| Sf. Gutt

Til hamingju!


Virgil van Dijk spilaði sinn 250. leik með Liverpool á móti Brentford. Hann kom til Liverpool frá Southampton á nýársdag 2018 og hefur alla tíð verið fastamaður í liði Liverpool. Ekki er vafi á því að hann er og hefur verið meðal bestu miðvarða í heimi. Hvar sem hann er í þeirri röð þá er ekki spurning að þeim 75 milljónum sterlingspunda sem Liverpool borgaði fyrir hann var vel varið. 


Eins og fyrr segir er Virgil búinn að spila 250 leiki fyrir hönd Liverpool. Hann hefur skorað 21 mark og lagt upp níu. Frá því hann kom til Liverpool hefur hann unnið allt sem hægt er að vinna. 

Fyrir þessa leiktíð var Virgil gerður að fyrirliða Liverpool. Honum hefur farnast vel í því hlutverki og hann hefur ekki leikið betur frá því hann meiddist alvarlega á hné haustið 2020. Hver veit nema Virgil eigi eftir að taka á móti bikar á sinni fyrstu leiktíð sem fyrirliði. Virgil hefur líka verið fyrirliði hollenska landsliðsins síðustu misseri. 


Virgil setti nýtt félagsmet í leiknum á móti Brentford. Hann náði þá þeim árangri að hafa verið oftast í sigurliði Liverpool í sínum fyrstu 250 leikjum. Liverpool hefur unnið 171 af leikjunum 250. 


Virgil van Dijk 171 leikir.
Alisson Becker 168 leikir.
Sadio Mané 164 leikir.
Andrew Robertson 163 leikir.
Mohamed Salah 162 leikir.
Alan Kennedy 160 leikir.
Steve McMahon 155 leikir.
Ian Rush 153 leikir.

Sannarlega magnaður árangur hjá Virgil að vera efstur á þessum lista. Það segir sína sögu um gott gengi Liverpool síðustu árin að fimm núverandi leikmenn séu efstir á átta manna listanum yfir flesta sigra í fyrstu 250 leikjum sínum. Tekið skal fram að leikirnir eru í öllum keppnum. 

Liverpool klúbburinn á Íslandi óskar Virgil til hamingju með áfangann!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan