Kenny Dalglish


Dalglish hafði ætíð verið til fyrimyndar sem leikmaður. Sean Fallon sem benti Celtic á strákinn telur helstu kosti Dalglish:
1) Hann var jafngóður með vinstri og hægri.
2) Hann hafði ótrúlegt sjálfstraust.
3) Hann hafði gott jafnvægi. Hann stóðst tæklingar og hélt boltanum.
4) Hann hafði ætíð jákvætt hugarfar.
5) Baráttuglaður.
6) Atvinnumaður fram í fingurgóma. Hann hugsaði vel um sig, drakk ekki, reykti ekki, fór snemma í rúmið og lagði hart að sér á æfingum.
Dalglish var haldinn fullkomnunaráráttu og var ætíð lengur á æfingasvæðinu en aðrir til þess að ná betri tökum á boltatækni sinni. Hann naut þess að leika fótbolta og gaf sig ávallt allan í leikinn. Þessir eiginleikar nýttust honum vel á nýjum starfsvettvangi sem framkvæmdastjóri. Hann hafði einungis verið stjóri eitt tímabil þegar hann var búinn að vinna tvennuna. Það yrði erfitt fyrir hann að toppa það en frammistaða liðsins 1987-88 var enn glæsilegri en áður hafði þekkst. Hann var að kafna í viðurkenningum og fögrum lýsingarorðum en sjálfsagt gerði hann sér ljóst að ár vonbrigða myndu fylgja í kjölfarið. Væntingar til liðsins og framkvæmdastjórans voru orðnar óraunhæfar. Margir töldu að manngerð hans hæfði ekki framkvæmdastjórastöðunni vegna þess hversu innilokaður hann var gagnvart fjölmiðlum. Hann var ekki kaldlyndur og hörkunagli heldur hlý og kærleiksrík manneskja sem myndi þola illa afskipti fjölmiðla sem annarra af gjörðum sínum. Hann var versta martröð fjölmiðlanna að því leyti að blaðamannafundirnir voru heldur tíðindalitlir enda hafði hann lítinn áhuga á að tjá sig við þá. Eða eins og einn blaðamaður lýsti fyrstu viðkynnum sínum af Dalglish: "Ég kom inn í skrifstofuna hans og hann bauð mér sæti og sagði síðan: "þú veist ekkert um fótbolta og ég veit ekkert um fjölmiðla svo að okkur ætti að koma vel saman". Hann gleymdi því líka seint ef einhver í fjölmiðlum setti út á lið Liverpool eða frammistöðu hans sem leikmanns eins og blaðamaður í Glasgow komst að snemma á ferli Dalglish hjá Celtic. Blaðamaðurinn var á gangi í Glasgow þegar ungur strákur vék sér að honum og sagði: "var ekki", "fyrirgefðu", sagði blaðamaðurinn, "var ekki hvað?", strákurinn svaraði: "var ekki rangstæður"… þá minntist blaðamaðurinn að hann hafði skrifað fjórum vikum áður að rangstöðulykt hafi verið af einu marki Dalglish.

Kenny átti ekki auðvelt með að taka gangrýni. Hann var ætíð viss um að ákvarðanir sínar voru þær réttu og í meirihluta tilvika má álykta að hann hafi haft rétt fyrir sér og því var erfitt fyrir hann að lesa dagblað þar sem einhver hafði gagnrýnt störf hans sem hafði aldrei snert á fótbolta eða komið nálægt stjórn knattspyrnuliðs. Liverpool er eitt stærsta knattspyrnulið í heimi og því gífurlega mikið álag sem fylgir því að vera við stjórnvölinn og þá sérstaklega fyrir fullkomnunarsinna og innilokaðan persónuleika eins og Dalglish.

Frábærir leikmenn eins og Bobby Charlton höfðu spreytt sig á framkvæmdastjórastöðunni með litlum árangri. En Paisley var viss um að Dalglish myndi standa sig vel: "Hæfileikaríkir leikmenn eru eins og einleikarar í sinfóníuhljómsveit. Þeir bjarga sér upp á eigin spýtur og eiga það til að líta niður til þeirra sem hafa ekki eins mikla hæfileika. Kenny Dalglish var ekki þess eðlis. Hann hleypti öðrum inn í leikinn. Hann skildi að allir voru ekki eins hæfileikaríkir og hann. Hann hafði þolinmæði". En öllum getur brostið þolinmæðin og Dalglish gaf undan þrýstingnum eftir 5 ár í starfi framkvæmdastjóra. Hann sagði síðar að ef Liverpool hefði boðið sér starfið aftur áður en þeir réðu Souness um sumarið þá hefði hann snúið tilbaka. En svo fór sem fór og Dalglish sneri aftur á Anfield fjórum árum síðar sem framkvæmdastjóri Blackburn og fagnaði enn einum meistaratitlinum.TIL BAKA