Saga Liverpool FC

 

1946 - 1947

Í nóvember var það þó annar sóknarmaður sem var í sviðsljósinu. Reyndar féllu allir aðrir leikmenn Liverpool í skuggann af Jack Balmer. Jack, sem fæddur var í Liverpool og alinn upp hjá félaginu, setti þá fágætt met. Hann varð fyrsti leikmaðurinn í sögu deildakeppninnar til þess að skora þrennu í þremur leikjum í röð og reyndar skoraði hann einu betur í eitt skiptið. Ævintýrið hófst 9. nóvember á Anfield Road gegn Portsmouth. Liverpool vann 3:0 og Jack skoraði öll mörkin. Viku síðar, 16. nóvember, lék Liverpool gegn Derby á útivelli. Góður sigur 4:1 vannst og Jack skoraði fernu í þetta skiptið. Þann 23. nóvember kom Arsenal í heimsókn á Anfield Road. Jack hélt uppteknum hætti og skoraði fyrstu tvö mörk Liverpool. Stuðningsmenn Liverpool hvöttu Jack ákaft til dáða og vonuðust eftir að hann næði þrennu. Það gerði hann við gríðarlegan fögnuð áhorfenda. Þriðja þrennan var í höfn. Albert Stubbins skoraði fjórða mark Liverpool og 4:2 sigur var í höfn. En nafn Jack Balmer var á allra vörum. Hann hafði samtals skorað tíu mörk í röð án þess að hleypa öðrum félögum sínum á blað yfir markaskorara á meðan.

Fögnuði áhorfenda við mörkum Jack gegn Arsenal var þannig lýst í staðarblaðinu Echo. Mark númer eitt. "Var vel fagnað." Mark númer tvö. "Allt sprakk." Mark númer þrjú. "Mesti fögnuður í langri sögu Anfield braust út." Jack lét ekki þar við sitja og í næstu fjórum leikjum skoraði hann fimm mörk. Hann skoraði því 15 mörk í 7 leikjum. Alls lék Jack 313 leiki og skoraði 111 mörk á ferli sínum með Liverpool. Annar sóknarmaður úr Liverpoolborg Cyril Done var líka duglegur við markaskorun og skoraði tvær þrennur á leiktíðinni. Cyril var nautsterkur, stór og erfiður viðureignar. Hann skoraði síðasta mark Liverpool áður en stríðið hófst í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Sá leikur var ekki talinn með í opinberum tölum. Hann lék aftur "fyrsta" leik sinn með Liverpool haustið 1946, sjö árum síðar, og aftur skoraði hann í sínum fyrsta leik.

Liverpool hafði náð toppsætinu en í desember og janúar kom slæmur kafli. Sjö af næstu tíu leikjum töpuðust og eftir fjóra tapleiki í röð virtust allir möguleikar á enska meistaratitlinum úr sögunni í lok janúar. En eftir 2:1 sigur á Leeds á Anfield Road 2. febrúar fór loks að ganga betur. Albert Stubbins skoraði bæði mörkin sem komu liðinu aftur á sporið. Nú voru 16 leikir eftir. Í þeim tapaðist aðeins einn leikur, tólf unnust og þrjú jafntefli. Þetta var endasprettur sem eitthvað kvað að.

Að auki var möguleiki á Tvennu. Liverpool mætti Walsall, sem þá var í 3. deild, í þriðju umferðinni á útivelli. Walsall náði tvívegis forystu í leiknum en leikmenn Liverpool sneru þá að lokum niður 5:2. Næst bar félagið sigur úr býtum gegn Grimsby 2:0 með mörkum frá Albert Stubbins og Cyril Done. Í 5. umferð var mótherjinn bikarmeistararnir sjálfir Derby á Anfield Road. Jack Balmer skoraði eina mark leiksins. Í átta liða úrslitum kom Birmingham í heimsókn. Liverpool vann öruggan sigur 4:1 fyrir framan 51.911 áhorfendur. Áhorfendaskarinn varð þarna vitni að einu glæsilegasta marki sem sést hefur á Anfield Road. Þeir sem sáu markið gleyma því að sögn aldrei. Albert Stubbins skoraði þrennu í leiknum og Jack það fjórða en það var eitt marka Albert sem var svo eftirminnilegt. Það var snjóföl yfir vellinum sem marssólin hafði ekki alveg náð að bræða. Völlurinn var háll og leikmenn áttu á köflum erfitt með að fóta sig. Billy Liddell tók aukaspyrnu fyrir markið á fjærstöngina. Albert henti sér fram og skallaði boltann rétt við yfirborð vallarins með fádæma tilþrifum í markið og rann svo á maganum eftir vellinum í snjónum. Áhorfendur höfðu ekki séð önnur eins tilþrif. Albert lýsti markinu síðar: "Fyrirgjöfin kom, föst og rétt yfir vellinum. Ég náði að kasta mér fram og skalla boltann sem fór eins og eldflaug í markið." En eftir leik komu stuðningsmenn Liverpool Albert gersamlega á óvart. "Ég var kominn á hótelið sem ég bjó á. Ég heyrði ókennilegt hljóð að utan og leit út um gluggann. Fyrir utan hótelið hafði hópur stuðningsmanna Liverpool safnast saman og þar stóðu þeir og kyrjuðu nafnið mitt. Þetta var ein stærsta stund lífs míns." Á þessu má sjá að aðdáun á leikmönnum er ekkert nýtt. En framundan var viðureign í undanúrslitunum gegn Burnley, liðinu sem hafði unnið Liverpool 1:0 í úrslitaleik bikarkeppninnar 1914. Reyndar hafði Liverpool ekki komist svona langt í F.A. bikarnum síðan þá. Burnley, sem nú var í 2. deild, kom á óvart. Liðin skildu jöfn í markalausan framlengdan leik á Ewood Park heimavelli Blackburn fyrir framan 53.000 áhorfendur svo annan leik þurfti. Eins og 1914 stöðvaði Burnley aftur sigurgöngu Liverpool í bikarkeppninni 1:0. Aukaleikurinn fór fram á Maine Road heimavelli Manchester City að viðstöddum hvorki fleiri né færri en 72.000 áhorfendum. Vörn Burnley var sérlega sterk og hinir marksæknu sóknarmenn Liverpool gátu ekki með nokkru móti brotið hana á bak aftur í leikjum tveimur.

Eftir þetta áfall gátu leikmenn Liverpool snúið sér óskiptir að 1. deildinni. Þar var staðan ekki of sterk. Þegar sjö leikir voru eftir var Liverpool níu stigum á eftir Wolves. Af leikjum sjö átti Liverpool aðeins tvo á Anfield Road og lokaleikurinn var gegn toppliðinu á útivelli. Nú mátti ekkert fara úrskeiðis ef titillinn átti að nást. Sparkspekingar töldu Liverpool ekki eiga mikla möguleika en leikmenn George Kay létu ekki deigan síga. Kannski komu amerísku stórsteikurnar nú til góða á lokasprettinum.

Lokaspretturinn hófst með 1:0 sigri á Sunderland á Anfield Road. Albert skoraði sigurmarkið. Næst náðist sigur á Villa Park 2:1 gegn Aston Villa. Þá var komið að síðasta heimaleiknum á leiktíðinni. Mótherjanir voru keppinautar Liverpool um titilinn Manchester United. Liverpool hefndi fyrir ófarirnar í fyrri leik liðanna og Albert Stubbins skoraði eina mark leiksins að viðstöddum 50.000 áhorfendum. Stuðningsmenn Liverpool höfðu sótt heimaleikina fádæma vel og meðaltal áhorfenda á deildarleikjunum var rúmlega 46.000 og hafði aldrei verið hærra. Nú voru heimaleikirnir búnir og fjórir útileikir eftir. Allt gekk vel gegn Charlton. Enn var Albert á skotskónum og tryggði 3:0 sigur með þrennu. Næsta leik lauk með 1:1 jafntefli gegn Bradford. Suður Afríkumaðurinn Bob Priday skoraði markið mikilvæga. Hann skoraði svo aftur í næsta leik ásamt Jack Balmer í 2:1 sigri á Arsenal. Spennan var nú gríðarleg og aðeins einn leikur eftir. Sá leikur var við Wolves á Molineux. Bæði lið gátu tryggt sér titilinn í leiknum.

Mestu vetrarhörkur í manna minnum höfðu sett allt skipulag deildakeppninnar úr skorðum að þessu sinni. Leikjum hafði margsinnis verið frestað og nú var sumarið að ganga í garð. Liverpoolliðið hélt til Wolverhampton á síðasta degi maímánaðar. Það var sannkallað sumarveður, sólskin og hiti. Liverpool átti harma að hefna gegn Wolves enda höfðu þeir tapað stórt 5:1 fyrir þeim á Anfield í desember. Það var rafmagnað andrúmsloft á meðal þeirra 55.000 áhorfenda sem troðfylltu Molineux. Liverpool byrjaði af krafti í leiknum. Jack Balmer og Albert Stubbins skoruðu fyrir Liverpool fyrir leikhlé. En Úlfarnir komu grimmir til leiks eftir leikhlé og bitu hressilega frá sér undir stjórn hins fræga fyrirliða síns Stan Cullis. Stan að leika sinn síðasta leik með liðinu og vildi skiljanlega enda ferilinn sem Englandsmeistari. Stórsókn heimamanna bar árangur þegar Jimmy Dunn minnkaði muninn og nú varð allt vitlaust. Úlfarnir héldu uppi látlausri sókn að marki Liverpool til leiksloka. En vörn Liverpool og fyrrum markvörður Wolves Cyril Sidlow stóðu vaktina vel. Cyril varði eins og berserkur og hvað eftir annað bjargaði hann þegar mark virtist óumflýjanlegt. Leikmenn Liverpool fögnuðu vel þegar flautað var til leiksloka enda hafði liðið nú skotist upp í efsta sætið með fimmtíu og sjö stig. Wolves og Manchester United voru stigi á eftir og höfðu lokið leikjum sínum. En það var ekki allt búið enn. Stoke gat náð sama stigafjölda og tryggt sér Englandsmeistaratitilinn á betra markahlutfalli með sigri á útivelli gegn Sheffield United. Það var þó ekki komið að því að úrslitin réðust. Leikur Stoke gat ekki farið fram fyrr en hálfum mánuði síðar eða þann 14. júní. Það var því hálfsmánaðar bið framundan hjá George Kay og mönnum hans og það sem var kannski erfiðast örlögin voru ekki lengur í þeirra höndum.

Sama kvöld og Stoke hélt til leiks á Bramall Lane í Sheffield lék Liverpool við Everton til úrslita á Anfield í bikarkeppni Liverpoolborgar, Liverpool Senior Cup. Leikurinn á Anfield Road hófst fimmtán mínútum seinna en hinn leikurinn. Leikmenn Liverpool voru með hugann við leik Sheffield United og Stoke. Þeir biðu ofvæni eftir úrslitunum þaðan. Einbeitinginn var þó í lagi og sigur vannst á Everton 2:1. Þegar um tuttugu mínútur voru eftir komu fréttir frá Sheffield. Heimamenn höfðu unnið 2:1! Allt ætlaði af göflunum að ganga á meðal fjölmargra áhorfenda á Anfield Road. Albert Stubbins man þetta augnablik vel: "Það braust út mikill fögnuður meðal áhorfenda í síðari hálfleiknum þegar fréttir bárust um að Stoke hefði tapað og við værum orðir Englandsmeistarar. Leikurinn stöðvaðist um stund og leikmenn Everton óskuðu okkur til hamingju með að hafa náð titlinum frá Goodison Park en þar hafði hann verið síðustu átta árin. Þetta var dásamleg stund!" Í leikslok hlupu stuðningsmenn Liverpool inn á völlinn og fögnuðu hetjunum sínum sem höfðu unnið fimmta Englandsmeistaratitil Liverpool og þann fyrsta frá árinu 1923.

Meistaraefni George Kay: Efri röð frá vinstri: Phil Taylor, Eddie Spicer, Laurie Hughes, Cyril Sidlow, Ray Lambert, Bob Paisley og George Kay. Neðri röð: Jimmy Payne, Kevin Baron, Albert Stubbins, Willie Fagan og Billy Liddell.

Það var sannarlega gaman að vera stuðningsmaður Liverpool þetta sumarkvöld. Bæði var enska meistaratitlinum fagnað, sigri á Everton og sigri í bikarkeppni Liverpoolborgar. Reyndar vann Liverpool tvo aðra minni bikara þessa leiktíð. Lancashire Senior bikarinn og Lancashire County bikarinn. Það var því mikið um verðlaunabikara á Anfield Road þetta sumarið. George Kay og menn hans áttu mikið hrós skilið. Liðsandinn var einstakur og margir lögðu hönd á plóginn. Alls komu 26 leikmenn komu við sögu sem var óvanalegt hjá meistaraliði. Önnur óvenjuleg staðreynd var að Liverpool tapaði tíu leikjum. En 25 sigurleikir og sjö jafntefli tryggðu titilinn. Markatalan var góð, liðið skoraði 84 mörk og fékk á sig 52. Sóknarmenn Liverpool höfðu verið iðnir við kolann. Albert Stubbins og Jack Balmer skoruðu 24 mörk hvor og báðir bættu fjórum mörkum við í bikarkeppninni. Cyril Done skoraði tíu mörk í aðeins sautján leikjum. Sóknarmennirnir fengu úr miklu að moða því kantmennirnir Billy Liddell og Berry Niewenhuys léku mjög vel og mokuðu góðum fyrirgjöfum fyrir markið. Titillinn hefur verið Suður Afríkumanninum Berry kærkominn. Hann hafði leikið með Liverpool frá árinu 1933 og barist í gegnum erfiðleika liðsins á þeim áratug. Hann lagði nú skóna ánægður á hilluna 36 ára eftir 260 leiki og 79 mörk. Berry skoraði fimm mörk á leiktíðinni og Billy sjö. Billy Liddell, sem lék frábærlega á leiktíðinni, hlaut ef til vill mestu viðurkenningu leikmanna Liverpool þegar hann var valinn í úrvalslið Stóra Bretlands sem lagði úrvalslið Evrópu 6:1. Billy minntist leiktíðarinnar seinna svona: "Liðið vann mikið afrek því enginn reiknaði með sigri okkar í deildinni. Sigur okkar var óvæntur. Þetta var frábær leiktíð frá upphafi til enda." Albert Stubbins var ekki síður ánægður: "Þetta var eins og í myndasögu. Allt var svo ótrúlegt. Við vorum besta liðið í landinu og verðskulduðum þann titil. Liverpool hefur átt mörg frábær lið síðan en ég held að þetta lið standist fyllilega samanburð við þau." Bob Paisley sem lék frábærlega í vörninni á síðustu orðin um þessa eftirminnilegu leiktíð: "Við kenndum öðrum liðum þann vísdóm sem Liverpool hefur lengi haft í heiðri. Þú átt aldrei að gefast upp fyrr en þú veist að þú getur ekki meir."

TIL BAKA