Kenny Dalglish


Liverpool byrjaði tímabilið 1990-91 af krafti og vann 8 fyrstu leikina með markatölunni 19-5 þ.á.m. 4-0 sigur gegn Man Utd. Liðið gerði 1-1 jafntefli gegn Norwich en svo hélt boltinn áfram að rúlla með 4 deildarsigrum í röð. Liverpool var komið með sex stiga forskot á Arsenal á toppnum. Liverpool fékk á sig síðbúið jöfnunarmark í 2-2 jafntefli gegn Man City og blöðin færðust öll í aukana. Það virtist varla sanngjarnt að gagnrýna lið sem hafði tapað alls fjórum stigum á tímabilinu og komið framyfir miðjan nóvember. En aðdáendur liðsins voru einnig vægðarlausir. Velgengni Liverpool hafði tekið sinn toll. Margir aðdáendur liðsins mundu ekki eftir Liverpool nema að þeir væru minna eða meira að valta yfir allt og alla. The Kop var hljóðlát og aðdáendur útiliðanna sungu "þið eigið að vera á heimavelli". Liverpool mætti Arsenal næst sem hafði tapað síðasta leik 2-6 fyrir Man Utd og menn bjuggust við Liverpool myndi blása til sóknar sem venjulega. En Dalglish kom fótboltaspekúlöntum á óvart með því að setja markahæsta leikmann liðsins Peter Beardsley á bekkinn. Hann ætlaði greinilega að spila stífa vörn og vernda forskotið á toppi deildarinnar með kjafti og klóm. En leikaðferð Dalglish kom honum í koll að þessu sinni. Liverpool beið sinn stærsta ósigur í rúmlega eitt ár 0-3 og fjölmiðlarnir bentu á að einum manni væri um að kenna. Dalglish neitaði að taka ábyrgð og kenndi leikmönnunum um hvernig fór. Þeir sem þekktu til Dalglish kom á óvart að hann skyldi gagnrýna leikmenn sína opinberlega því að hann predikaði almennt að það væri eitt það versta sem framkvæmdastjóri gæti gert leikmönnum sínum. Sjónvarpsvélarnar virtust alltaf vera á staðnum þegar miður gekk og vakti því enn meiri athygli á frammistöðu liðsins. Eftir 0-1 tap gegn Crystal Palace 30. desember voru blöðin uppfull af gagnrýni á störf Dalglish: "Kenny Dalglish hefur gert lítið úr þeirri gagnrýni að brestir séu sjáanlegir í liði hans en hann getur ekki litið framhjá því að liðið hefur tapað alls 8 stigum í höfuðborginni."

Það er ekki ofsögum sagt að fjölmiðlarnir sem aðrir fóru offari í gagnrýni sinni enda liðið tapað aðeins þrem leikjum fyrir áramót og á toppi deildarinnar. En Dalglish vissi samt að liðið var farið að eldast. Hansen var orðinn 36 ára, það var farið að slá út fyrir Hysen, Gillespie var 31 árs og Beardsley, Nicol, McMahon, Whelan og Rush að nálgast þrítugt. Ungir og efnilegir strákar voru á leiðinni en Fowler var einungis 17 ára og hinn 21 árs McManaman var búinn að fá nokkur tækifæri. Dalglish hafði komið á öflugri unglingastarfsemi á fyrsta tímabili sínu sem framkvæmdastjóri og réð Heighway til verksins en enginn unglinganna var enn fyllilega tilbúinn. Dalglish keypti ungan og efnilegan strák frá Bournemouth Jamie Redknapp, að nafni í byrjun ársins og svo kantmanninn Jimmy Carter frá Millwall. Aðdáendum liðsins varð brátt ljóst að Carter var ekki leikmaður í þeim gæðaflokki sem Liverpoolliðið krafðist. Liverpooliðið var fallið út úr Rumbelowsbikarnum og sloppið tvisvar með skrekkinn gegn annarrar deildar liðum í FA Cup. David Speedie var keyptur en mörgum fannst hinn 31 árs gamli Skoti einum of gamall en kaupin á honum þjónuðu sínum tilgangi til þess að stöðva hnignandi gengi liðsins. Hann skoraði í 1-1 jafntefli gegn Man Utd og tvö mörk í 3-1 sigri á Everton. Liverpool dróst gegn Everton í bikarkeppninni á Anfield. Liðin skildu jöfn 1-1. Knattspyrnusérfræðingurinn Jimmy Hill var ekki hrifinn:"Liðið er mjög óstöðugt. Hinir frábæru teknísku leikmenn sem voru á miðju Liverpool hér áður fyrr snúa sér örugglega við í gröfinni við að horfa á þessa meðalmennsku sem er ríkjandi".

Hvert sem Dalglish snéri sér hljómuðu gagnrýnisraddir. Einn sigursælasti leikmaður og framkvæmdastjóri enskrar knattspyrnu fékk ákúrur frá dagblöðum, sjónvarpi, öðrum framkvæmdastjórum og einnig, sem honum þótti ábyggilega verst, frá aðdáendum Liverpool á The Kop. Þrem dögum síðar mættu 37.000 áhorfendur á Goodison Park til þess að horfa á annan leik liðanna. Leikurinn var algjört augnakonfekt fyrir áhorfendur en sálarslítandi fyrir Dalglish. Liverpool náði forystunni fjórum sinnum an alltaf jafnaði Everton, 4-4 jafntefli niðurstaðan. Búningsherbergi Liverpool var ekki ánægjulegur staður til að vera á eftir leikinn. Ronnie Moran þrumaði yfir mannskapnum eins og hans var von og vísa og leikmennirnir skömmuðu hvern annan. Útileikmennirnir skömmuðu varnarmennina og heyrðust öskrin langt fram á gang. Einn maður stóð hins vegar þögull og álútur upp við vegg búningsklefans og starði fram fyrir sig. Næsta morgun mætti Dalglish á fund sem var almennt haldinn á mánaðarfresti með stjórnarmönnum félagsins, formanninum Noel White og stjórnarformanninum Peter Robinson. Þeir ræddu um atburði gærdagsins og þegar um tuttugu mínútur voru liðnar af fundinum leit Dalglish upp: "Ég ætla að segja af mér sem framkvæmdastjóri Liverpool." White og Robinson störðu á hvorn annan og héldu að þeim hefði misheyrst en Dalglish var viss í sinni sök. Hann kvartaði undan þreytu og streitan sem hann fann fyrir á leikdögum var orðin óbærileg og fannst honum eins og hausinn á sér væri að springa. Hann hafði hugleitt að hætta í lok síðasta tímabils en ákvað að halda áfram þrátt fyrir greinileg merki streitu. En Dalglish átti eftir að koma félögum sínum enn meira á óvart: "Ég vil fara núna, í dag." White og Robinson höfðu gengið út frá að hann ætlaði að hætta í lok tímabilsins og spurðu hvort að hann hefði fengið betra tilboð annars staðar frá en hann neitaði því og sagðist ekki geta þolað þetta ástand öllu lengur. Hann væri oft með hausverk og kominn með útbrot um allan líkamann og vildi hætta áður en þetta yrði heilsu hans enn skeinuhættari óvinur. Dalglish vildi á brott og enginn gat talið honum hughvarf.

TIL BAKA