| Grétar Magnússon

Enn eitt jafnteflið

Liverpool og Brighton gerðu 3-3 jafntefli í kaflaskiptum leik. Slök byrjun í leikjum varð enn og aftur okkar mönnum að falli.

Byrjunarlið Jürgen Klopp kom eilítið á óvart en þeir Diogo Jota, Darwin Núnez og Luis Díaz voru allir á bekknum og Fabio Carvalho fékk tækifæri vinstra megin af fremstu þrem. Annars var liðið þannig skipað: Alisson í marki, Trent Alexander-Arnold, Joel Matip, Virgil van Dijk og Kostas Tsimikas í vörninni og á miðjunni voru þeir Fabinho, Jordan Henderson og Thiago. Fremstu þrír voru Mohamed Salah, Roberto Firmino og áðurnefndur Carvalho.

Ekki var langt liðið á leikinn þegar gestirnir voru komnir yfir. Sending kom inná teiginn sem Trent skallaði burt en fyrir framan teiginn var Henderson eitthvað að gaufa með boltann og missti hann til Danny Welbeck sem kom boltanum á Leandro Trossard í teignum. Hann lék auðveldlega framhjá Trent og setti boltann í markið. Eftir þetta voru Brighton mun betri og við getum þakkað Alisson fyrir að þeir voru ekki búnir að auka við forystuna fljótlega eftir markið. Hann varði vel skalla af stuttu færi frá Welbeck og átti svo frábært úthlaup til að stöðva skot Trossard í vítateignum, sitthvort dauðafærið og heimamenn hreinlega ekki mættir til leiks. Mohamed Salah sýndi smá lit hinumegin og lúmskt skot hans var varið vel af Sánchez í markinu. En Brighton komust verðskuldað í 0-2 forystu skömmu síðar þegar Trossard skoraði með góðu skoti vinstra megin í teignum. Ekki veit ég hvað var í gangi hjá leikmönnum Liverpool en þessi spilamennska er því miður hætt að koma manni mikið á óvart.

Þetta fór þó batnandi eftir því sem leið á hálfleikinn og einhver færi litu dagsins ljós sem ekki tókst að nýta. Á 33. mínútu tókst þó að koma boltanum í mark Brighton en aðstoðardómarinn var fljótur að lyfta upp flaggi sínu til merkis um rangstöðu. Salah hafði sent Firmino í gegn með snyrtilegri snertingu og Firmino kláraði vel. Myndbandsdómgæslan skoðaði málið auðvitað og komst réttilega að því að Salah var ekki rangstæður. Ánægjulegt að sjá þessum dómi snúið við, staðan orðin 1-2 og nóg eftir af leiknum. Það gerðist þó ekki mikið markvert það sem eftir lifði hálfleiks og heimamenn gengu því til búningsherbergja marki undir.

Klopp gerði eina breytingu í hálfleik, setti Luis Díaz inná fyrir Carvalho, sem hafði nú ekki verið áberandi í fyrri hálfleik en hann gerði þó sitt besta. Níu mínútur voru búnar af seinni hálfleik þegar Firmino skoraði sitt annað mark í leiknum. Brighton áttu hornspyrnu sem ekkert varð úr og boltinn barst til Díaz sem tók á rás í átt að marki, upp vinstri kantinn. Hann lék nær marki nánast óáreittur og inní vítateiginn þar sem hann fann Firmino. Brasilíumaðurinn fíflaði tvo snilldarlega og lagði boltann í markið framhjá Sánchez. Staðan jöfn og allt gat nú gerst. Firmino var svo ekki langt frá því að skora þrennu þegar hann skallaði að marki en Sánchez varði. Pressa heimamanna var farin að virka almennilega og gott ef maður skynjaði ekki að þriðja markið væri skammt undan. Á 63. mínútu tók Trent hornspyrnu frá hægri. Sánchez reyndi að kýla boltann burt en náði engri snertingu við boltann sem fór af Webster og í markið. Frábært að vera búnir að snúa tapi í sigur en nú var stóra spurningin sú hvort það tækist að halda forystunni. Það er skemmst frá því að segja að það tókst auðvitað ekki, saga tímabilsins þannig séð. Trossard jafnaði metin þegar sjö mínútur voru eftir og ekki tókst Liverpool mönnum að bæta við einu marki í viðbót. Næst því komst Trent þegar frábært skot úr aukaspyrnu hans var slegið frá af Sánchez. Lokatölur afskaplega pirrandi 3-3.



Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Tsimikas (Milner, 58. mín.), Henderson (Elliott, 59. mín.), Fabinho, Thiago (Núnez, 89. mín.), Salah, Firmino (Jota, 75. mín.), Carvalho (Díaz, 45. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Gomez, Phillips, Arthur.

Mörk Liverpool: Roberto Firmino (33. og 54. mín.) og sjálfsmark (63. mín.).

Gult spjald: Alexander-Arnold.

Brighton: Sánchez, Veltman, Dunk, Webster, March, Mac Allister, Caicedo, Estupiñán (Lallana, 75. mín.), Groß (Mitoma, 65. mín.), Trossard (Lamptey, 87. mín.), Welbeck. Ónotaðir varamenn: Steele, Colwill, Sarmiento, Encisco, Undav, Gilmour.

Mörk Brighton: Leandro Trossard (4. 17. og 83. mín.).

Gult spjald: Estupiñán.

Áhorfendur á Anfield: 53.336.

Maður leiksins: Roberto Firmino skoraði tvö mörk og hefði með smá heppni getað skorað fleiri í leiknum. Það er ánægjulegt að sjá hann aftur á meðal markaskorara á ný og hann hefur farið vel af stað á tímabilinu. En því miður dugði það ekki til þess að fá þrjú stig í sarpinn í dag.

Jürgen Klopp: ,,Vanalega tekst okkur að aðlagast andstæðingum fljótt en þegar það tókst í þessum leik vorum við 0-2 undir. Við börðumst þó fyrir því að komast inní leikinn aftur og komumst yfir. En sú staða minnti mig á okkur sjálfa fyrir nokkrum árum síðan þegar allir fengu nánast hjartaáfall yfir því hversu ósannfærandi við vorum í að halda forystu og klára leiki. Ég get ekki sagt að ég hafi verið 100% viss um að þeir myndu ekki jafna leikinn í stöðunni 3-2."

Fróðleikur:

- Roberto Firmino hefur nú skorað fimm mörk í deildinni.

- Liverpool sitja í 9. sæti deildarinnar með 10 stig eftir sjö leiki.

- Brighton eru í fjórða sæti með 14 stig eftir sjö leiki.

- Liverpool hefur lent undir í 12 af síðustu 15 leikjum sínum í öllum keppnum. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan