| Sf. Gutt

Stoltur fyrirliði

Jamie Carragher var stoltur eftir að hafa tekið við sínum fyrsta bikar sem fyrirliði Liverpool í gærkvöldi. Jamie leddi Liverpool til leiks sem fyrirliði eftir að úrskurður féll um að Steven Gerrard gæti ekki spilað leikinn. Eins og venjulega átti Jamie mjög góðan leik og fór fyrir sínum mönnum. Eftir leikinn tók hann við Stórbikarnum. Þetta var stór stund fyrir Jamie.

,,Það er gaman að hafa unnið þennan bikar. Nú stefnum við á að vinna eins marga titla og við mögulega getum. Við vorum án Stevie í kvöld. En það var gaman að lyfta bikarnum og það var mikill heiður. Þetta er annar Evróputitill og önnur þriggja marka endurkoma. Við erum farnir að leggja þetta í vana okkar.

Það er vissulega gaman að hafa unnið þennan bikar. En það hefði ekki verið neinn heimsendir þótt við hefðum tapað honum. Ef maður vinnur leikinn þá er það viðurkenning fyrir það sem við afrekuðum á síðustu leiktíð og það er frábært að taka þátt í leiknum. Þessi leikur er á hærri stalli en til dæmis leikurinn um Góðgerðarskjöldinn á Englandi. Þetta er annar bikar og maður fær ekki svo mörg tækifæri á að vinna Evróputitla. Það eru ekki margir leikmenn í Úrvalsdeildinni sem hafa unnið Evróputitla. Þess vegna verður maður að grípa tækifæri sem þetta með báðum höndum.

Það var sérstakt fyrir mig að vera fyrirliði. Það jók vissulega á ánægjuna. En það mikilvægasta var að vinna leikinn. Ég var þakklátur Steven Gerrard fyrir að leyfa mér að taka við bikarnum. Sem fyrirliði liðsins þá hefði hann getað gert það. En hann vildi að ég gerði það."

Fyrirliðinn hrósaði líka varamanninum sem skipti sköpum í leiknum. Djibril Cisse kom til leiks skoraði tvö mörk og lagði það þriðja upp fyrir Luis Garcia. ,,Djibril langar líklega að afsanna eitt og annað og hann brást við á réttan hátt. Hann vann bikarinn fyrir okkur í kvöld."

Jamie varð Stórbikarmeistari í annað sinn í gærkvöldi. Hann var líka í sigurliði Liverpool gegn Bayern Munchen árið 2001. Hann ásamt þeim Sami Hyypia, John Arne Riise og Dietmar Hamann urðu fyrstu leikmennirnir í sögu Liverpool til að vinna Stórbikar Evrópu í tvígang. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan