| Sf. Gutt

Fabinho farinn!


Nú í kvöld var staðfest að Fabinho Tavarez hafi yfirgefið Liverpool. Hann heldur suður á bóginn eins og Jordan Henderson og hefur gert samning við Al-Ittihad í Sádi Arabíu. Samningurinn er til þriggja ára. Liverpool fær 40 milljónir sterlingspunda fyrir Brasilíumanninn. 


Fabinho Tavarez kom til Liverpool frá franska liðinu Monaco sumarið 2018. Liverpool borgaði 43 milljónir sterlingspunda fyrir hann. Það tók tíma fyrir Fabinho að fóta sig í ensku knattspyrnunni en þegar hann var búinn að ná áttum varð hann framúrskarandi í stöðu aftasta miðjumanns. Hann var lykilmaður aftast á miðjunni og varði vörnina áföllum.


Á síðustu leiktíð var Fabinho lengi vel ólíkur sjálfum sér. Það var ekki fyrr en á síðustu vikum sparktíðarinnar að hann fór að spila eins og hann átti að sér. Töldu flestir að hann myndi halda áfram á sömu braut á nýrri leiktíð. Ekki var neitt útlit á öðru en að hann myndi halda áfram hjá Liverpool en fyrr í mánuðinum spurðist út að Al-Ittihad hefði áhuga á honum. Það var ekki að sökum að spyrja. Hann stóðst ekki mátið og fór til Sádi Arabíu. 


Fabinho spilaði 219 leiki með Liverpool. Hann skoraði 11 mörk og lagði upp níu. Fabinho vann sex titla með Liverpool.  Hann varð Englandsmeistari 2020, FA bikarmeistari 2023, Deildarbikarmeistari 2023, Evrópumeistari 2019, Stórbikarmeistari Evrópu 2019 og Skjaldarhafi 2023. 

Liverpool klúbburinn á Íslandi þakkar Fabinho Tavarez fyrir framlag sitt til félagsins og óskar honum góðs gengis í framtíðinni.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan