Saga Liverpool FC

1934 - 1940

Liverpool tók sig á og lauk næstu leiktíð í sjöunda sæti. Gordon skoraði 27 mörk og félagi hans í sókninni, Vi1c Wright, skilaði 19 mörkum. En næsta tímabil á eftir, 1935/36, var falldraugurinn yfirvofandi og liðið rétt slapp við fall í nítjánda sæti. Þó setti Liverpool met á leiktíðinni. Enn kom Everton við sögu. Þann 7. september komu þeir bláklæddu í heimsókn á Anfield Road. Liverpool náði sannkölluðum stórleik og hafði 4:0 yfir í hálfleik. Á síðustu fjórum mínútum leiksins bætti Fred Howe við tveimur mörkum og stórsigur 6:0 var staðreynd. Howe skoraði alls fjórum sinnum og meistarinn Gordon Hodgson skoraði hin tvö mörkin. Stuðningsmenn Liverpool fóru kátir heim þennan daginn. Sætur sigur og sá stærsti sem Liverpool hefur unnið á Everton í sögunni.

Skoski bakvörðurinn Matt Busby lék sinn fyrsta leik fyrir Liverpool á útmánuðum. Hann kom frá Manchester City fyrir átta þúsund sterlingspund í febrúar 1936. Hann varð síðar fyrirliði liðsins en seinni heimsstyrjöldin setti strik í feril hans á Anfield eins og margra annara. Hann lék 125 leiki með Liverpool og skoraði þrjú mörk í þeim. Með þrjá skoska landsliðsmenn saman í liðinu, þá Matt, Tom Bradshaw og Jimmy McDougall, hefur skoski framburðurinn verið áberandi á Anfield Road. Matt kunni mjög vel við sig hjá Liverpool og í borginni. Hann sagði síðar að hjá Liverpool hefði hann lært að meta gleðina af að leika knattspyrnu upp á nýtt. Matt var mikils metinn hjá félaginu og honum stóð til boða þjálfarastaða á Anfield að loknu stríðinu. Matt hugsaði sig vel og vandlega um en ákvað að lokum að taka frekar boði Manchester United um framkvæmdastjórastöðu. Þar á bæ var ástandið ekki gott en Matt vildi reyna sig við að rífa félagið upp. Það er um að gera að minna aðdáendur Manchester United á að það var fyrrverandi leikmaður Liverpool sem byggði upp stórveldi þeirra. Það má velta því fyrir sér hvort saga Liverpool og Manchester United væri sú sama og raun varð á ef Matt hefði tekið boði Liverpool um þjálfun hjá félaginu. Alla tíð hefur Sir Matt Busby verið minnst með mikilli virðingu í Liverpool. Því til sönnunar má geta að árið 1966 stóð stuðningsmannablað Liverpool sem hét The Kop fyrir vali á besta liði Liverpool frá upphafi. Það var einnig spurt um besta fyrirliða Liverpool. Sá sem fékk flest atkvæði í þeirri kosningu var Matt Busby.

Hinn 18 ára Phil Taylor lék einnig sinn fyrsta leik en hann átti eftir að koma mikið við sögu á Anfield Road eftir stríð. Hann byrjaði reyndar á því að skora jöfnunarmark Liverpool í 2:2 jafntefli gegn Derby í sínum fyrsta leik í mars 1936. Eins fékk framherjinn Jack Balmer eldskírn sína á þessu slaka tímabili í sögu félagsins og skoraði átta mörk.

 

Höfðinginn aldni John McKenna lést í mars 1936. Hann var 81 árs að aldri. Við jarðarför hans, líkt og útför John Houlding vinar hans og stofnanda Liverpool, báru leikmenn Liverpool og Everton kistuna. John, sem hafði viðurnefnið Hinn heiðarlegi, hafði starfað í fjörutíu ár hjá Liverpool þar af var hann þrjátíu ár í stjórn félagsins. Hann hafði að auki verið árum saman í stjórn enska knattspyrnusambandsins. Fáum mönnum hefur Liverpool átt meira að þakka. Þá um vorið settist George Patterson í helgan stein af heilsufarsástæðum en hélt reyndar áfram að vera ritari félagsins. Nafni hans George Kay stjóri Southampton tók við. George var yfirvegaður, hugsandi og flanaði ekki að neinu. Hann tók við erfiðu búi. Liðið hafði rétt sloppið við fall, og að auki var markahæsti maður Liverpool síðustu sex tímabil, Gordon Hodgson, farinn á braut. Fyrsta leiktíð George við stjórn 1936/37 var litlu betri og liðið færðist aðeins upp um eitt sæti. Í F.A. bikarnum féll liðið úr fyrir annarar deildar liði Norwich 3:0 og ljóst mátti vera að mikið verk var óunnið við að koma Liverpool í fremstu röð. Ekki bætti úr að meðaltal áhorfenda á Anfield Road var aðeins rúmlega 24.000 og hafði ekki verið lægra frá því fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Reyndar var erfitt gengi Liverpool ekki eina skýringin á lítilli aðsókn. Margt fólk í Liverpool hafði, á þessum áratug, litla peninga handa á milli vegna kreppunnar. Fred Howe var pípulagningamaður eins og Alf Hanson, hafði tekið við merki Gordon Hodgson og var markahæstur bæði árin 1937 og 1938. Það hefur líklega ekki þurft að kaupa vinnu pípulagningamanna á Anfield Road þegar þeir Fred og Alf voru hjá félaginu. Næstu tvær leiktíðir þokaðist heldur í rétta átt og liðið endaði um miðja deild.

Blikur voru á lofti í heimsmálum og margir töldu styrjöld í uppsiglingu. Haustið 1938 fór Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta til Þýskalands til friðarviðræðna. Hann sneri aftur með friðarsamning upp á vasann. Bretar kættust og vonuðust eftir friði. Í október, stuttu eftir Þýskalandsför forsætisráðherra, léku Liverpool og Everton saman á Goodison Park fyrir framan 65.000 áhorfendur. Neville var þá nýkominn frá Þýskalandi og honum til heiðurs sungu áhorfendur breska þjóðsönginn fyrir leikinn. Everton vann leikinn 2:1 og meistaratitilinn um vorið. Leiktíðin 1939/40 hófst á hefðbundnum tíma en eftir aðeins þrjár umferðir var henni aflýst. Þann 1. september réðust Þjóðverjar inn í Pólland og Bretland lýsti stríði á hendur Þjóðverjum. Síðari heimsstyrjöldin, mesti hildarleikur sögunnar, var hafinn. Ótti manna um styrjöld hafði því miður ekki verið ástæðulaus. Tveir ungir og efnilegir leikmenn Bob Paisley og Billy Liddell, sem síðar áttu heldur betur eftir að setja mark sitt á sögu Liverpool, höfðu hlakkað til að fara að leika með liðinu þetta haust. Þeir eins og aðrir þurftu að sinna öðrum og hættulegri skyldum næstu sex árin.

TIL BAKA