Kjaftshögg á Anfield Road
Liverpool tapaði fyrsta leik sínum á leiktíðinni þegar liðið lá 1:0 á heimavelli fyrir Marseille í öðrum leik liðsins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Liðið var óravegu frá sínu besta og í raun var þetta versti Evrópuleikur Liverpool á Anfield Road í áraraðir. Staða liðsins í riðlinum er nú orðin ískyggileg.
Boudewijn Zenden var í byrjunarliðinu gegn sínu gamla félagi en Djibril Cissé var á bekknum. Þess má geta að í liði gestanna mátti finna Benoit Cheyrou sem er bróðir Bruno sem áður lék með Liverpool. Belginn Eric Gerets, sem stýrði Marseille í fyrsta sinn, hafði greinilega náð að blása lífi í liðið sem hefur verið slakt í frönsku deildinni það sem af er leiktíðar. Leikmenn Marseille mættu ákveðnir til leiks og á móti kom að leikmenn Liverpool voru ekki vel upplagðir. Marseille náði góðri sókn á 12. mínútu en Jose Reina varði vel frá Mamdou Niang sem var kominn í gott færi á teignum. Það var talandi dæmi um hvað stefndi í þegar Fabio Aurelio tók aukaspyrnu vinstra megin á 22. mínútu. Brasilíumaðurinn skaut í dómarann! Marseille skoraði mark sem dæmt var af eftir rúman hálftíma. Jose varði þá vel en Karim Ziani skoraði eftir að hafa náð frákastinu. Mamdou Niang var dæmdur rangstæður fyrr í sókninni og var það hæpinn dómur í meira lagi. Leikmenn Liverpool tóku sig samt ekkert á þrátt fyrir þessa viðvörun.
Ekki lagaðist leikur liðsins neitt eftir leikhlé. Mamdou ógnaði marki Liverpool eftir aukaspyrnu á 63. mínútu en skot hans fór beint á Jose. Í næstu sókn átti Stevven Gerrard skot utan teigs sem fór rétt framhjá. Djibril Cissé kom til leiks á 70. mínútu og fékk góðar viðtökur hjá stuðningsmönnum Liverpool. Djibril beið ekki boðanna og átti skot, rétt eftir að hann kom inn á, en það fór víðs fjarri. Það var loks þegar um stundarfjórðungur var eftir að leikmenn Liverpool virtust vera að ranka úr rotinu. Fernando Torres reyndi þá að koma boltanum fyrir markið í teignum. Boltinn fór í hendi eins varnarmanns og þaðan í horn. Með réttu hefði átt að dæma vítaspyrnu. Sami Hyypia skallaði svo rétt framhjá eftir hornspyrnuna sem fylgdi. Stuðningsmönnum Liverpool hefði, þegar þarna var komi við sögu, kannski dottið í hug að liðið þeirra væri að hrökkva í gang. Ekki aldeilis. Liðið fékk kjaftshögg á 77. mínútu. Mohamed Sissoko missti þá boltann fyrir utan vítateiginn. Marseille náði boltanum og góður samleikur endaði með því að Mathieu Valbuena skoraði með glæsilegu skoti utan teigs upp í vinkilinn. Jose Reina hreyfði hvorki legg né lið og átti ekki möguleika á að verja. Þess má geta að Boudewijn Zenden átti sendinguna á Mathieu. Hollendingurinn haltraði af velli undir lokin. Hann gat verið sáttur enda búinn að skila sínu. Leikmenn Liverpool hófu að reyna að sækja en ekkert gekk að ógna markinu fyrr en á lokamínútunni. Þá komu þrjú góð færi. Fyrst skallaði Sami framhjá eftir horn en hann hefði átt að hitta markið því hann var óvaldaður. Rétt á eftir átti Yossi Benayoun skalla sem fór í varnarmann og framhjá. Enn sótti Liverpool og þung sókn endaði með því að Dirk Kuyt kom boltanum fyrir markið frá vinstri. Við fjærstöng fékk Fernando boltann en fast skot hans rakst í varnarmann og fór af honum í stöng. Ekkert gekk og Liverpool mátti þola fyrsta tap sitt á heimavelli fyrir frönsku liði í Evrópusögu sinni.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Aurelio (Voronin 70), Benayoun, Gerrard, Sissoko, Leto (Riise 52), Torres og Crouch (Kuyt 75. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje, Arbeloa, Babel og Mascherano.
Gul spjöld: Steven Gerrard, Mohamed Sissoko og Jamie Carragher.
Marseille: Mandanda, Bonnart, Rodriguez, Givet, Taiwo, Cana, Cheyrou, Valbuena (Oruma 83. mín.), Ziani, Zenden (Arrache 87. mín.) og Niang (Cissé 70. mín.). Ónotaðir varamenn: Hamel, Zubar, M´Bami og Moussilou.
Mark Marseille: Mathieu Valbuena (77. mín.).
Áhorfendur á Anfield Road: 41.355.
Maður leiksins: Jose Reina. Jose verður ekki sakaður um markið og var mjög öruggur í markinu.
Álit Rafael Benítez: Það má ræða um valið á liðinu. En ef við horfum á liðið þá var það skipað mikilvægum mönnum. Staðreyndin er sú að þessir menn, sem voru valdir, léku ekki vel í leiknum. Þetta var lélegur leikur af okkar hálfu. Við spiluðum ekki vel og sköpuðum okkar ekki mörg marktækifæri. Þetta var greinilega ekki okkar dagur.
Í hinum leiknum í riðlinum vann Porto 1:0 sigur gegn Besiktas í Tyrklandi.
Staðan er nú þessi í A riðli.
Marseille 2 .2 0 0 3:0. 6
Porto 2. 1 1 0 2 :1. 4
Liverpool 2. 0 1 1 1: 2 .1
Besiktas 2. 0 0 2 0: 3. 0
Hér eru myndir úr leikjum kvöldsins á vefsíðu BBC...
-
| Sf. Gutt
Alisson gæti verið frá í rúman mánuð! -
| Sf. Gutt
Það var fyrir níu árum! -
| Sf. Gutt
Jarell Quansah gerir nýjan samning -
| Sf. Gutt
Alisson meiddur -
| Sf. Gutt
Áfram á toppnum! -
| Sf. Gutt
Federico meiddur -
| Sf. Gutt
Arne Slot setur nýtt félagsmet! -
| Sf. Gutt
Hinsta ferð Ron Yeats -
| Sf. Gutt
Er ekkert að spá í stigatöfluna! -
| Sf. Gutt
Arne Slot setur nýtt félagsmet!