| Sf. Gutt

Þakkir til Liverpool!

Fyrir einni viku vottuðu stuðningsmenn Liverpool, fjölskyldu Rhys heitins Jones, samúð sína með eftirminnilegum hætti fyrir leik Liverpool og Toulouse á Anfield Road. Áður en stuðningsmenn Liverpool sungu You Will Never Walk Alone var lagið Johnny Todd, úr Z-Cars, spilað. Þetta lag, sem var í miklu uppáhaldi hjá Rhys, er alltaf spilað í þann mund sem leikmenn Everton hlaupa til leiks á Goodison Park. Lagið hefur aldrei áður verið leikið á Anfield Road og verður trúlega aldrei aftur spilað þar! Áhorfendur á Anfield Road sungu svo You Will Never Walk Alone samkvæmt hefð. Segja má að þessi mikli söngur hafi líka verið sunginn fyrir fjölskyldu Ryhs heitins. Áhorfendur heiðruðu svo minningu Rhys litla með lófataki.

Stephen og Melanie, foreldrar Rhys, og Owen eldri bróðir hans voru gestir Liverpool Football Club á leiknum og stóðu við hliðarlínuna þegar minningarathöfnin fór fram. Þeir feðgar klæddust að sjálfsögðu Everton treyjum og Melanie var með Everton trefil um hálsinn! Eftir leikinn þökkuðu þau Stephen og Melanie Liverpool F.C. fyrir að heiðra minningu sonar síns.

Stephen Jones: Þegar við komum út úr bílnum fyrir utan völlinn klöppuðu allir mikið og vel fyrir okkur. Við urðum alveg steinhissa. Þetta var alveg einstakt. Hávaðinn, þegar við komum út að hliðarlínunni, var gríðarlega mikill. Við heyrðum ekki einu sinni þegar lagið Z-Cars var spilað en bróðir minn fullvissaði mig um að lagið var leikið. Á eftir hittum við David Moores og Rick Parry. Ég sagði þeim að stuðningsmenn þeirra hefðu verið Liverpool, bæði borginni og félaginu, til sóma. Þetta var virkilega tilfinningaþrungin stund fyrir okkur. Bæði Rafa og konan hans auk Steven Gerrard komu til okkar og vottuðu okkur samúð sína. Þetta fólk þurfti ekki að hafa fyrir því að tala við okkur en það gerði það samt. Þetta fólk var einfaldlega frábært og það sama má segja um stuðningsmennina.

Melanie Jones: Ég var alveg undrandi þegar við komum þangað. Alveg fram að þeirri stund þá var ég ekki viss um hvort þaðhefði verið rétt af okkur að fara. Allir hjá Liverpool voru alveg sérlega góðir við okkur allan tímann.

Rick Parry: Stuðningsmennirnir brugðust frábærlega við. Þetta var augljóslega geysilega tilfinningaþrungin stund og ég er mjög ánægður með að fjölskyldunni fannst að hún gæti komið hingað og eytt þessari kvöldstund með okkur. Stuðningsmennirnir sýndu að þetta var rétti tíminn til að láta grannaríginn til hliðar og syrgja félaga sem deildi sama áhugamáli.

Hér má upplifa þessa einstöku minningarathöfn...

Því miður þá er morðingi Rhys Jones er ófundinn. Lögreglan í Liverpool hefur unnið þrotlaust að því að finna morðingjann en það hefur enn ekki tekist.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan