| Grétar Magnússon

Tímabilið veltur ekki á næsta leik

Rafael Benítez segir að það hvernig tímabilið endi fari ekki eftir því hvernig úrslitin gegn Chelsea verða.  Koma Jose Mourinho og félaga ætti að gefa Benítez skýra mynd af stöðu síns liðs eftir kaup sumarsins.

Benítez er hinsvegar fljótur að minna á það að titlar vinnast á stöðugleika en ekki einum leik gegn öðru toppliði.

,,Eftir sigurinn gegn Aston Villa sagði ég að við ættum ekki að gleyma okkur í fagnaðarlátum.  Næsti leikur er aðeins okkar annar í deildinni.  Það er mikilvægt að vinna, sérstaklega gegn toppliði vegna þess að það sendir ákveðin skilaboð, en þetta er aðeins einn leikur."

,,Ég verð ánægður ef ég sé mitt lið bæta sig.  Ef við náum sigri þá er það ennþá betra.  En ef maður vill gera alvöru atlögu að titlinum, þá snýst það ekki bara um að vinna einn leik, maður verður að vinna marga leiki."

Aðspurður um það hvort hitinn í Frakklandi hafi haft áhrif á leikmenn sína sagði Benítez:  ,,Ég held að þetta muni ekki hafa áhrif.  Við höfum nægan tíma og við getum róterað leikmönnum ef þess gerist þörf þannig að þetta er ekki vandamál.  Við höfum mikið sjálfstraust vegna þess að við vitum að við getum sigrað þá."

Benítez var einnig spurður útí ummæli Jose Mourinho þess efnis að Liverpool séu undir mikilli pressu eftir kaup sumarsins og svaraði hann því þannig:  ,,Stjórarnir skipta ekki máli.  Það er miklu betra fyrir leikinn ef við tölum um leikmenn eins og Steven Gerrard og John Terry."

,,Hann (Mourinho) sagði að hann talaði ekki um önnur lið, kannski hefur hann gleymt sér núna.  Allavega vitum við að við þurfum að vinna marga leiki vegna þess að við erum topplið.  En ef maður skoðar hverjir enduðu á toppnum á síðasta tímabili, og hverjir hafa eytt mestum peningum undanfarin fimm ár, þá eru það tvö lið sem eru langt fyrir ofan næstu lið."

Það er nokkuð ljóst að leikurinn á sunnudaginn er mikilvægur, allir leikir milli stóru liðanna eru það.  En Benítez hefur einnig rétt fyrir sér í því að leikurinn sé ekki að fara að móta það sem eftir er af tímabilinu.  Eins og margir muna töpuðu núverandi meistarar United fyrir Arsenal á heimavelli snemma á síðasta tímabili sem sannar það að svona leikir eru bara einn leikur af mörgum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan