Saga Liverpool FC

1895 - 1901

Liverpool skipti yfir í rauða litinn, sem var einkennislitur Liverpoolborgar, árið 1896 og lék nú í rauðri treyju og hvítum buxum. Þó ber ekki öllum heimildum saman um hvaða ár rauði liturinn var tekinn upp. Liverfuglinn "Liverbird", sem hefur lengi verið merki borgarinnar, birtist ekki fyrr en árið 1901 í merki félagsins. Styrkleikamunurinn á deildunum var mikill og fór ekki betur en svo að félagið hrapaði í 2. deild á ný vorið 1895. En liðið fór beinustu leið upp aftur. Liðið fór á kostum í 2. deildinni leiktíðina 1895-96 og setti fjölmörg met í markaskorun og sum þeirra standa enn. Liðsmenn gengu berserksgang við mörk andstæðinga sinna og alls skoraði liðið 106 mörk í aðeins 30 leikjum. Þetta er enn met yfir skoruð deildarmörk á einni leiktíð hjá félaginu. Tíu sinnum skoraði liðið fimm mörk eða fleiri í leik. Á þessari leiktíð vann Liverpool sinn stærsta sigur í deildarleik þegar liðið lagði Rotherham 10:1 á Anfield þann 18. febrúar 1896. Allen 4, McVean 3, Ross 2 og Becton skoruðu mörkin. John McKenna vildi minnka afskipti sín af liðinu og gerðist ráðsettur stjórnarformaður. Fyrir leiktíðina 1896-97 réði hann Skotann Tom Watson til félagsins. Tom hafði getið sér góðs orðspors sem framkvæmdastjóri Sunderland sem vann enska meistaratitilinn árin 1892, 1893 og 1895. McKenna bauð honum dágóða launahækkun og mikilvægt skref í átt að meistaratitli var stigið. Liverpool lét fljótt að sér kveða í stórkeppnum og á fyrstu leiktíð Tom hjá félaginu komst liðið í undanúrslit F.A. bikarsins. Leikið var gegn stórliði Aston Villa á Bramall Lane í Sheffield en tapaði 3:0. Leikmenn Liverpool höfðu greinilega lært sína lexíu og eftir þokkalegt tímabil í 1. deild, lauk Liverpool tímabilinu 1898-1899 í öðru sæti og komst í undanúrslit F.A. bikarsins að nýju. Sannkölluð maraþonviðureign var fyrir höndum við Sheffield United. Fyrst léku liðin í Nottingham og gerðu 2:2 jafntefli. Næst var haldið á Burnden Park í Bolton og aftur skildu liðin jöfn 4:4. Þriðji leikurinn fór fram á Fellowfield í Manchester. Mikill áhugi var á leiknum og 30.000 áhorfendur tróðu sér inn á leikvanginn. Liverpool leiddi 1:0 en því miður varð að flauta leikinn af. Ástæðan var sú að áhorfendur fóru hvað eftir annað inn á völlinn vegna þess að áhorfendastæðin rúmuðu ekki mannfjöldann. Fjórði leikurinn varð því staðreynd og fór hann fram í Derby. Í þeim leik hafði Sheffield betur 1:0. Áttatíu og einu ári síðar lék Liverpool aftur fjóra leiki í undanúrslitum F.A. bikarsins þá gegn Arsenal. Líkt og 1899 töpuðu þeir fjórða leiknum 1:0.

Fyrstu meistarar Liverpool AFC 1900-1901. Aftasta röð (frá vinstri): Ottey, Goliver, McGuigan, Foster, S. Hunter, J. Hunter, Howell. Miðröð (einungis leikmenn): Soulsby, Wilson, Raybould, J. Robertson, Perkins, W. Goldie. Fremsta röð: Walker, Dunlop, Raisbeck, Cox, T. Robertson.

Liðið var á uppleið og ofar var ekki komist í bili þegar fyrsti meistaratitill Liverpool leit dagsins ljós árið 1901. Liverpool var fimm stigum á eftir Sunderland sem var í efsta sæti [hafa ber í huga að tvö stig voru gefin fyrir sigur] er nálgaðist lok tímabils en fjórir sigrar í síðustu fimm leikjunum tryggði liðinu titilinn. Sigurinn var gulltryggður í síðasta leik á útivelli gegn W.B.A þegar John Walker skoraði eina mark leiksins. Daily Express óskaði Liverpool til hamingju: "Liðið frá Lancashire hefur komist á toppinn þrátt fyrir misjafna byrjun á tímabilinu. En form þeirra að undanförnu hefur leitt til mikillar velgengni og Herra Tom Watson og lið hans eiga hrós skilið fyrir að vinna til æðstu verðlauna deildarinnar. Þeir héldu heim á leið samdægurs og þetta var eftirminnilegur dagur fyrir leikmennina og þann mikla mannfjölda sem beið þeirra á aðalbrautarstöðinni." Sam Raybould var markakóngur liðsins á leiktíðinni með 16 mörk í deildinni en besta árangri náði hann leiktíðina 1902-03 þegar hann skoraði 31 deildarmark í 33 leikjum. Þetta var met hjá Liverpool og stóð til leiktíðarinnar 1930-31 þegar Gordon Hodgson skoraði 36 deildarmörk. Raybould lék alls 224 leiki og skoraði 127 mörk á ferli sínum hjá Liverpool. Liverpool bætti líka Liverpool Senior bikarnum í safnið sem var keppni milli liða í Liverpool og nærsveitum. Sá bikar skipti miklu á þessum árum því Everton var jú meðal liða sem þátt tóku í keppninni. Liverpool vann þessa keppni þrjú ár í röð 1901, 1902 og 1903. Stuðningur áhorfenda var góður og meðaltal á heimaleikjum var rúmlega 15.000 áhorfendur. John Houlding var stoltur af liði sínu og taldi það ekki slæman árangur að byggja lið frá grunni sem verður svo meistari aðeins níu ára gamalt. John Houlding lést tæpu ári síðar en sonur hans John Houlding yngri hafði þegar tekið við formennskunni.

Fyrsta stórstjarna Liverpool var Skotinn Alex Raisbeck sem fór fyrir vörn Liverpool af miklum myndugleik og var einnig fyrirliði liðsins. McKenna hafði komið auga á hann er hann lék með Stoke City og ráðlagði Watson framkvæmdastjóra að kaupa þennan kappa og greiddi Liverpool 350 pund fyrir hann árið 1898. Raisbeck var álitinn besti varnarmaður sinnar kynslóðar og íþróttafréttamenn staðarblaðsins Liverpool Echo voru engu síður aðdáendur Skotans snjalla: "Maður sem ber sig af eins miklum glæsileik og Raisbeck myndi vekja athygli hvar sem er. Hann er myndarmaður og er tignarlegur á velli prýddur ljósum hármakka sem slær á rjóðar kinnar hans." Raisbeck var harður í horn að taka og þrátt fyrir að hann væri einungis 176 sentimetrar þá var hann sterkur í loftinu einnig. Samtíðarmaður hans lýsti honum sem "vélmenni gætt þvílíkri greind og bókstaflega iðar af lífsgleði." Enn ein lýsingin á kappanum hljóðaði upp á samlíkingu við gríska glæsimennið og herkonunginn Alexander mikla. Liverpool var ákveðið að halda fast í gullmolann sinn og bætti ofan á 4 punda vikulaun hans með því að ráða hann til þess að hafa umsjón með því að auglýsingaspjöld fyrir leiki Liverpool væru sett upp víðsvegar um héraðið samkvæmt tilskildum reglum. Hann reyndist þó aldrei þurfa að sinna þessu starfi þar sem þetta var einungis ein leið sem tíðkaðist á þessum tíma hjá félögunum til að veita leikmönnum sínum aukaskilding en launaþak var á launum leikmanna í Englandi. 

TIL BAKA