Kenny Dalglish


Ljóst var að næsta tímabil yrði erfitt að fylgja sigri í deild og bikar eftir. Liverpoolaðdáendur setti hljóða þegar tilkynnt var í upphafi leiktíðarinnar að Ian Rush myndi fara til Juventus eftir tímabilið. Liverpool spilaði ágætis knattspyrnu og var ætíð við toppinn og eftir 5 leikja sigurhrinu í mars var Liverpool komið með fimm stiga forskot á Everton og útlit fyrir að Liverpool myndi halda titilinum en þá tapaði Liverpool 3 deildarleikjum í röð og Everton gekk á lagið. Liverpool tapaði einnig fyrir Arsenal í úrslitum deildarbikarsins og aðdáendur liðsins örvæntu. Púllarar reyndust hafa gilda ástæðu til að örvænta því að loknu tímabilinu stóð liðið uppi tómhent í einungis þriðja skipti á síðastliðnum 15 árum.

Það var ljóst að Dalglish þyrfti að endurbyggja sóknarleik liðsins. Gullkálfurinn Rush farinn til Ítalíu og lítið borið á manninum sem átti að taka stöðu hans. John Aldridge hafði verið keyptur í febrúar en lítið fengið að spreyta sig þrátt fyrir að standa sig ágætlega þegar hann fékk tækifæri. Dalglish hafði sínar ástæður og tjáði Aldridge að hann ætlaði að spila eftir öðru kerfi með kantmönnum á næsta tímabili og myndi hann falla inn í það og vera mikilvægur hluti af nýja liðinu. En Dalglish þurfti einnig að fylla skarð eins besta leikmanns í sögu félagsins, hann þurfti að finna einhvern til þess að fylla skarð leikmannsins Kenny Dalglish. Hann hafði haft augastað á John Barnes hjá Watford nokkuð lengi. Barnes vildi fara og Dalglish beið ekki boðanna en Barnes tók sinn tíma að ákveða sig og virtist bíða eftir tilboði frá Ítalíu sem barst svo aldrei. Barnes skrifaði undir hjá Liverpool fyrir 800.000 pund. Liverpool greiddi svo metupphæð fyrir leikmann á Bretlandseyjum er þeir reiddu fram 1.9 milljónir punda fyrir Peter Beardsley frá Newcastle. Dalglish lagði mikið að veði og var þetta virkilegur prófsteinn á hæfileika hans sem framkvæmdastjóra að skapa sterka liðsheild. Þetta var hans lið.

Highbury var fyrsti viðkomustaðurinn á nýrri leiktíð og strax á 9. mínútu gaf Liverpool tóninn um það sem koma skyldi. John Barnes gaf fyrir og Aldridge skoraði með skalla. Liverpool gat ekki spilað á Anfield fyrr en eftir nokkrar vikur vegna viðgerða á röralögnum undir The Kop og gerði sér að góðu að halda aftur á útivöll og Coventry reyndist eiga lítið í Dalglish og félaga. Úrslitin 4-1, Nicol með tvö, Aldridge skoraði úr víti og Beardsley skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið. West Ham var næst en sjaldgæf mistök hjá Hansen hleypti Hömmrurum aftur inn í leikinn og jafntefli varð niðurstaðan. 12. september var loksins komið að Anfield og mörk frá Aldridge og Barnes gegn Oxford trylltu lýðinn. Aðdáendur liðsins sáu enga ástæðu til þess að þagna í fyrstu 29 leikjum liðsins á tímabilinu. Nicol skoraði þrennu gegn Newcastle og þrír 4-0 sigrar í röð fylgdu á eftir gegn Derby, Portsmouth og efsta liði deildarinnar QPR. Peter Shilton markvörður Derby átti varla orð yfir frammistöðu Liverpool: "Þetta er besta lið Liverpool sem ég hef nokkru sinni leikið gegn." Alan Ball framkvæmdastjóri Portsmouth þakkaði Liverpool fyrir góða kennslustund: "Þetta var dýrmæt reynsla fyrir mína menn, það var hrein unun að fylgjast með þeim í seinni hálfleik. Þeir hafa leikmenn sem geta leikið fótbolta og unnið leiki, ég gæti örugglega leikið í þessu liði."

Liverpool lét ekki staðar numið í deildinni fyrr en 20. mars. Liðið hafði leikið 29 leiki, unnið 22, gert 7 jafntefli, skorað 65 mörk og fengið á sig 13. Veðbankar í Englandi voru hættir að taka við veðmálum um hverjir yrðu meistarar. Goðsagnir eins og Platini hrósuðu frammistöðu liðsins og Tom Finney einn besti leikmaður sem upp hefur verið í Englandi sagði eftir 5-0 sigur Liverpool á Nottm. Forest að: "þetta hlýtur að vera besta lið allra tíma. Þetta var besta frammistaða sem ég hef séð á löngum ferli mínum sem leikmaður og síðar áhorfandi." Formaður Forest tók í sama streng og sagði að það hefði gilt einu hverjir andstæðingarnir hefðu verið í kvöld, ekkert lið í Evrópu hefði staðist þeim snúning." Liverpool hafði jafnað met Leeds frá 1974, taplaust í 29 deildarleikjum en Everton og Wayne Clarke sáu um að Liverpool næði ekki 30. leiknum. Veðbókarar í Englandi vörpuðu léttar en þeir horfðu í samtals 100 milljóna króna tap ef Liverpool hefði ekki tapað leik á leiktíðinni. 23. apríl skoraði Beardsley sigurmark Liverpool gegn Tottenham á Anfield og titillinn var í höfn er fjórir leikir voru eftir í deildinni. Einu vonbrigðin voru að Liverpool tapaði óvænt gegn Wimbledon í úrslitum F.A. bikarsins og kom í veg fyrir aðra tvennu. Dalglish hafði greinilega hitt naglann á höfuðið í leikmannakaupum sumarsins. Aldridge skoraði 29 mörk í 45 leikjum, Beardsley skoraði 18 mörk í 48 leikjum og John Barnes skoraði 17 mörk í 48 leikjum og var kosinn leikmaður ársins bæði af blaðamönnum og leikmönnum. Það þurfti ekki að koma neinum á óvart að Dalglish var valinn framkvæmdastjóri ársins. Liverpool hafði unnið titillinn með glæsibrag og endurspeglaði leikur liðsins stíl framkvæmdastjórans. Þetta var ekki lið Joe Fagan eða Bob Paisley. Þetta lið spilaði sókndjarfari fótbolta en lið hinna fyrrnefndu og byggðist meira á einstaklingsframtaki afar snjallra leikmanna þótt að liðsheildin væri firnasterk. Þetta var lið Kenny Dalglish.

TIL BAKA