Kenny Dalglish


Liverpool var í miklum ham í byrjun næstu leiktíðar. Liðið skoraði 35 mörk gegn 4 í níu sigrum í fyrstu tíu leikjunum, Dalglish hafði skorað 10 þessara marka. Liðið bar sigurorð af Tottenham 7-0 sem minnst er í dag sem einnar glæsilegustu frammistöðu Liverpool í deildarleik. En Liverpoolvélin hikstaði ærlega er þeir féllu út fyrir meisturum Nottm Forest í fyrstu umferð Evrópukeppninnar og töpuðu gegn Arsenal og Bristol City. En vélin hrökk aftur í gang er Liverpool rasskellti Man Utd 3-0 um jólin og tapaði einungis einum leik það sem eftir var keppnistímabilsins. Liverpool setti nýtt deildarmet: 68 stig (2 stig fyrir sigur) og fengu aðeins 16 mörk á sig. Liverpool státaði ennfremur af 19 sigurleikjum, tveimur jafnteflum og engu einasta tapi á Anfield. Ray Clemence hélt hreinu 17 sinnum og mátti hirða boltann aðeins 4 sinnum úr netinu á Anfield. Liverpool vann titillinn með 8 stiga mun á Nottm Forest og Dalglish átti stóran þátt í þessari einstæðu velgengni. Hann skoraði 21 deildarmark og náði vel saman við David Johnson í framlínunni sem skoraði sjálfur 16 mörk í deildinni. Dalglish hafði nú skorað 56 mörk í 116 leikjum á fyrstu tveimur tímabilunum sínum hjá Liverpool og framganga hans vann hug og hjörtu fjölmiðla sem kusu hann leikmann ársins.

Tímabilið 1979/80 var svipað að því leyti að Liverpool féll út í fyrstu umferð Evrópukeppninnar en glæsileg framganga í deildinni tryggði þeim titillinn annað árið í röð. Dalglish skoraði nú 16 mörk í deildinni á móti 21 deildarmörkum Johnson. 1980-81 gekk Liverpool illa í deildinni og endaði í 5. sæti sem var lélegasti árangur liðsins í tíu ár. Varnarmennirnir meiddust sitt á hvað og Dalglish missti sjálfur úr 8 leiki vegna meiðsla. Framlínan var hálfbitlaus með þá Johnson og Dalglish. Kenny skoraði ekki deildarmark frá nóvember til loka tímabilsins og endaði einungis með 8 deildarmörk. Miðvallarleikmaðurinn Terry McDermott tók við markaskoruninni og setti alls 22 mörk. Liverpool og Dalglish fóru hins vegar á kostum í deildarbikarnum og í Evrópu. Dalglish skoraði 8 mörk á leið þeirra til sigurs í deildarbikarnum þar af 1 í seinni úrslitaleiknum gegn West Ham. Í Evrópukeppni Meistaraliða átti Liverpool tiltölulega greiða leið í undanúrslitin en þá mættu þeir þýsku meisturunum frá Munchen. Bæjarar voru ekki gjafmildir á Anfield og endaði leikurinn markalaus en í Þýskalandi skoraði Ray Kennedy sigurmark Liverpool eftir góðan undirbúning blökkumannsins Howard Gayle sem hafði komið inná fyrir Dalglish. Andstæðingarnir í úrslitaleiknum voru engir aðrir en Spánarmeistarar Real Madrid. Það var ekki víst hvort Dalglish gæti leikið í úrslitaleiknum í Róm þar sem hann hafði verið meiddur að undanförnu en Liverpool án Dalglish var ekki vænlegur kostur í stórleik sem þessum. Dalglish reyndist vörn Real-manna erfiður í leiknum en meiðslin höfðu tekið sinn toll af þreki kappans og hann var tekinn útaf um miðjan síðari hálfleik. Dalglish sat því á bekknum þegar úrslit leiksins réðust á 81. mínútu. Alan Kennedy braust inn í teiginn vinstra megin, prjónaði sig í gegn og skoraði með glæsilegu skoti í nærhornið 1-0 og Dalglish var orðinn Evrópumeistari í annað sinn.

Liverpool byrjaði illa á næsta tímabili og var komið í neðri hluta deildarinnar í október. Liverpool ruddi CSKA Sofia frá Búlgaríu auðveldlega úr vegi í Evrópu á síðasta tímabili en nú snérist dæmið við. CSKA sló út Liverpool í átta liða úrslitum. Dalglish hafði ekki enn skorað og nú voru orðnir 11 mánuðir síðan hann skoraði síðast í deildinni. Heldur rytjulegur Walesbúi var kominn fram á sjónarsviðið og varð félagi Dalglish í framlínunni. Hann hafði fengið tækifæri í 9 leikjum á síðasta tímabili en ekki tekist að skora. Honum héldu engin bönd á þessu tímabili. Hann skoraði 30 mörk í 49 leikjum og Dalglish náði að meira segja 22 mörkum en þurfti ekki að hafa lengur áhyggjur af því að vera aðalmarkaskorari liðsins. Ian Rush var mættur á svæðið! Dalglish og Rush blómstruðu saman í framlínunni og Liverpool hafði ekki átt betra framherjapar í sögu klúbbsins. Árangurinn í deildinni lét ekki lengur á sér standa. Liverpool vann 18 af 20 deildarleikjum sínum eftir jól og fagnaði meistaratitli. Árið eftir var Dalglish arkitektinn að deildarmeistaratitlinum. Hann skoraði 18 mörk í deildinni og Rush hagnaðist vel af að spila frammi með honum enda ófá mörkin sem hann skoraði eftir snilldarsendingar félaga síns. Dalglish var kosinn leikmaður ársins bæði af leikmönnum og fjölmiðlum.


TIL BAKA