Kenny Dalglish

Kenneth Mathieson Dalglish fæddist 4. mars árið 1951 í Dalmarnock í austurbæ Glasgow aðeins í hendingsfjarlægð frá heimavelli Celtic, Parkhead. En fjölskyldan staldraði þar stutt við og flutti í blokk í Milton sem hafði gott útsýni yfir æfingarvöll Rangers. Dalglish vakti snemma eftirtekt fyrir færni sína í knattspyrnu og fór fremstur í flokki drengjaliðs sem KFUM rak með miklum myndarskap. Hann var valinn í skoska u-15 ára landsliðið og lék sinn fyrsta leik gegn N-Írum og tryggði liðinu 4-3 sigur með tveimur mörkum. Aðeins fimmtán ára gamall lék Kenny Dalglish í fyrsta skipti í búningi Liverpool. Dalglish var boðið til vikudvalar til Liverpool og lék einn leik með B-liðinu gegn Southport í 1-0 sigri 20. ágúst 1966. Dalglish snéri síðan aftur og heyrði ekki meir frá Liverpool. Ian Ross æskufélagi Kenny og leikmaður með Liverpool (var einnig þjálfari K. R. og Vals hérna um árið) minnist atviks er gerðist tveim árum síðar er Dalglish var orðinn leikmaður hjá Celtic. "Ég og Bill Shankly sátum í móttöku hótels í London og vorum að horfa á sjónvarpið er sýndar voru svipmyndir frá leik þar sem Dalglish skoraði þrennu. Shankly sagði: "Ian, þú hlýtur að þekkja þennan strák, hann kemur frá þínum heimaslóðum”. "Jú" sagði ég, "hann kom einmitt til reynslu til Liverpool fyrir um tveim árum síðan”. "Hvað!", æpti Shankly, "hvað gerðist?". "Ekkert" svaraði ég, "hann fór bara tilbaka og enginn hafði samband." Shankly trúði ekki sínum eigin eyrum. Hann var orðinn öskureiður og ætlaði sér að komast að því hver væri ábyrgur fyrir þessu klúðri.

Frá þeirri stundu fylgdist Shankly grannt með framgangi stráksins. Nokkrum árum þegar Ross var að koma af æfingu stöðvaði Shankly bifreið sína og sagðist vera á leiðinni til Derby að sjá Dalglish spila með u-23 ára landsliði Skota. Daginn eftir spurði Ross, Shankly hvernig Dalglish hefði staðið sig í gær. Shankly muldraði: "Ekki tala við mig um Dalglish, hann var eini maðurinn á vellinum, Kristur! Þvílíkur leikmaður!" Shankly hafði reglulega samband við Jock Stein framkvæmdastjóra Celtic en hann vildi aldrei selja og Shankly iðraðist þess ætíð að Liverpool keypti ekki Dalglish þegar þeim bauðst hann á silfurfati.

Þrátt fyrir áhuga Dalglish á að ganga til liðs við uppáhaldslið sitt Rangers tók hann boði Celtic í júlí 1967. Liðið var þá nýbakaður Evrópumeistari og með ótal stjörnur innanborðs. Billy McNeill, ein stærsta stjarna Celtic og síðar framkvæmdastjóri liðsins, veitti stráknum strax eftirtekt er Dalglish æfði með aðalliðinu: "Hann var sjálfsöryggið uppmálað og virtist þegar fullskapaður leikmaður." En Jock Stein stjóri Celtic fór varlega í hlutina. Dalglish var lánaður til Cumbernauld United sem var eitt þeirra liða sem Celtic notaði til þess að ala leikmenn sína upp. Kenny skoraði fjögur mörk í fyrsta leiknum sínum og þegar keppnistímabilið var yfirstaðið hafði hann skorað 37 mörk. Dalglish vildi gerast atvinnumaður strax en Stein vildi láta hann spila annað tímabil með Cumbernauld en strákur stóð fast á sínu og eftir að hafa leitað liðsinnis föður síns til þess að tala um fyrir Stein lét stjórinn undan. Þrátt fyrir að koma inn í þennan stjörnufans hjá Celtic, hafði Bobby Lennox einn besti leikmaður liðsins það á orði að Dalglish bjó yfir svo miklum klassa að hann féll strax vel inn í hópinn. Dalglish lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Celtic 25. september 1968 er hann kom inná í síðari hálfleik í 4-2 sigri á liði Hamilton Academicals í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Hann lék með varaliðinu allt tímabilið 1968-69 en skoraði aðeins 4 mörk í 17 leikjum. Hann var svo færður á miðjuna tímabilið eftir og byrjaði vel. Stein setti hann því í byrjunarlið aðalliðsins 4. október 1969 gegn Raith Rovers en Dalglish skoraði ekki og sama var uppi á teningnum í hinum þrem leikjunum sem hann fékk tækifæri í. Varaliðið naut hins vegar góðs af hæfileikum Dalglish sem tryggði liðinu tvöfaldan sigur í deild og bikar og státaði af 19 mörkum í 31 leik, ekki slæmur árangur hjá miðvallarleikmanni.

Kenny var við sama heygarðshornið næsta tímabil og skoraði 23 mörk er varalið Celtic straujaði yfir alla andstæðinga sína og leikmenn liðsins skoruðu alls 108 mörk í 34 leikjum. Dalglish lék 5 aðalliðsleiki til viðbótar en enn komst hann ekki á blað hjá aðalliðinu. Undir lok tímabilsins 22. apríl 1971 skoraði hann fjögur mörk gegn erkifjendunum Rangers í varaliðsdeildinni en hápunktur tímabilsins var þegar Glasgow-liðin mættust í bikarúrslitum varaliða fjórum dögum síðar. Dalglish skoraði aðeins eitt mark í 4-1 sigri Celtic í fyrri leiknum en í seinni leiknum fjórum dögum seinna sýndi hann þeim enga miskunn og skoraði þrennu í 6-1 sigri. Stein gat ekki verið annað en hrifinn af vaskri framgöngu piltsins og valdi hann í aðallið Celtic í ágóðaleik gegn Kilmarnock. Celtic vann 7-2 og skoraði Dalglish sex mörk. Það var ljóst að strákurinn var orðinn að manni og leiðin lá upp í aðalliðið.

TIL BAKA