| Sf. Gutt

Seiglingssigur á Wigan

Liverpool vann loks deildarleik eftir jafntefli í síðustu tveimur deildarleikjum. Einstaklingsframtak varamanns Yossi Benayoun réði úrslitum í útileiknum gegn Wigan í dag.

Liverpool hóf leikinn betur. Um miðjan hálfleikinn komst Fernando Torres í gott færi en Chris Kirkland varði með góðu úthalupi. Boltinn rúllaði að markinu en fór framhjá. Eftir rúman hálftíma fékk Fernando algert dauðafæri. Fafio Aurelio sendi inn á teiginn. Fernando fékk boltann óvaldaður en klippti hann framhjá markinu. Hann hafði nægan tíma til að taka boltann niður og fór þarna illa að ráði sínu. Liverpool hefði átt að hafa forystu í hálfleik en ekkert var skoraði í hálfleiknum.

Heimamenn léku mun betur í síðari hálfleik. Snemma hálfleiksins skoraði Marcus Bent en markið var dæmt af vegna rangstæðu. Marcus var þó ekki rangstæður og lánið var með Liverpool. Litlu síðar átti Dirk Kuyt hörkuskot að marki en Josip Skoko henti sér fyrir skotið og bjargaði. Um miðjan hálfleikinn var Paul Schamer ágengur við mark Liverpool. Hann kom boltanum framhjá Jose Reina en náði ekki að koma honum í markið. Eina mark leiksins kom þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Jermaine Pennant sendi upp að teignum á varmanninn Yossi Benayoun. Ísraelsmaðurinn tók frábærlega við boltanum og lék framhjá Titus Bramble. Hann lék svo aftur á sama mann og renndi boltanum í netið úr teignum. Glæsilegt einstaklingsframtak hjá Yossi. Heimamenn reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna á lokakaflanum. Leikmenn Liverpool vörðu forystu sína með kjafti og klóm en heppnin var með þeim á síðustu mínútu leiksins. Julius Aghahowa fékk þá algert dauðafæri beint fyrir framan mark Liverpool. Jason Koumas lék upp vinstra megin og sendi fyrir en Julius skallaði á óskiljanlegan hátt framhjá. Liverpool slapp því frá Wigan með þrjú stig í farteskinu. Liðið lék ekki ýkja vel en stigin voru fyrir öllu í þetta sinn.

Wigan: Kirkland, Melchiot, Boyce, Bramble, Kilbane, Scharner (Taylor 82. mín.), Skoko, Brown, Koumas, Aghahowa og Bent. Ónotaðir varamenn: Pollitt, Granqvist, Hall og Olembe.

Gul spjöld: Michael Brown og Mario Melchiot.

Liverpool: Reina, Arbeloa, Hyypia, Carragher, Aurelio (Benayoun 56. mín.), Pennant (Voronin 82. mín.), Gerrard, Mascherano, Riise, Torres (Sissoko 89. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Itandje og Finnan.

Mark Liverpool: Yossi Benayoun (75. mín.).

Gult spjald: Javier Mascherano.

Áhorfendur á JJB leikvanginum: 24.311.

Maður leiksins: Yossi Benayoun. Ísraelinn kom inn sem varamaður og gerði það sem allir varamenn eiga að gera. Það er að láta vel að sér kveða. Það gerði Yossi heldur betur með því að skora sigurmarkið í leiknum. Hann er nú búinn að skora í tveimur leikjum í röð.

Álit Rafael Benítez: Við erum ánægðir því við erum nærri toppi deildarinnar og eigum leik til góða. Við erum í miklu betri stöðu en á síðustu leiktíð. Það má vera að Wigan telji að þeir hafi átt eitthvað skilið úr þessum leik en við áttum betri færi í 80 mínútur.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan