Saga Liverpool FC

1914 - 1923

Fjórum mánuðum eftir bikarleikinn skall fyrri heimsstyrjöldin á og eftir að tímabilinu 1914-15 lauk lá deildarkeppnin niðri á meðan styrjöld geysaði. Framkvæmdastjóri Liverpool til 19 ára Tom Watson andaðist í maí 1915, skömmu áður en deildin lagðist í dvala. Hann var enn í starfi sem stjóri Liverpool þegar hann lést og var öllum hjá félaginu mikill harmdauði. Alex Raisbeck og fleiri fyrrverandi og þáverandi leikmenn Liverpool báru kistu hans við útförina. Tom hafði skilað félaginu tveimur meistaratitlum í 1. deild og einum í 2. deild. Að auki hafði Tom gert Sunderland þrisvar að enskum meisturum þannig að hann átti fimm meistaratitla að baki. Það má því ljóst vera að Tom var magnaður stjóri. Þegar deildarkeppnin hófst að nýju leiktíðina 1919-20 var Liverpool enn án framkvæmdastjóra. George Patterson hafði þó séð um málefni liðsins frá því Tom féll frá. Liverpool lenti í 4. sæti. Í desember 1920 tók David Ashworth við liðinu. Liðið hafnaði aftur í 4. sæti og endaði átta stigum eftir meisturum Burnley. Næsta tímabil var liðið hins vegar sigursælt. Dick Forshaw og þá sérstaklega Harry "Smiler" Chambers, sem svo var kallaður vegna þess að hann var ætíð skælbrosandi, höfðu næga ástæðu til að brosa gleitt því að þeir röðuðu inn mörkunum. En liðið byggðist helst á sterkri vörn með Elisha Scott í markinu og bakverðina Longworth og McKinlay.

Elisha gekk til liðs við Liverpool árið 1912. Bróðir Elisha, Billy að nafni, lék með Everton og það var hann sem benti forráðamönnum Liverpool á hann. Þeir bræður Billy og Elisha komu frá Belfast og voru báðir landsliðsmenn. Elisha var aðeins tæplega 176 sentimetrar á hæð en var fimur og afbragðs markvörður. Elisha lék sinn fyrsta leik með Liverpool á nýársdag 1913 og hélt hreinu í markalausu jafntefli á útivelli gegn Newcastle. Strax eftir leik spurðust forráðamenn Newcastle fyrir um það hvort ekki væri hægt að fá strákinn því þeir vissu að það var landsliðsmaður fyrir í markinu hjá Liverpool. En Watson stjóri Liverpool tók það ekki í mál enda vissi hann að Írinn var magnað efni. Þetta var eini leikur hans þá leiktíð enda Kenny Campbell magnaður í markinu. En sá írski tók við Kenny eftir heimsstyrjöldina. Bakvarðarparið Ephraim Longworth, sem varð fyrsti leikmaður Liverpool til að bera fyrirliðaband enska landsliðsins og Skotinn Don McKinlay, komu til Liverpool árið 1910 með fimm mánaða millibili og léku samtals rúmlega 800 leiki hjá Liverpool. Don var fljótur, leikinn og var aukaspyrnusérfræðingur liðsins. Hann hafði leikið í öllum hugsanlegum stöðum í liðinu en skapaði sér aðallega nafn sem vinstri bakvörður. Hann skoraði alls 34 mörk í 433 leikjum sem var ekki slæmur árangur fyrir varnarmann og eftirminnilegasta mark hans kom vafalaust úr þrumuskoti sem hann lét ríða af 10 metrum innan síns eigin vallarhelmings gegn West Ham í janúar 1926. Longworth lék alls 370 leiki en skotskórnir voru ekki reimaðir vel á hann þannig að minnti á skothæfni Rob Jones nokkrum áratugum síðar. Hann afrekaði það rétt eins og Jones að skora ekki eitt einasta mark fyrir félagið. Don og Ephraim voru 18 ár á Anfield og höfðu báðir leitt liðið sem fyrirliðar.

Liverpool byrjaði tímabilið 1921-22 illa með 3-0 tapi gegn Sunderland en tapaði svo einungis einum leik fram í miðjan mars en þá virtist titillinn ætla að ganga úr greipum þeirra. Eins og á meistaraárinu 1901 þurfti Liverpool að leika lokaleikinn gegn WBA á útivelli og vinna til að innbyrða meistaratignina. Liverpool byrjaði af miklum krafti og hafði 4:1 forystu í hálfleik. Þannig lauk leiknum og titillinn var í höfn. Stuðningurinn við Liverpool var sem fyrr magnaður og meðaltal á Anfield var rúmlega 37.000 á deildarleikjum liðsins. Þann 10. maí vorið 1922 lék Liverpool sem enskir meistarar í fyrsta skipti en ekki það síðasta um Góðgerðaskjöldinn. Leikið var gegn Huddersfield Town á Old Trafford fyrir framan 20.000 áhorfendur en leikurinn tapaðist 1:0.

Á næstu leiktíð hélt Liverpool uppteknum hætti. Sérstaklega skemmtu aðdáendur liðsins sér í október. Metáhorfendafjöldi á Anfield Road 54.368 sá Liverpool leika gegn Everton. Þeir Bláu voru 1:0 yfir í hálfleik. En í þeim seinni skoraði Chambers þrennu og þeir McNab og Bromilow gulltryggðu stórsigur. Viku síðar komu 52.000 áhorfendur á Goodison Park og þeir sáu Dick Johnson tryggja þeim Rauðu sigur með eina marki leiksins. En þá gerðist nokkuð sem varla á sér hliðstæðu í knattspyrnusögunni. Í febrúar 1923 þegar Liverpool stefndi hraðbyri að titli annað árið í röð tók David Ashworth framkvæmdastjóri þá undarlegu ákvörðun að snúa aftur til gamla félags síns Oldham sem var á botni deildarinnar. Það kunni enginn viðhlítandi skýringu á þessu athæfi og enn í dag er þetta öllum hulin ráðgáta. George Patterson ritari Liverpool tók tímabundið við af Ashworth en sýnt var að ráða þyrfti nýjan framkvæmdastjóra sem fyrst til þess að stýra liðinu til meistaratitils. Matt McQueen hafði fengist við nánast allt sem nöfnum tjáir að nefna hjá Liverpool og var einn af Skotunum sem léku með Liverpool í upphafi sögu félagsins. Hugh bróðir hans kom með honum frá Skotlandi 1892 og lék líka um tíma hjá Liverpool. Matt hafði á sínum tíma leikið allar stöður í liðinu. Já, það er ótrúlegt en satt en hann lék líka alls 49 leiki í stöðu markvarðar! Í metaannálum er hann talinn eini leikmaðurinn í heiminum sem hefur leikið allar stöður á vellinum með liði í atvinnumannadeildum. Hann var formaður Liverpool árin 1917 og 1918 og hafði einnig verið ritari félagsins og ekki ólíklegt að hann hefði einnig þvegið skyrturnar og slegið grasið. Matt hafði líka verið fyrirliði liðsins um hríð en nú var stóra stundin runnin upp. Hann var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Hann náði fyrsta takmarki sínu á vordögum 1923 er Liverpool lyfti meistaratitlinum. Liverpool vann einungis einn af síðustu sjö leikjum sínum en vann samt deildarkeppnina með sex stiga forskoti. Ashworth sem yfirgefið hafði Liverpool þurfti á meðan að horfa upp á fall Oldham undir stjórn hans. Liverpool hlaut 60 stig í deildinni sem var metjöfnun og Elisha setti met þegar hann fékk aðeins á sig 23 mörk. Á þessum tveimur meistaraleiktíðum þurfti hann aðeins 63 sinnum að sækja boltann í markið og sem dæmi má nefna að hann hélt marki sínu hreinu í átta leikjum frá 30. desember 1922 til 3. mars 1923. Blaðamenn þurftu sannarlega að magna upp lýsingarorðin til að geta gert meistaranum skil. Einn lýsti honum svo: "Elisha hefur arnaraugu, hann er snöggur sem pardusdýr þegar hann skutlar sér á eftir boltanum og boltinn er sem í skrúfstykki þegar hann hefur komið höndum á hann!" Svo mörg voru þau orð.

Mikill stöðugleiki einkenndi liðið á þessum tveimur leiktíðum og leik eftir leik skipuðu sömu leikmennirnir liðið. Harry Chambers var markahæstur leikmanna Liverpool í deildinni báðar leiktíðirnar. Leiktíðina 1921-22 skoraði hann 15 mörk og 1922-23 skoraði hann 22 mörk. Alls lék hann 310 leiki og skoraði 135 mörk og varð fimm sinnum markakóngur liðsins í deildinni. Félagi Harry í sókninni, Dick Forshaw var líka fengsæll og skoraði 17 mörk fyrri meistaraleiktíðina og 19 þá seinni. Hann lék allt í allt 287 leiki og skoraði 124 mörk. Meðal annara lykilmanna voru enski landsliðsbakvörðurinn Tommy Lucas og Ted Parry sem var landsliðsbakvörður Walesverja. Með þá tvo, Longworth og McKinlay átti Liverpool um tíma fjóra landsliðsmenn í vörninni. Liverpoolbúinn Tommy Bromilow var líka enskur landsliðsmaður. Á meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir gerði hann sér ferð til Anfield. Hann var í einkennisbúningi hersins og því allvígalegur þegar hann bankaði upp á hjá George Patterson og spurði hvort Liverpool vantaði ekki leikmann. Patterson þorði ekki annað en að játa því!

Liverpool hafði varið enska meistaratitilinn og unnið hann í fjórða skipti. Liverpool var því komið í hóp sigursælustu liða Englands. Aðeins Aston Villa með sex meistaratitla og Sunderland með fimm höfðu unnið enska meistaratitilinn oftar en Liverpool þegar hér var komið við sögu. Everton átti til dæmis aðeins tvo meistaratitla! Liðið var sannarlega vel skipað og með þetta magnaða lið áttu stuðningsmenn Liverpool allt eins von á fleiri titlum á næstu sparktíðum.

TIL BAKA