| Sf. Gutt

Auðveld ákvörðun

Jerzy Dudek er nú orðinn leikmaður Real Madrid. Þrátt fyrir að hann geti ekki búist við að spila mikið með spænsku meisturunum var það honum auðveld ákvörðun að ganga til liðs við Real.

"Ef satt skal segja þá var þetta mjög auðveld ákvörðun því allir Spánverjarnir, sem urðu vinir mínir hjá Liverpool, sögðu mér að ég gæti ekki neitað því að fara til Real Madrid. Ég var mjög ánægður með að fólk vildi fá mig hingað. Þegar ég vissi að Real Madrid hafði áhuga á mér fór ég strax til Jose Manuel Ochotorena, markvarðarþjálfara Liverpool, sem spilaði með Real Madrid og fæddist hérna. Hann þekkir félagið vel. Hann sagði mér að bíða ekki boðanna því það væri frábært að spila fyrir þetta félag. Hann sagðist vita að ég gæti staðið mig."

Jerzy varð goðsögn þegar Liverpool vann Evrópubikarinn í Istanbúl vorið 2005. Úrslitaleikurinn gegn AC Milan reyndist hápunkturinn á ferli hans hjá Liverpool og svo einkennilegt sem það var þá missti Pólverjinn stöðu sína í byrjunarliðinu eftir hetjulega framgöngu sína á Ataturk leikvanginum.

"Það er erfitt að sætta sig við þá ákvörðun þjálfarans að setja mann á bekkinn eftir að maður hafði spilað besta leik lífs síns. Ég hef alltaf verið jákvæður og fagmannlegur á öllum ferli mínum. Ég sýndi mikla fagmennsku síðustu 18 mánuðina sem ég var hjá Liverpool og ég vona að allir hafi verið ánægðir með framkomu mína.

Það er alltaf erfitt fyrir knattspyrnumann að fá ekki að spila. Ég skammaðist mín þó aldrei fyrir að vera varamaður fyrir Jose Reina. Pepe var mjög góður markmaður. Ég hugsaði aldrei með mér. "Af hverju er ég á varamannabekknum?" Eða þá. "Ég er betri en Pepe." Þetta var aldrei svoleiðis. Jose stóð sig mjög vel í hverjum einasta leik á Englandi og mér fannst hann verðskulda stöðu sína. Kannski var hann markvörður þeirrar gerðar sem Rafael Benítez vildi hafa."

Það er ekki að spyrja að heiðarleikanum hjá þessum einstaka Pólverja. Hann sætti sig bara við að vera varamaður markvarðar sem hann taldi vera betri en hann sjálfur. Líklega verður hann í sömu aðstöðu hjá Real Madrid. Jerzy veit að minnsta kosti að hverju hann gengur hjá Real Madrid. Þar er fyrir sá markvörður sem talinn er sá besti á Spáni. Þar í landi er Jose Reina bara talinn sá næstbesti!

Jerzy Dudek lék 186 leiki með Liverpool. Jerzy vann tvo titla með. Hann varð Deildarbikarmeistari árið 2003 og Evrópumeistari árið 2005.

 






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan