Saga Liverpool FC

1947 - 1950

Það var ekki amalegt að vera stuðningsmaður Liverpool sumarið 1947. Liverpool var enskur meistari og hafði náð titlinum frá erkióvinum sínum. Everton var enskur meistari síðustu leiktíðina fyrir stríð 1938/39 þannig að enski meistarabikarinn hafði verið varðveittur í Liverpoolborg í átta ár. Hefur bikarinn aldrei dvalið lengur í sömu borginni. Nokkrir leikmenn Liverpool höfðu hlotið val í landslið sín í verðlaun fyrir vaska framgöngu. Billy Liddell lék sinn fyrsta opinbera landsleik fyrir Skota árið 1946. Hann hafði áður leikið nokkra óopinbera landsleiki á stríðsárunum. Markvörðurinn Cyril Sidlow og bakvörðurinn Ray Lambert léku með landsliði Veils á þessum árum. Cyril lék alls sjö leiki og Ray fimm. Phil Taylor komst í enska landsliðið árið 1947 og lék þrjá landsleiki það ár.

En Liverpool tókst ekki að verja Englandsmeistaratitilinn keppnistímabilið 1947/48. Rúmlega 49.000 áhorfendur mættu til að sjá meistarana í sínum fyrsta heimaleik. Meistararnir byrjuðu vel og unnu Preston 3:1. Þeir félagar Billy Liddell og Albert Stubbins sem skoraði tvívegis héldu áfram þar sem frá var horfið við markaskorun. Í fyrstu tuttugu leikjum unnust aðeins sex sigrar. Liðið var óstöðugt og lék langt því frá eins vel og á meistaraleiktíðinni. Sparkspekingar höfðu þá kenningu að of margir leikmenn meistaraliðsins hefðu náð sínu besta og farið væri að halla undan fæti hjá þeim. Liverpool vann þó tvöfaldan sigur á Everton og var það eitt nokkuð gleðiefni því það hafði ekki gerst áður í sögunni. Í september vann Liverpool 3:0 á Goodison Park. Jack Balmer, Albert Stubbins og Willie Fagan skoruðu. Í apríl mættust liðin á Anfield fyrir framan 55.000 áhorfendur. Þeir Albert og Jack gerðu leikmönnum Everton aftur erfitt fyrir og skoruðu. Hin mörkin skoruðu Billy Liddell og Ken Brierley. Líkt og vorið á undan náði Liverpool frábærum endaspretti. Liðið lék ellefu síðustu leikina taplausa og náði 18 stigum af þeim 22 sem voru í boði. Þessi frábæri endasprettur kom þó liðinu aðeins í ellefta sæti deildarinnar með 42 stig. Arsenal varð enskur meistari. Albert Stubbins var iðinn við markaskorun og skoraði 24 mörk. Liverpool komst í 4. umferð bikarkeppninnar. Í 3. umferð lagði liðið 2. deildarlið Nottingham Forest 4:1 á Anfield. Albert Stubbins skoraði tvisvar og þeir Bob Pridy og Billy Liddell sáu um hin mörkin. Í 4. umferð fékk Liverpool útileik gegn Manchester United. Þrátt fyrir að leikurinn væri útileikur fór hann fram í Liverpool. Leikið var á Goodison Park, fyrir framan 74.721 áhorfanda, því Old Trafford var enn í lamasessi eftir sprengjuárásir þýska flughersins í stríðinu. Liðið lék venjulega á heimavelli nágranna sinna í City. En þeir áttu heimaleik í þessari umferð þannig að menn Matt Busby léku heimaleikinn í Liverpool. Manchester United gerði út um leikinn á sex mínútum í fyrri hálfleik þegar liðið skoraði þrjú mörk. Matt leiddi Manchester United til síns fyrsta titils undir sinni stjórn um vorið þegar liðið vann F.A. bikarinn.

Vonbrigði voru með útkomuna á leiktíðinni og sumarið 1948 ákváðu forráðamenn Liverpool að halda til Bandaríkjanna og Kanada líkt og fyrir meistaraleiktíðina 1946/47. Reyndar var farið loftleiðis í þetta skiptið. Ferðin tókst vel og leikmenn komu sólbrúnir og ákveðnir til leiks. Samt fór undirbúningur fyrir leiktíðina nokkuð úr skorðum vegna deilu Albert Stubbins við Liverpool. Albert var norðanmaður og þó honum líkaði vel í Liverpool langaði hann og konu hans til að flytja norður í heimahagana. Þar hafði hann hug á að stofna fyrirtæki og koma sér vel fyrir. Kröfur Albert voru á þann veg að hann vildi fá að flytja til Newcastle og fá að æfa með sínu gamla félagi þar en koma til Liverpool á föstudögum fyrir leiki. Forráðamenn Liverpool neituðu honum um þetta og sögðu þá reglu gilda hjá félaginu að allir leikmenn Liverpool byggju á Merseysidesvæðinu og æfðu þar saman. Má líkja afstöðu hans við afstöðu Stan Collymore hálfri öld síðar sem vildi ekki búa í Liverpoolborg. Leiktíðin hófst því þannig að Albert var í nokkurs konar sjálfskipuðu verkfalli. Það var komið fram í október þegar deilan leystist. Það skorti aldrei á vilja beggja að leysa deiluna. Albert líkaði vel í Liverpool og eins vildu forráðamenn Liverpool ólmir fá markakóng sinn til leiks á nýjan leik. Deilunni fylgdu því ekki illindi og sem betur fer leystist hún í góðu. Þann 11. október mætti Albert til leiks með varaliði Liverpool til að koma sér í leikæfingu. Hvorki fleiri né færri en 20.000 áhorfendur mættu til að sjá Albert að nýju í Liverpoolpeysunni. Líklega hafa sjaldan ef nokkurn tíma verið fleiri á varaliðsleik Liverpool. Í fyrsta leik Albert með aðalliðinu, gegn Middlesbrough, tróðu rúmlega 57.500 áhorfendur sér inn á Anfield Road. Liverpool fór á kostum og vann 4:0. Auðvitað skoraði Albert eitt markanna. Ekki var áhuginn minni í næsta leik þegar Liverpool fór til Newcastle og lék við gamla liðið hans Albert. Heimamenn unnu 1:0 fyrir framan 60.000 áhorfendur. En Albert lenti fljótlega í meiðslum og missti allmarga leiki úr. Hann lék aðeins fimmtán leiki og skoraði sex mörk í þeim.

Merkisviðburður var í september á Goodison Park þegar nágrannaliðin gerðu jafntefli 1:1. Leikurinn sem slíkur var ef til vill ekki svo sögulegur en 78.299 áhorfendur keyptu sig inn til að horfa á leikinn. Þetta stendur enn sem aðsóknarmet á Goodison. Líkt og leiktíðina á undan byrjaði Liverpool illa. Í fyrstu tuttugu og sex leikjunum vann Liverpool aðeins sex sigra. Markaþurrð fór illa með liðið og í fimmtán leikjum af 42 náðu liðsmenn ekki að skora. Jack Balmer lék alla leikina í deildinni og varð markakóngur liðsins með 14 mörk. Cyril Done sem lítið lék á leiktíðinni á undan stóð sig líka vel og skoraði ellefu mörk. Niðurstaðan varð 40 stig og tólfta sætið í deildinni. Meistaratitillinn fór suður til Portsmouth. Aðra leiktíðina í röð drógst Liverpool gegn Nottingham Forest í 3. umferð bikarsins. 2:2 jafntefli varð í fyrri leiknum. Willie Fagan og Bob Paisley jöfnuðu leikinn undir lokin. Það var mikill áhugi fyrir aukaleiknum og 52.218 áhorfendur borguðu sig inn á Anfield Road. Völlurinn var á floti en Liverpool lenti ekki í neinum vandræðum og vann 4:0. Jack skoraði tvívegis og þeir Jimmy Payne og Albert sáu um hin tvö mörkin. Í 4. umferð drógst Liverpool gegn nágrönnum Forest, Notts County. Ekki minnkaði áhuginn og það komu miklir peningar í kassann hjá Liverpool þegar 61.033 áhorfendur mættu á Anfield Road. Þetta var næstmesti áhorfendafjöldi á Anfield í sögunni. Sólin skein glatt og Billy Liddell skoraði eina markið eftir óbeina aukaspyrnu inni í vítateig. Cyril Done renndi boltanum til Billy og Skotinn hamraði boltann í markið. Í 5. umferð tapaði Liverpool 3:1 á útivelli fyrir Úlfunum og bikardraumurinn var úti í þetta skiptið. Albert skoraði eina mark Liverpool í leiknum. Eins og leiktíðina áður vann liðið sem sló Liverpool út bikarinn um vorið.

Næsta leiktíð byrjaði með eindæmum vel. Rétt tæplega 50.000 áhorfendur mættu á Anfield Road á fyrsta leik leiktíðarinnar. Liverpool lagði Sunderland 4:2 með mörkum frá Bob Paisley, Jack Balmer, Kevin Baron og Albert Stubbins. Í kjölfarið fylgdu átján leikir án taps. Það var engu líkara en Liverpool hefði gleymt hvernig leikir töpuðust. Liðið tapaði ekki fyrr en 10. desember þegar Huddersfield vann 3:2 á Leeds Road. Nítján leikir án taps var félagsmet hvað varðaði tapleysi frá upphafi leiktíðar. Billy Liddell taldi sig vita leyndarmálið að baki þessari frábæru byrjun. "Leyndarmálið á bak við velgengnina var hinn dásamlegi liðsandi. Allir voru sem einn maður bæði leikmenn og þjálfarar liðsins. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, upplifað svona góðan liðsanda. Ekki einu sinni leiktíðina sem við vorum meistarar." Liðið hélt sínu striki og um áramót var efsta sætið þeirra. En í lok febrúar og svo í mars fór allt að ganga verr. Á þeim tíma töpuðust fjórir leikir af fimm. Reyndar virtist sem góð framganga liðsins í F.A. bikarnum setti liðið út af laginu í deildinni. Liverpool var þekkt fyrir góðan endasprett á þessum árum en nú brást hann. Liverpool átti lengi vel möguleika á titlinum. Sá möguleiki hvarf undir lok leiktíðar þegar liðið lék fimm síðustu leikina án þess að vinna sigur. Niðurstaðan varð áttunda sætið. Liverpool hlaut 48 stig. Portsmouth varði titilinn og vann hann á markamun. Úlfarnir fengu jafn mörg stig eða 53. Liverpool var því ekki langt að baki. Billy Liddell var markakóngur Liverpool í deildinni með átján mörk. Þetta var í fyrsta skipti sem hann var markakóngur liðsins en ekki það síðasta.

Það var sem sagt F.A. bikarinn sem átti hug leikmanna Liverpool eftir áramótin. Í 3. umferð mætti Liverpool Blackburn Rovers sem lék í annari deild. Leikið var á Ewood Park. Mikill fjöldi stuðningsmanna Liverpool hélt til Blackburn og alls voru 52.000 áhorfendur á leiknum. Mannfjöldinn sá þó ekkert mark og liðin mættust í aukaleik á Anfield. Þótti Liverpool hafa sloppið vel að falla ekki út. Aftur mættu 52.000 áhorfendur og nú komu mörk. Jimmy Payne og Willie Fagan tryggðu Liverpool 2:1 sigur eftir að gestirnir komust yfir. Jimmy var fljótur og flinkur hægri útherji borinn og barnfæddur í Liverpool. Hann var nefndur "Matthews Merseyside" í samlíkingu við snillinginn Stanley Matthews. Töldu sumir sparkspekingar að hann myndi verða betri en meistarinn. Það varð þó ekki en Jimmy komst í enska B landsliðið. Í 4. umferð var talið að Liverpool hafi fengið auðveldan mótherja. Liðið drógst á heimavöll gegn Exeter City sem lék í 3. deild. Það mættu rúmlega 45.000 á leikinn þrátt fyrir að mótherjinn væri úr 3. deild. Reyndar var ekkert nýtt þessa leiktíð að vel væri mætt á Anfield Road. Meðaltal áhorfenda á deildarleikjum liðsins var rúmlega 46.000. Kevin Baron kom Liverpool yfir á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Willie Fagan jók forystuna á 82. mínútu en mínútu síðar svöruðu heimamenn. Exeter barðist með kjafti og klóm en Jimmy Payne gulltryggði sigurinn tveimur mínútum fyrir leikslok. Lánið lék aftur við Liverpool í 5. umferð þegar liðið drógst gegn öðru 3. deildarliði Stockport County. Áhorfendur fylltu heimavöll Stockport. Liverpool mátti hafa sig alla við en hafði sigur 2:1. Willie Fagan og Albert Stubbins skoruðu. Í átta liða úrslitum var mótherjinn öllu erfiðari. Liverpool fékk heimaleik gegn Blackpool sem á þessum árum var mjög sterkt lið. Góður fréttirnar fyrir Liverpool áður en leikurinn hófst var að meistarinn Stanley Matthews var meiddur og gat ekki leikið. Það var gríðarlega stemning á Anfield og 53.973 áhorfendur mættu til leiks. Leikurinn var æsispennandi frá byrjun til enda. Willie Fagan náði forystunni fyrir heimamenn á 19. mínútu. Willie hafði þá skorað í öllum umferðum keppninnar til þessa. En fjórum mínútum síðar jafnaði enski landsliðsmaðurinn Stan Mortensen úr vítaspyrnu. Þannig var staðan í leikhlé og lengi leiks. Það voru aðeins níu mínútur til leiksloka þegar Billy Liddell skoraði glæsimark og tryggði Liverpool 2-1 sigur og sæti í undanúrslitunum.

TIL BAKA