta slysalega mark en heppnin er sannarlega ekki með Finnanum um þessar mundir. Liverpool reyndi að herða sig án þess að ná sér á strik. Hakan Arikan, markvörður Besiktas, þurfti þó tvívegis að taka á honum stóra sínum fram að leikhléi. Fyrst sló hann hörkuskot frá John Arne Riise yfir. Svo varði hann með frábæru úthlaupi þegar Steven Gerrard náði að skjóta sér inn á teiginn eftir fallegt samspil við Dirk Kuyt. Heimamenn gátu sannarlega verið kátir þegar flautað var til hálfleiks.

Lengi vel náði Liverpool ekkert að herja almennilega á mark Tyrkjanna í síðari hálfleik. Steven Gerrard var þó óheppinn þegar hann átti skot utan vítateigs sem strauk stöngina og fór framhjá. Yossi Benayoun náði að færa svolítið líf í sóknarleik Liverpool eftir að hann kom til leiks. Steven slapp inn á teiginn þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir en Hakan kom vel út á móti honum. Heimamenn fengu svo gullið tækifæri til að gera út um leikinn eftir vel útfærða skyndisókn en Deivson Bobo skaut yfir úr dauðafæri. Honum urðu þó ekki á nein mistök átta mínútum fyrir leikslok. Hraðri sókn Besiktas lauk með því að hann stakk sér framhjá Sami og lék inn á vítateiginn þar sem hann renndi boltanum undir Jose Reina. Heimamenn trylltust af fögnuði. Sami var tekinn af leikvelli og Peter Crouch kom inn á. Hann gerði usla í vörn Besiktas fimm mínútum fyrir leikslok. Hann stökk upp í skallaeinvígi. Boltinn barst til varnarmanns sem skallaði frá markinu. Boltinn fór beint á Steven Gerrard sem henti sér fram og stangaði boltann í markið. Liverpool gerði harða hríð að marki Besiktas undir lokin en ekkert gekk og stuðningsmenn tyrkneska liðsins gátu slegið upp veislu þegar flautað var af. 

Besiktas: Arikan, Tandogan, Zan, Toraman, Uzulmez, Kurtulus (Avci 42. mín.), Cisse, Tello, Ozcan, Bobo (Diatta 86. mín.) og Delgado (Higuain 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Ozmen, Yozgatli, Nobre og Ricardinho.

Mörk Besiktas: Sami Hyypia sm. (13. mín) og Deivson Bobo (82. mín.)

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia (Crouch 83. mín.), Riise, Pennant (Benayoun 59. mín.), Gerrard, Mascherano (Lucas 76. mín.), Babel, Voronin og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Itandje, Alonso, Sissoko og Hobbs.

Mark Liverpool: Steven Gerrard (85. mín.).

Áhorfendur á Inonu leikvanginum: 32.500.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Steven lék vel og reyndi að drífa liðið áfram. Hann skoraði eina mark Liverpool og var óheppinn að skora ekki fleiri mörk.

Álit Rafael Benítez: Við getum unnið síðustu leikina ef við spilum eins og á móti Besiktas. Leikmennirnir lögðu hart að sér og það er ekki hægt að ásaka þá. Við áttum margar marktilraunir sem annað hvort fóru á markið eða framhjá. Við höfðum svo til tök á öllu en gerðum okkur seka um stór mistök í fyrri hálfleik.

Í hinum leiknum í riðlinum vann skildu Marseille og Porto jöfn 1:1 í Frakklandi.

Staðan er nú þessi í A riðli.

Marseille 3. 2 1 0 4:1. 7
Porto 3. 1 2 0 3 :2. 5
Besiktas 3. 1 0 2 2:4. 3
Liverpool 3. 0 1 2 2:4. 1

Hér eru myndir úr leikjum kvöldsins á vefsíðu BBC... 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan