Saga Liverpool FC

1950

Everton var líka komið í undanúrslit bikarkeppninnar og vonuðust stuðningsmenn beggja félaga eftir að liðin mættust ekki í undanúrslitum. Draumurinn var að bæði lið kæmust í úrslitaleikinn. Úr því varð þó ekki því nágrannarnir drógust gegn hvor öðrum og skyldi leikið á Maine Road, heimavelli Manchester City. Liðin höfðu einu sinni áður leitt saman hesta sína í undanúrslitum F.A. bikarsins. Það var árið 1906. Everton vann þá 2:0 og rændi Liverpool Tvennunni. Liverpool hafði haft betur í viðureignum liðanna í deildinni fyrr á leiktíðinni. Það var markalaust á Goodison í ágúst en Liverpool vann 3:1 á Anfield Road á aðfangadag jóla með tveimur mörkum frá Willie Fagan og einu frá Kevin Baron. Það var sólskin og milt veður þegar liðin gengu til leiks á Maine Road þann 25. mars. Það var mikið um að vera í íþróttalífi Liverpoolborgar þennan dag því veðreiðarnar frægu Grand National fóru líka fram. Alls voru 72.000 áhorfendur á leiknum og áhorfendastæðin voru rauð og blá að sjá. Liverpool var sterkara liðið frá upphafi til enda. Skalla frá Albert Stubbins var bjargað á línu á 24. mínútu en fimm mínútum seinna komst Liverpool yfir. Fyrir leikinn hafði varnarmaðurinn Bob Paisley fengið þau fyrirmæli frá George Kay framkvæmdastjóra að vera ekki of sókndjarfur en nú blandaði Bob sér í sóknarleikinn með eftirminnilegum hætti. Jimmy Payne sendi fyrir markið frá hægri kanti. Markvörður Everton George Burnett kýldi boltann frá markinu út fyrir teiginn. Boltinn barst beint til Bob Paisley sem lyfti honum í átt að markinu. Billy Liddell stökk upp með markverði Everton en hvorugur náði til boltans sem sveif í fallegum boga að marki og datt niður í vinstra hornið. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu gríðarlega. Bob sagði síðar frá markinu. "Þegar ég fékk boltann ætlaði ég að þruma að marki en mundi þá eftir viðvörun framkvæmdastjórans. Ég lyfti því boltanum í átt að markinu í von um að einhver félagi minn næði að ljúka sókninni." Á 62. mínútu gerði Liverpool út um leikinn. Varnarmaður Everton reyndi þá að forða hornspyrnu en sparkaði boltanum beint til Billy Liddell sem skoraði með föstu skoti neðst í fjærhornið. Billy sagðist síðar svo frá: "Markið var hrein gjöf. Eddie Wainwright reyndi að bjarga því að boltinn færi í horn en sparkaði honum beint til mín. Ég var í þröngu færi en negldi boltann viðstöðulaust af öllum kröftum að marki. Boltinn þaut í markið eins og eldflaug." Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu hressilega og í leikslok varð allt vitlaust meðal þeirra. Liverpool hafði slegið þá Bláu út og tryggt sér sæti í úrslitum F.A. bikarsins í annað skipti. Liðið tapaði 1:0 fyrir Burnley 1914 en nú skyldi bikarinn nást.

Liverpool mætti Arsenal í úrslitum en þeir höfðu lagt Chelsea 1:0 í undanúrslitum. Arsenal hafði gríðarlega sterkt lið á áratugnum fyrir síðari heimsstyrjöldina og var lið þess áratugar. Liðið var enn sterkt og státaði af mörgum þekktum og snjöllum knattspyrnumönnum. Fyrirliði Arsenal var Joe Mercer. Hann var fæddur og uppalinn í Liverpool og lék í nokkur ár með Everton. Árið 1946 var hann seldur til Arsenal. En hann flutti ekki búferlum til höfuðborgarinnar heldur bjó hann áfram í fæðingarborg sinni. Hann ferðaðist í leiki Arsenal en fékk þess í milli að æfa með Liverpool. Þetta boð Liverpool breyttist ekki eftir að ljóst varð hvaða lið myndu leiða saman hesta sína í bikarúrslitunum. Þó var gerð breyting síðustu dagana fyrir úrslitaleikinn. Þá varð Joe að æfa einn en samt fékk hann afnot af æfingasvæði Liverpool. Það er erfitt að ímynda sér svona fyrirkomulag nú á dögum. Liverpool hafði haft betur í báðum viðureignum sínum við Arsenal í deildinni. Liverpool vann 2:1 á Highbury með tveimur mörkum frá Albert Stubbins í september. Á Gamlársdag 1949 vann Liverpool 2:0 á Anfield með tveimur mörkum Billy Liddell. Leikmenn Liverpool gátu því gengið fullir sjálfstrausts til leiks.

Þetta var fyrsti leikur Liverpool á þjóðarleikvanginum sjálfum og það ríkti mikil tilhlökkun hjá öllum tengdum Liverpool Football Club. Stuðningsmenn Liverpool höfðu vonast eftir ferð á Wembley allt frá því þessi goðsagnakenndi leikvangur var tekinn í notkun árið 1923. Þá léku Bolton Wanderes og West Ham United til úrslita. Fyrirliði West Ham í þeim leik var framkvæmdastjóri Liverpool George Kay. George og félagar hans máttu þola tap 2:0. Nú var tækifæri fyrir George til að bæta úr. En veikindi settu strik í reikninginn hjá honum. Leikmenn og fylgdarlið Liverpool hélt úr borginni tveimur dögum fyrir leik en George var ekki heill heilsu. Álagið við stjórn liðsins var farið að segja til sín og George gat ekki undirbúið liðið sjálfur. Aðstoðarmaður hans Albert Shelley stjórnaði lokaundirbúningi leiksins á meðan George lá fyrir og safnaði kröftum fyrir stóra daginn. Þrátt fyrir veikindin harkaði George af sér og stýrði liðinu í leiknum. Á þessum árum var venjan sú, og hafði reyndar ætíð verið, að stjórn Liverpool réði endanlegu vali liðsins. Svo merkilegt sem það var þá var það ekki framkvæmdastjórinn sem réði. Hvað ætli stjórum nútímans þætti um slíkt? En stjórninni var nokkur vandi á höndum. Reyndar voru flest sæti sjálfskipuð en ein staða olli miklum heilabrotum. Laurie Hughes var orðinn leikfær svo og Bob Paisley. Báðir höfðu misst úr nokkra leiki vegna meiðsla. Laurie þó fleiri en hann hafði ekki leikið vegna tábrots frá því fyrir undanúrslitaleikinn gegn Everton. Hinn fjölhæfi Bill Jones hafði leikið í fjarveru þeirra Laurie og Bob og skilað sínu sérlega vel. Laurie var gríðarlega sterkur varnarmaður og þrátt fyrir að hann væri ekki í leikæfingu var ákveðið að hann skyldi settur í byrjunarliðið. Þá stóð valið á milli Bob og Bill. Sýndist sitt hverjum. Niðurstaðan varð sú að stjórnin hélt atkvæðagreiðslu um málið. Bob hlaut fjögur atkvæði en Bill fimm. Þetta var því liðið sem valið var til leiks: Cyril Sidlow, Ray Lambert, Eddie Spicer, Phil Taylor, Laurie Hughes, Bill Jones, Jimmy Payne, Kevin Baron, Albert Stubbins, Willie Fagan og Billy Liddell. Varamenn voru ekki komnir til sögunnar. Niðurstaða stjórnar Liverpool var reiðarslag fyrir Bob Paisley. Hann sagði aðspurður um vonbrigðin sem fylgdu því að missa af leiknum: "Ég er mjög vonsvikinn en þetta er ekki rétti tíminn til að íþyngja framkvæmdastjóranum og félögum mínum með persónulegum vandamálum. Ég vona bara að liðið mitt vinni án mín."

Laugardaginn 29. apríl var Wembleyleikvangurinn þéttskipaður eitthundrað þúsund áhorfendum. Bæði lið léku venjulega í rauðum búningum en þau breyttu bæði til í úrslitaleiknum. Liverpool lék í hvítum peysum með rauðum kraga og svörtum buxum. Í tilefni dagsins bar sú nýlunda við að Liverpool lék í fyrsta skipti í sögunni með félagsmerki sitt á peysunum. Arsenal lék í gulum peysum og hvítum buxum. Fyrirliðarnir Phil Taylor og Joe Mercer leiddu liðin til leiks. Fyrir leikinn heilsaði George konungur sjötti upp á leikmenn.

Þetta var mikill baráttuleikur við nokkuð erfiðar aðstæður. Það rigndi, völlurinn var blautur og erfiður yfirferðar. Það fór því fór minna fyrir snilldartilþrifum leikmanna. Eftir nokkuð góða byrjun Liverpool komst Arsenal yfir eftir 17 mínútur. Jimmy Logie sendi inn fyrir vörn Liverpool. Vörnin opnaðist illa og boltinn átti greiða leið á Reg Lewis sem renndi honum framhjá Cyril Sidlow úr miðjum teignum. Þrátt fyrir að lenda marki undir var ekki neinn bilbug að finna á leikmönnum Liverpool. George Swindin markvörður Arsenal hafði í mörgu að snúast. Hann sló boltann í þverslá á markinu sínu eftir fyrirgjöf Jimmy Payne en náði honum aftur áður en verr fór. Billy gaf litlu síðar vel fyrir markið. Albert henti sér fram og var hársbreidd frá því að skalla í markið. Varnarmenn Arsenal léku mjög fast og þótti mörgum nóg um framgöngu þeirra gegn Billy Liddell. Ekki var meira skorað í fyrri hálfleik og Skytturnar leiddu í hálfleik. Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti og sótti ákaft til að jafna. Billy skapaði mikla hættu af kantinum. Mesta hættan varð þegar George markvörður missti af einni fyrirgjafa hans. Jimmy Payne náði að skalla að markinu en aftur var heppnin með markverði Arsenal og hann komst í markið til að bjarga málunum á marklínu. Á 62. mínútu kom mark en það var ekki réttu megin frá sjónarhóli stuðningsmanna Liverpool. Arsenal átti þá snögga sókn. Hún endaði með því að Reg Lewis skoraði með viðstöðulausu skoti utarlega úr teignum. Annað mark hans. Stuðningsmenn Arsenal fögnuðu innilega og töldu sína menn vera komna með aðra hönd á bikarinn. Leikmenn Liverpool lögðu allt í sölurnar á lokasprettinum. Þeir Billy og Albert voru nærri markinu með skotum sínum en ekki nógu nærri. Það voru því stuðningsmenn Arsenal sem fögnuðu þriðja bikarmeistaratitli félagsins í leikslok. Joe Mercer æfingafélagi leikmanna Liverpool tók við bikarnum. Joe, sem var 35 ára, var elsti fyrirliði sögunnar til að taka við F.A. bikarnum. Hann var kosinn knattspyrnumaður ársins þetta ár.

Eins og nú veltu sparkspekingar úrslitunum fyrir sér. Sigur Arsenal var talinn sanngjarn en Liverpool fékk góða dóma fyrir mikla baráttu. Billy Liddell sagði síðar: "Mín skoðun er sú að við lögðum allt í sölurnar og vorum okkur ekki til minnkunar fyrir framan þúsundir stuðningsmanna okkar. En Arsenal verðskuldaði sigurinn." Margir töldu ástæðuna fyrir tapi Liverpool liggja í vali liðsins. Þar var átt við þá staðreynd að Bob Paisley hafði ekki verið valinn í byrjunarliðið. Hann hafði átt fast sæti í aðalliðinu á keppnistímabilinu og verið einn besti maður liðsins. Flestir reiknuðu fastlega með að Bob yrði í byrjunarliðinu. Til dæmis þeir sem prentuðu leikskrána. Þar mátti sjá nafn Bob Paisley í líklegri uppstillingu Liverpool. Eins tjáðu nokkrir félaga Bob sig um málið og þeir sem það gerðu söknuðu Bob úr byrjunarliðinu. Phil Taylor fyrirliði liðsins sagði: "Bob hlýtur að vera óheppnasti leikmaður sögunnar til að missa af úrslitaleik bikarins. Ég er viss um að við hefðum unnið ef hann hefði verið með." Úr þessu álitamáli verður ekki skorið en eftir stendur að Bob missti af tækifærinu til að bæta gullverðlaunapeningi í safnið. Hann var bikarmeistari áhugamanna með Bishop Auckland árið 1939 þegar liðið lagði Wellington 3:0. Bob sagði löngu síðar: "Ég missti af úrslitaleiknum. Í þá daga voru ekki varamenn en ég fékk samt síðar silfurverðlaunapening frá Knattspyrnusambandinu. Það voru mikil vonbrigði að missa af leiknum. En þessi reynsla kom mér vel síðar þegar ég var framkvæmdastjóri Liverpool. Þá varð ég stundum að setja einhvern út úr liðinu. Ég sagði þá gjarnan við þá sem í hlut áttu að ég vissi hvernig þeim liði. Þeir vissu að ég talaði af reynslunni." Síðar kom upp úr kafinu að vonbrigði Bob yfir því að missa af því að leika í úrslitaleiknum voru það mikil að hann íhugaði alvarlega að yfirgefa félagið. "Ég var kominn að því að fara fram á að ég yrði seldur." En félagar hans sem hann ræddi málið við báðu hann að rasa ekki um ráð fram. Bob hugsaði ráð sitt og ákvað að lokum að vera áfram á Anfield Road. Sjaldan hefur ein ákvörðun ráðið meiru um gang sögu Liverpool Football Club.

Að kvöldi úrslitaleiksins var stjórn Liverpool, leikmönnum liðsins, konum þeirra og öðru fylgdarliði boðið til móttöku á einu fínasta hóteli höfuðborgarinnar. Billy Liddell sagði svo frá: "Allir skemmtu sér vel en það vantaði eitthvað. Bikarinn sem við höfðum vonast eftir að hafa hjá okkur var fjarri." Daginn eftir var farið í skemmtiferð til Brighton og á mánudeginum var haldið heim til Liverpool. Hafi leikmenn Liverpool óttast kaldar kveðjur eftir að liðinu mistókst að vinna bikarinn þá voru það óþarfa áhyggjur. Það er sannarlega ekkert nýtt að stuðningsmenn Liverpool séu tryggir liðinu sínu. Móttökurnar komu leikmönnum og fylgdarliði Liverpool í opna skjöldu. Þúsundir hylltu liðið við komuna. Farið var frá Lime Street lestarstöðinni til Anfield Road þar sem liðið fór út á völlinn við mikinn fögnuð áhorfenda. Unglingalið félagsins var að spila og fékk þarna óvænta heimsókn. Því næst var haldið að ráðhúsi borgarinnar þar sem talið var að 10.000 borgarbúar hafi verið saman komnir til að hylla liðið. Borgarstjóri Liverpoolborgar og fleira stórmenni tók á móti liðinu við ráðhúsið. Ræður voru haldnar og liðinu hrósað fyrir vaska framgöngu. Billy Liddell sagði marga leikmenn liðsins hafa verið hrærða við þessar höfðinglegu móttökur. Hann sagði í ævisögu sinni: "Ég gleymi þessu kvöldi aldrei. Ég get ekki ímyndað mér hvernig móttökurnar verða þegar Liverpool vinnur F.A. bikarinn einhvern tíma í framtíðinni. Ég vona að það verði ekki langt í þá stund og ég vona að ég verði vitni að henni." Billy mátti bíða í fimmtán ár og það átti margt eftir að drífa á daga hans og Liverpool þangað til sú langþráða stund rann upp.

TIL BAKA