| Grétar Magnússon

Pepe jafnar met frá 1977

Pepe Reina hélt marki sínu hreinu í fimmta leiknum í ensku Úrvalsdeildinni á laugardaginn var og jafnaði þar með met sem sett var á því herrans ári 1977.

Ekki síðan 1977 hefur vörn Liverpool byrjað leiktíðina eins vel og ef Reina tekst að halda hreinu gegn Tottenham á sunnudaginn kemur þá verður nýtt met sett.  Reina viðurkennir að byrjun tímabilsins veki vonir um sigur í Úrvalsdeildinni í brjóstum leikmanna.

,,Að vinna á útivelli í svona leik gerir það að verkum að maður hugsar um titilbaráttu og það að við eigum góða möguleika," sagði Reina eftir sigurinn gegn Wigan.

,,Við erum samt að hugsa um að vinna leik eftir leik og við erum ekki að hugsa sérstaklega um titilinn.  En, að sjálfsögðu, höfum við þetta á bakvið eyrað.  Við einbeitum okkur hinsvegar að því að taka eina viku í einu og vinna hvern einasta leik."

Reina hefur aðeins fengið á sig mörk úr vítaspyrnum á þessu tímabili, bæði í Úrvalsdeildinni og í Meistaradeildinni.  Reina segir að þetta sé ekki einungis sér að þakka heldur öllu liðinu.

,,Við erum stoltir af þessu, en við erum allir saman í því að verjast þannig að allir eiga sinn þátt í þessu meti.  Við höfum aðeins fengið á okkur mörk frá vítapunktinum á þessu tímabili og það er mikilvægt.  Þetta er eitthvað sem við erum stoltir af og við verðum að halda áfram að leggja hart að okkur.

Varnarlína liðsins hefur þónokkuð breyst undanfarið en Reina segir að alveg eins líklegt sé að varnarmenn þurfi að sætta sig við að sitja á bekknum öðru hverju.

,,Vörnin hefur breyst mikið á þessu tímabili líkt og miðjan og sóknin.  Steve Finnan og Arbeloa hafa spilað hægra megin, Riise, Arbeloa og Aurelio vinstra megin með Daniel, Carra og Sami í miðverðinum.  Allir leikmenn liðsins eru nógu góðir til að spila á sama leveli og það er mikilvægt fyrir okkur.

,,Við vitum að til þess að vinna sigur er mikilvægt að halda hreinu.  Þá höfum við möguleika á því að skora með þeim gæðaleikmönnum sem við höfum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan