| Sf. Gutt

Jafnt í hörðum slag

Liverpool og Chelsea skildu jöfn 1:1 í hörðum slag á Anfield Road í dag. Liverpool lék vel í leiknum og átti að hafa sigur miðað við gang leiksins. En óskiljanlegur vítaspyrnudómur færði Chelsea stig.

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og tók frumkvæðið. Strax á 2. mínútu sendi Jermaine Pennant góða sendingu þvert yfir teiginn til vinstri. John Arne Riise fékk boltann frír en missti boltann frá sér í góðri stöðu og Petr Chech náði boltanum með góðu úthlaupi. Um tíu mínútum seinna átti John Arne gott langskot sem fór beint á markvörðinn. Liverpool tók svo forystuna sanngjarnt á 16. mínútu. Dirk Kuyt vann skallaeinvígi á miðjunni. Steven Gerrard náði boltanum og sendi stórkostlega sendingu fram á Fernando Torres. Spánverjinn fékk boltann vinstra megin og lék inn í vítateiginn. Þar lék hann á Tal Ben-Haim eins og hann væri ekki til og læddi boltanum framhjá Petr og neðst í hornið fjær. Snilldarlega gert hjá þessum dýrasta leikmanni Liverpool fyrr og síðar. Allt sprakk af fögnuði á Anfield Road! Tvöfaldir bikarhafar Chelsea fóru nú að bíta frá sér og Didier Drogba átti hættulega aukaspyrnu sem fór rétt framhjá á 23. mínútu. Boltinn breytti um stefnu á liðinni og litlu mátti muna. Fimm mínútum fyrir leikhlé ógnaði Chelsea aftur eftir aukaspyrnu. Boltinn var sendur frá hægri yfir á fjærstöng. Þar munaði hársbreidd að John Terry kæmist í boltann í dauðafæri. Forysta Liverpool í hálfleik var samt fyllilega verðskulduð.

Chelsea fékk fyrsta færið í síðari hálfleik. Strax í byrjun hálfleiksins skallaði Claudio Pizaro, sem kom inn sem varamaður, rétt framhjá. Eftir góða byrjun Chelsea náði Liverpool betri tökum á leiknum á nýjan leik. Xabi Alonso skaut framhjá úr góðu færi og allt virtist vera á réttri leið. Það er segja þangað til dómarinn Rob Styles tók til sinna ráða á 62. mínútu. Shaun Wright-Phillips sendi þá inn á teig frá hægri. Florent Malouda og Steven Finnan fóru í átt að boltanum. Florent sýndist láta boltann fara. Að minnsta kosti kom hann ekki við boltann. Steve Finnan virtist svo í besta falli rekast í hann ef þeir snertust þá nokkuð. Að minnsta kosti var ekki um neitt brot að ræða en dómarinn dæmdi, öllum til mikillar furðu, vítaspyrnu sem var algert kjaftæði. Leikmenn Chelsea virtust undrandi yfir því að fá þessa gjöf upp í hendurnar. Leikmenn Liverpool voru ekki bara undrandi heldur líka fjúkandi reiðir! Það skipti engu og Frank Lampard skoraði af öryggi úr vítinu með því að senda Jose Reina í rangt horn. Eftir þetta reyndu leikmenn Chelsea að halda fengnum hlut. Liverpool sótti meira en það er hægara sagt en gert að brjóta vörn Chelsea á bak aftur. Petr varði mjög vel í horn frá John Arne eftir að Norðmaðurinn komst í gott færi sem þó var heldur þröngt. Rétt fyrir leikslok héldu margir stuðningsmenn Liverpool að Ryan Babel, sem kom inn sem varamaður, hefði skorað sigurmarkið en þrumuskot hans utan teigs strauk hliðarnetið og fór framhjá. Liðin skildu því jöfn og leikmenn Chelsea geta sannarlega hrósað happi. Leikmenn Liverpool töldu sig rænda sigri og sú skoðun þeirra var vel skiljanleg! 

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Arbeloa, Pennant (Babel 68. mín.), Gerrard, Alonso, Riise (Crouch 83. mín.), Torres og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Itandje, Hyypia og Mascherano.

Mark Liverpool: Fernando Torres (16. mín.)

Gul spjöld: Dirk Kuyt, Jermaine Pennant, Steven Gerrard og Jamie Carragher.

Chelsea: Cech, Essien, Ben-Haim, Terry, A. Cole, Kalou (Pizarro 46. mín.), Wright-Phillips (J. Cole 77. mín.), Obi, Lampard, Malouda (Alex 85. mín.) og Drogba. Ónotaðir varamenn: Cudicini og Makelele.

Mark Chelsea: Frank Lampard, víti (62. mín.)

Gul spjöld: Michael Essien, Ashley Cole, Ben-Haim, Frank Lampard og John Terry.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.924.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Steven lék mjög vel og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Snilldarsending hans skapaði markið fyrir Fernando. Þar fyrir utan þá lét Steven mikið til sín taka á miðjunni. Stórgóð framganga miðað við að hann spilaði með brákaða tá.

Álit Rafael Benítez: Við sköpuðum nægilega mörg tækifæri til þess að vinna leikinn og við hefðum unnið hann ef þessi ósýnilegu vítaspyrna hefði ekki komið til. Það sáu allir að þetta hafi ekki verið vítaspyrna og það var synd að þessi dómur kostaði okkur tvö stig. Við erum afar vonsviknir vegna þess að við lékum vel gegn góðu liði en dómurinn sem var dæmdur gegn okkur er alveg óskiljanlegur."


 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan